Meta stöðuna ört næstu daga

„Viðbragðsgeirinn á Íslandi hefur aldrei verið jafnmikið á tánum og …
„Viðbragðsgeirinn á Íslandi hefur aldrei verið jafnmikið á tánum og núna,“ segir Davíð Már Bjarna­son hjá Slysa­varna­fé­lag­inu Lands­björg.

„Við metum stöðuna ört á næstu tveimur sólarhringum hvort gripið verði til sérstaks viðbragðs. Það eru um 4.000 björgunarsveitarmenn tilbúnir að svara kallinu þegar það kemur eins og ávallt,“ segir Davíð Már Bjarna­son hjá Slysa­varna­fé­lag­inu Lands­björg. 

Spáð er óveðri aðfararnótt föstudags. Gefin hefur verið út gul viðvörun fyrir allt landið þegar sérlega djúp og áköf lægð skellur á landinu úr suðvestri. Fastlega má búast við að viðvöruninni verði breytt í appelsínugula. Það skýrist seinna í dag eftir fund sérfræðinga meðal annars frá Veðurstofu Íslands og almannavörnum.   

Ekki hafa verið teknar ákvarðanir enn sem komið er um það hvort bækistöðvar verði mannaðar með björgunarsveitarfólki. „Það eru allir með augun á veðrinu og fylgjast með því. Slíkar ákvarðanir verða líklega teknar í dag eða á morgun,“ segir Davíð Már. 

„Viðbragðsgeirinn“ aldrei jafnmikið á tánum og nú

Björgunarsveitarfólk sem og aðrir viðbragðsaðilar eru í góðri þjálfun að takast á við óveður sem hafa verið býsna skæð síðustu mánuði. „Fjölda margar áætlanir og verkferlar hafa verið virkjaðir í tengsl við öll þessi óvissustig sem hefur verið lýst yfir undanfarið. Viðbragðsgeirinn á Íslandi hefur aldrei verið jafnmikið á tánum og núna,“ segir Davíð Már. 

mbl.is