Átak verður gert í mælingu á veiðistofni loðnu í næstu viku er sex skip verða við loðnumælingar. Skipin halda væntanlega út síðdegis á sunnudag eða þegar veðrinu slotar. Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, segist í Morgunblaðinu í dag ekki minnast þess að áður hafi svo mörg tekið þátt í loðnumælingu samtímis.
Auk rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar taka Aðalsteinn Jónsson SU, Heimaey VE, Hákon EA, Börkur NK og grænlenska skipið Polar Amaroq þátt í mælingunni. Tveir til þrír rannsóknamenn frá Hafrannsóknastofnun verða um borð í hverju veiðiskipanna en leiðangursstjóri er Birkir Bárðarson fiskifræðingur.
Spurður hvort hann sé bjartsýnn á niðurstöður leiðangursins í næstu viku segir Guðmundur: „Ég er bjartsýnn á að við náum góðri mælingu, hver niðurstaðan verður veit ég ekki. Óvissan verður væntanlega með minnsta móti, þar sem mörg skip gefa tækifæri á að hafa leiðarlínur þéttar. Það er mikið fengið með því að fara í svona mikið átak á stuttum tíma.“