Aukin snjóflóðahætta í ofsaveðrinu

Mest verður snjóflóðahætta á Vestfjörðum og Austfjörðum, en raunar má …
Mest verður snjóflóðahætta á Vestfjörðum og Austfjörðum, en raunar má búast við því að hættan aukist alls staðar á landinu. mbl.is/RAX

Talsvert er af nýjum snjó víða á landinu og má búast við því að hætta á snjóflóðum aukist talsvert í ofsaveðrinu sem gengur yfir landið á morgun.

Þetta segir Óliver Hilmarsson, sérfræðingur á ofanflóðasviði Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. Spáð er austan- og norðaustanfárviðri á öllu landinu á morgun.

„Það má alveg búast við því að hættan aukist aðeins í þessu veðri, á meðan það gengur yfir. Það er víða á landinu talsvert af nýjum snjó. Hann fer á hreyfingu þótt það sé kannski ekki mikil úrkoma fyrst. Það hvessir mikið og verður skafrenningur og svo bætir í úrkomu,“ segir Óliver.

Mest verður snjóflóðahætta á Vestfjörðum og Austfjörðum, en raunar má búast við því að hættan aukist alls staðar á landinu.

mbl.is