Samherji vonar að RÚV dragi lærdóm af málinu

Samherji hefur lýst yfir ánægju sinni með að Ríkisútvarpið hafi leiðrétt frétt sem var flutt í fréttatímanum 13. febrúar.

Í leiðréttingunni kemur fram að starfsmenn Samherja hafi ekki verið ákærðir eða dæmdir og biðst fréttastofan velvirðingar á þeirri staðhæfingu. Efnislega sama leiðrétting var svo flutt í seinni sjónvarpsfréttatíma RÚV í gærkvöldi.

„Það er ánægjulegt að RÚV hafi áttað sig á mistökunum og viðurkennt að flutt hafi verið frétt með fullyrðingum sem eiga ekki við nein rök að styðjast. Samherji vonar að fréttastofan dragi lærdóm af þessu máli til að fyrirbyggja að slík mistök endurtaki sig í framtíðinni,“ segir í tilkynningu Samherja.

mbl.is