Segja namibíska lögreglu hunsa dómsúrskurð

Verksmiðjutogarinn Heineste hefur verið kyrrsettur á ný og telur Samherji …
Verksmiðjutogarinn Heineste hefur verið kyrrsettur á ný og telur Samherji það ólöglega aðgerð.

Útgerðarfélagið Samherji segir að það hafi nú óverulegra hagsmuna að gæta í Namibíu miðað við umfang starfseminnar áður, en að þótt skipin Geysir og Saga hafi siglt frá landinu hafi markmiðið verið að halda verksmiðjutogaranum Heinaste áfram í Namibíu í því skyni að selja það eða leigja áfram til namibískra yfirvalda.

Telur félagið að kyrrsetning skipsins í annað sinn sé í andstöðu við namibísk lög og að lögreglan hafi vísvitandi hunsað dómsúrskurð í máli Arngríms Brynjólfssonar, sem dæmdur var til sektargreiðslu vegna ólögmætra veiða í síðustu viku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu á vefsíðu sinni.

Á miðvikudaginn var greint frá því að Arngrímur hefði hlotið dóm vegna ólögmætra veiða og gaf Samherji frá sér yfirlýsingu í kjölfarið um að það myndi uppfylla allar skyldur sínar og væri ánægt með að mál Arngríms væri til lykta leitt með átta milljóna króna sekt. Hafði skipið verið kyrrsett meðan það mál var fyrir dómi.

Næsta dag var Heinaste aftur kyrrsett af yfirvöldum í Namibíu, en skipunum Geysi og Sögu hafði þá verið siglt í burtu með skömmum fyrirvara.

Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Icelandair.
Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Icelandair. mbl.is/​Hari

Í tilkynningunni frá Samherja í dag er haft eftir Björgólfi Jóhannssyni, starfandi forstjóra fyrirtækisins, að endurnýjuð kyrrsetning standist ekki namibísk lög. „Við munum grípa til ráðstafana til að hnekkja henni fyrir namibískum dómstólum ef nauðsyn krefur.“

 „Við höfum af því áhyggjur að namibíska lögreglan hafi vísvitandi hunsað dómsúrskurðinn og neitað að skila pappírum skipsins til eiganda þess eins og dómstóllinn fyrirskipaði að ætti að gera. Þetta seinkar áformum um endurráðningu áhafnar skipsins til hagsbóta fyrir namibískt samfélag,“ er haft eftir Björgólfi.

mbl.is