Kjaraviðræður Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hefjast á þriðjudag. Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, kveðst hóflega bjartsýnn.
„Þetta fer af stað á þriðjudag í næstu viku. Þá munum við hitta SFS og afhenda þeim okkar kröfur og þeir afhenda sínar. Þetta verður fyrsti samningafundurinn, en við erum búin að eiga marga fundi á samningstímanum,“ segir Valmundur í samtali við 200 mílur, sem dreift var með Morgunblaðinu í dag.
Hann segir fundina á samningstímanum hafa verið um 40 og á þeim hafi verið ræddar ýmsar bókanir í kjarasamningi sjómanna. „En það eru ekki efnislegar breytingar á samningi heldur bókanir í sambandi við hvíldartíma, styttingu á samningum og einföldun.“
Spurður hvort hann sé vongóður um að samningar náist svarar formaðurinn: „Við vorum nú samningslausir í sex ár síðast, það eru bara komnir um tveir mánuðir núna. Við erum hóflega bjartsýnir. Okkur ber náttúrlega skylda til að reyna að ná samningi og það er markmiðið. Við erum tilbúnir í alvöruviðræður og vonandi þeir líka. Það stendur ekki á okkur að setjast niður.“
Hann segist ekki getað tjáð sig um kröfur félagsins að svo stöddu, en að þær liggja fyrir og séu undir höndum samninganefndar. „Við viljum fá að koma þeim á framfæri við okkar viðsemjendur áður en við förum að básúna um það í fjölmiðlum. En vissulega eru þetta kröfur sem eru þess eðlis að þær eru til hagsbóta fyrir sjómenn.“
Er spurt er hvort hætta sé á öðru sjómannaverkfalli segir Valmundur ekki tímabært að tjá sig um það. „Það veit maður aldrei en við verðum að byrja að tala saman áður en við ákveðum eitthvað um það.“