Kyrrsetningu namibískra stjórnvalda á Heinaste, skip í eigu Esju Holding sem Samherji á meirihluta í, var aflétt á miðvikudag en var í dag kyrrsett aftur. Áður hafði skipið verið kyrrsett vegna brota á fiskveiðilöggjöf en nú vegna brota á lögum um skipulagða glæpastarfsemi, að því er segir í umfjöllun Kjarnans.
Skipstjóri Heinaste, Arngrímur Brynjólfsson, var á miðvikudag dæmdur til að greiða sekt vegna ólöglegra veiða. Kröfu namibískra stjórnvalda um að gera skipið upptækt var hins vegar vísað frá.
Ný kyrrsetning stjórnvalda er sögð vera til bráðabirgða á meðan yfirvöld vinna kröfugerð sína vegna meintra brota á lögum um skipulagða glæpastarfsemi.
Fram kom í tilkynningu frá Samherja í gær að unnið væri að því að hætta starfsemi í Namibíu og að tvö af þremur skipum félagsins sem höfðu stundað veiðar við strendur landsins væru nú komin úr lögsögu þess. Þá sagði í tilkynningunni að unnið væri að því í samráði við namibísk stjórnvöld að finna lausnir hvað þriðja skipið, Heinaste, varðar.