Loðnuvertíð gæti aukið hagvöxt umtalsvert

Komast loðnunætur í notkun gæti það aukið hagvöxt um 0,5%.
Komast loðnunætur í notkun gæti það aukið hagvöxt um 0,5%. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Loðnu­vertíð gæti skilað um 0,5 pró­sent­um hærri hag­vexti í ár, en vertíðin er háð því að loðna finn­ist í nægi­legu magni í fe­brú­ar­leiðangri Haf­rann­sókna­stofn­un­ar, að því er fram kem­ur í færslu á vef stjórn­ar­ráðsins. Þar seg­ir jafn­framt að loðnu­brest­ur geti orðið til þess að hag­vaxt­ar­horf­ur versni um allt að 0,2 til 0,3 pró­sent.

Þrátt fyr­ir að loðna hafi ekki fund­ist í nægi­legu magni til þessa er ekki öll von úti og eru for­dæmi fyr­ir því að kvóti hafi verið marg­faldaður í kjöl­far leit­ar í fe­brú­ar, til að mynda árið 2017.

„Árin 2016-18 nam út­flutn­ings­verðmæti loðnu að meðaltali um 18 ma.kr. Aðeins út­flutn­ings­verðmæti þorsks var meira, eða 95 ma.kr. Árið 2019 var eng­in loðna veidd en út­flutn­ings­verðmæti birgða nam ríf­lega 8 ma.kr,“ seg­ir í færsl­unni. En þar er bent á að „sam­bæri­leg loðnu­vertíð og árin 2016-18 myndi skila um 0,5 pró­sent­um meiri hag­vexti í ár en ella. […] Verði afla­brest­ur má bú­ast við að hag­vaxt­ar­horf­ur geti versnað um allt að 0,2-0,3% að öðru óbreyttu.“

„Tals­verð staðbund­in áhrif“

Talið er að loðna hafi ekki jafn mikla þýðingu fyr­ir hag­kerfið og áður þar sem út­flutn­ings­grein­arn­ar séu nú fjöl­breytt­ari en áður. „Tekj­ur af loðnu dreifast hins veg­ar á fá fyr­ir­tæki og sveit­ar­fé­lög. Af því leiðir að afla­brest­ur get­ur haft tals­verð staðbund­in áhrif. Á það t.d. við í Fjarðabyggð og Vest­manna­eyj­um en skip með skráða heima­höfn í þess­um sveit­ar­fé­lög­um eiga meira en helm­ing afla­heim­ilda í loðnu.“

Þá er einnig bent á að um­rædd sveit­ar­fé­lög reiði sig á fleira en loðnu­veiðar. „Mörg þeirra eru t.a.m. um­svifa­mik­il í mak­ríl­veiðum, en Alþjóðahaf­rann­sókn­aráðið hef­ur lagt til að há­marks­afli í mak­ríl árið 2020 verði 922 þúsund tonn, sem er 20% aukn­ing frá fyrra ári. Mik­il sókn sjókvía­eld­is vinn­ur einnig að ein­hverju leyti upp á móti afla­bresti í loðnu á Aust­fjörðum.“

mbl.is