Grammy-verðlaun, Emmy-verðlaun, BAFTA-verðlaun, Golden Globe-verðlaun og Óskarsverðlaun? Sellóleikarinn, tónskáldið og söngkonan Hildur Guðnadóttir hefur hlotið fern fyrstnefndu verðlaunin fyrir tónlist sína í sjónvarpsþáttunum Chernobyl og kvikmyndinni Joker. Hún þykir einnig líkleg til að hljóta Óskarsverðlaunin.
Óskarsverðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í Dolby-leikhúsinu í Los Angeles seint á sunnudagskvöld að íslenskum tíma. Hildur er tilnefnd í flokki bestu kvikmyndatónlistar fyrir kvikmyndina Joker, þar sem hún etur kappi við eftirtalda:
Tilnefningar fyrir kvikmyndatónlist
Alexandre Desplat - Little Women
Randy Newman - Marriage Story
Thomas Newman - 1917
John Williams - Star Wars: The Rise of Skywalker.
Hildur er sjöundi Íslendingurinn til að fá tilnefningu til Óskarsverðlauna. Tónskáldið Jóhann Jóhannsson heitinn var tilnefndur árin 2015 og 2016 fyrir tónlist í kvikmyndunum The Theory of Everything og Sicario en þau Hildur og Jóhann unnu mikið saman áður en hann féll frá í febrúar fyrir tveimur árum.
„Hildur hefur þegar gert tónlist við margar kvikmyndir, m.a. Eiðinn eftir Baltasar Kormák. Þá hefur hún gert tónlist í samstarfi við Jóhann Jóhannsson í nokkrum myndum síðustu ár.“ Þetta kemur fram í viðtali við Hildi sumarið 2017. Lög hennar vöktu þá mikla athygli í þáttaröðinni Handmaid's Tale.
Þegar viðtalið var tekið sagði Hildur að hún væri að vinna að kvikmyndatónlist og að nóg væri fram undan hjá henni. „Ég get ekki kvartað undir verkefnaskorti,“ segir hún. „Það er mjög mikið að gera, allt á milljón. En það er mjög skemmtilegt í vinnunni.“
Hildur, sem er fædd árið 1982 og verður 38 ára í september, hefur gefið út fjórar sólóplötur: Mount A (2006), Without Sinking (2009), Leyfðu Ljósinu (2012) og Saman (2014). Fyrst vakti hún athygli hér á landi sem söngkona hljómsveitarinnar Woofer en þá var Hildur 15 ára.
Upp úr aldamótum stofnaði hún hljómsveitina Rúnk þar sem hún spilaði ásamt meðal annars tónlistarmönnunum Prins Póló og Benna Hemm Hemm.
Hildur varð fyrsta konan til að hljóta Golden Globe-verðlaunin ein fyrir tónlist í kvikmynd og má segja að hún hafi þar fetað í fótspor ömmu sinnar. Amma hennar, Margrét Guðnadóttir heitin, veirufræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, var fyrsta konan sem var skipuð prófessor við Háskólann. Hún starfaði sem veirufræðingur á Keldum frá 1960 til 1969 og síðan sem prófessor í sýklafræði við læknadeild Háskóla Íslands þar til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 1999.
Margrét var sæmd heiðursdoktorsnafnbót við læknadeild Háskóla Íslands árið 2011 fyrir vísindaframlag á sviði veirufræði og greiningar veirusýkinga. Sonur hennar er Guðni Kjartan Franzson, klarinettleikari og tónlistarkennari. Hann eignaðist Hildi með Ingveldi Guðrúnu Ólafsdóttur óperusöngkonu.
Hildur á bræður sem látið hafa að sér kveða á tónlistarsviðinu. Sá eldri, Gunnar Örn Tynes með hljómsveitinni Múm, og sá yngri, Þórarinn Guðnason, með Agent Fresco en Hildur hefur unnið náið með þeim báðum.
„Báðir foreldrar mínir eru tónlistarmenn og margir í fjölskyldunni. Tónlist hefur verið í kringum mig síðan áður en ég fæddist. Ég held ég hafi farið í fyrsta sellótímann fimm ára,“ sagði Hildur í viðtali við Morgunblaðið árið 2005 þegar hún lauk fyrsta allra námi af brautinni tónsmíðar/nýmiðlar við Listaháskóla Íslands.
Hildur sagði í viðtali við Morgunblaðið fyrir fjórum árum að henni hefði þótt eðlilegt að leita inn á vettvang tónlistarinnar.
„Tónlistin er mín líflína, ég hætti ekkert í henni úr þessu,“ sagði Hildur sem býr í Berlín ásamt eiginmanni sínum, bandaríska tónskáldinu Sam Slater, og syni þeirra, Kára. Báðir hlutu þeir þakkir þegar Hildur fagnaði Golden Globe-verðlaunum í byrjun árs en Hildur sagði í lokin að verðlaunin væru fyrir Kára.
„Ég hafði svo sem ekki ætlað mér neitt sérstaklega út í kvikmyndatónlist en það hefur einhvern veginn bara æxlast þannig síðustu ár að ég hef unnið mikið í kvikmyndum,“ sagði Hildur í áðurnefndu viðtali, áður en verðlaunin fóru að „hrúgast“ inn hjá henni.