Nokkur breyting varð á hlutdeild stærstu viðskiptalanda Íslendinga með sjávarafurðir á árinu 2019 frá fyrra ári, segir í fréttabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Bent er sérstaklega á að talsverður samdráttur varð í útflutningi Íslands til þeirra landa sem flytja inn mikið af loðnuafurðum og að Noregur og Japan séu þar fremst í flokki.
Samdráttur í útflutningi á sjávarafurðum til Noregs nam 4,9 milljörðum króna milli áranna 2018 og 2019, sem er um 23%. Má rekja samdráttinn til loðnubrestsins og fór hlutdeild Noregs í útflutningsverðmætum sjávarafurða úr 9,0% í 6,4%. Jafnframt féll Noregur um eitt sæti á lista yfir helstu viðskiptalönd Íslands milli áranna 2018 og 2019, úr fjórða í fimmta sæti.
Útflutningsverðmæti sjávarafurða til Japans dróst saman um 4,6 milljarða króna milli áranna 2018 og 2019, nemur samdrátturinn 53%. Hlutdeild Japans í útflutningsverðmætum sjávarafurða fór úr 3,7% í 1,6% á milli ára. Fram kemur í fréttabréfi SFS að „Japan er stærsta viðskiptaland Íslendinga með frystar loðnuafurðir. Voru Japanir 16. stærsta viðskiptaþjóð Íslendinga með sjávarafurðir á árinu 2019 en árið 2018 voru þeir í tíunda sæti.“