Sverrir Þór Sverrisson sjónvarpsstjarna og grínari fór í heimsreisu í fyrra með pabba sínum, Sverri Friðjónssyni. Feðgarnir gerðu sjónvarpsþætti um ferðalagið sem sýndir verða í Sjónvarpi Símans Premium í febrúar.
Þáttaröðin heitir „Pabbi skoðar heiminn“ og verður fyrsti þátturinn sýndur 4. febrúar. Þetta er frumraun föðurins á hvíta tjaldinu en sonurinn hefur verið þar iðinn við kolann frá aldamótum. „Sverrir Þór sagði að ég héngi bara heima, nennti ekki að hreyfa mig, færi aldrei út og kominn væri tími til þess að dusta rykið af skónum, fara aftur með honum á Rolling Stones-hljómleika, sjá Tottenham spila eða gera eitthvað,“ segir Sverrir í viðtali við Morgunblaðið.