Afladagbókar-app í fulla notkun í sumar

Rafræna afladagbókin mun einfalda til muna greiningu og eftirlit.
Rafræna afladagbókin mun einfalda til muna greiningu og eftirlit. Mynd/Fiskistofa

Leif­ur Magnús­son, sviðstjóri upp­lýs­inga­tækni­sviðs Fiski­stofu, seg­ir for­ritið verða til mik­ils hægðar­auka fyr­ir sjó­menn. Það sem skipti Fiski­stofu þó mestu máli sé rekj­an­leiki gagn­anna og aukn­ir mögu­leik­ar til eft­ir­lits með fisk­veiðum.

Eins og fram kem­ur á vef Fiski­stofu skila stærri skip svo­kölluðum ra­f­ræn­um afla­dag­bók­um til Fiski­stofu. Flestall­ir smá­bát­ar und­ir tíu brútt­ót­onn­um hafa hins­veg­ar skilað afla­dag­bók­um inn á papp­írs­formi. Nú verður hins veg­ar sú breyt­ing á að sjó­menn munu með til­komu smá­for­rits­ins slá upp­lýs­ing­arn­ar beint inn í appið.

Mik­ill áhugi

Leif­ur seg­ist nú þegar hafa orðið var við mik­inn áhuga á app­inu en skilj­an­lega gæti það tekið tíma fyr­ir ein­hverja að venj­ast notk­un þess. Því verði boðið upp á aðlög­un­ar- tíma­bil þar sem þeir sem það vilja geti haldið áfram að nota papp­írs­dag­bæk­urn­ar um sinn. „Ég sé fyr­ir mér að appið verði komið í fulla notk­un í sum­ar þegar strand­veiðarn­ar hefjast. Þá munu hundruð báta fara á sjó og gögn­in byrja að streyma til okk­ar. Það verður stóra prófið,“ seg­ir Leif­ur.

Leifur Magnússon, sviðsstjóri upplýsingatæknisviðs Fiskistofu
Leif­ur Magnús­son, sviðsstjóri upp­lýs­inga­tækni­sviðs Fiski­stofu Ljós­mynd/​Aðsend

Afla­dag­bók­in virk­ar þannig að ein­göngu þarf að vera í síma- eða net­sam­bandi við upp­haf og lok veiðiferðar. Appið skrá­ir sjálf­krafa staðsetn­ingu báts­ins við veiðar og skip­stjórn­ar­menn skrá afla, ástand hans og meðafla með ein­föld­um hætti í for­rit­inu, ásamt því sem veiðarfæri eru skráð, veðurfar og fleira. Þá geym­ir appið gögn yfir fyrri veiðiferðir þannig að hægt verður að skoða afla­brögð aft­ur í tím­ann og sjá töl­fræði um veiðarn­ar.

Leif­ur seg­ir að upp­lýs­ing­arn­ar úr gömlu papp­írs­bók­un­um nýt­ist Fiski­stofu í sjálfu sér ekki mikið, enda hafi sjó­menn mjög rúm­an tíma til að skila bók­un­um inn. „Þegar við fáum þær til okk­ar staðfest­um við mót­töku þeirra og send­um þær svo til Haf­rann­sókna­stofn­un­ar. Þar eru upp­lýs­ing­arn­ar slegn­ar inn í gagna­grunn, sem er tíma­frekt ferli. Með nýja for­rit­inu fáum við upp­lýs­ing­arn­ar til okk­ar áður en bát­arn­ir koma að landi.“

Nýt­ist hafn­ar­starfs­mönn­um

Leif­ur seg­ir að upp­lýs­ing­arn­ar sem koma úr app­inu nýt­ist einnig hafn­ar­starfs­mönn­um sem vinna við vigt­un afl­ans. Upp­lýs­ing­arn­ar munu í framtíðinni streymi inn í þeirra kerfi og vigt­ar­menn geta borið þann afla sem skráður er í appið á leið í land sam­an við þann afla sem er vigtaður þegar í land er komið. „Appið get­ur líka látið vita ef til dæm­is einn bát­ur af tíu, sem all­ir hafa verið að veiðum á sama svæði, eru með mjög ólíka afla­sam­setn­ingu. Þá þarf að skoða það nán­ar.“

Leif­ur seg­ir að Fiski­stofa sé einnig með í smíðum kerfi fyr­ir þá aðila sem hafa leyfi til að end­ur­vi­gta afl­ann í vinnslu­húsi. „Sum­ir vilja vigta afl­ann án íss­ins sem notaður er til kæl­ing­ar á fisk­in­um, og hafa til þess sér­stakt leyfi. Appið mun einnig nýt­ast inn í það kerfi.“

Einfalt verður að skrá afla sem kemur að landi.
Ein­falt verður að skrá afla sem kem­ur að landi. Ljós­mynd/​Heiðar Kristjáns­son

Þróun rík­is­ins tíma­skekkja

Gervi­greind mun nýt­ast við að rýna í gögn­in sem koma úr app­inu að sögn Leifs. „Með því að nota t.d. gervi­greind get­urðu séð ým­is­legt út úr gögn­un­um sem þú sæir ekki með eig­in aug­um.“

Ra­f­ræna afla­dag­bók­in sem minnst var á hér að ofan, og stærri skip­in í flot­an­um nota, er kom­in til ára sinna að sögn Leifs. Hann seg­ir að nú í kjöl­far smíðar­inn­ar á app­inu verði farið í að smíða sér­staka gátt fyr­ir stærri skip­in sem taki við gögn­um frá þeim. „Við ætl­um að hætta að fram­leiða PC tölvu­for­rit og senda út á flot­ann. Það er komið tals­vert af aðilum á markaðnum sem hafa áhuga á að þróa svona búnað. Það er tíma­skekkja að ríkið sé að þróa og viðhalda svona stór­um for­rit­um og senda út um allt með til­heyr­andi flækj­um. Okk­ar hlut­verk er ein­fald­lega að taka við gögn­un­um, geyma þau, rýna í þau og opna á aðgang að þeim.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: