53% minni útflutningur til Japans

Loðnubrestur hefur haft veruleg áhrif á umfang viðskipta við Noreg …
Loðnubrestur hefur haft veruleg áhrif á umfang viðskipta við Noreg og Japan. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Nokk­ur breyt­ing varð á hlut­deild stærstu viðskiptalanda Íslend­inga með sjáv­ar­af­urðir á ár­inu 2019 frá fyrra ári, seg­ir í frétta­bréfi Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi (SFS). Bent er sér­stak­lega á að tals­verður sam­drátt­ur varð í út­flutn­ingi Íslands til þeirra landa sem flytja inn mikið af loðnu­af­urðum og að Nor­eg­ur og Jap­an séu þar fremst í flokki.

Sam­drátt­ur í út­flutn­ingi á sjáv­ar­af­urðum til Nor­egs nam 4,9 millj­örðum króna milli ár­anna 2018 og 2019, sem er um 23%. Má rekja sam­drátt­inn til loðnu­brests­ins og fór hlut­deild Nor­egs í út­flutn­ings­verðmæt­um sjáv­ar­af­urða úr 9,0% í 6,4%. Jafn­framt féll Nor­eg­ur um eitt sæti á lista yfir helstu viðskipta­lönd Íslands milli ár­anna 2018 og 2019, úr fjórða í fimmta sæti.

Útflutn­ings­verðmæti sjáv­ar­af­urða til Jap­ans dróst sam­an um 4,6 millj­arða króna milli ár­anna 2018 og 2019, nem­ur sam­drátt­ur­inn 53%. Hlut­deild Jap­ans í út­flutn­ings­verðmæt­um sjáv­ar­af­urða fór úr 3,7% í 1,6% á milli ára. Fram kem­ur í frétta­bréfi SFS að „Jap­an er stærsta viðskipta­land Íslend­inga með fryst­ar loðnu­af­urðir. Voru Jap­an­ir 16. stærsta viðskiptaþjóð Íslend­inga með sjáv­ar­af­urðir á ár­inu 2019 en árið 2018 voru þeir í tí­unda sæti.“

mbl.is