Fjórðungur tísta um loftslagsvá frá þjörkum

Í ljós kom að á meðaldegi á því tímabili sem …
Í ljós kom að á meðaldegi á því tímabili sem skoðað var voru 25% allra tísta sem fjölluðu um loftslagsvánna (e. climate crisis) frá bottum. AFP

Fjórðung­ur allra færslna sem lúta að lofts­lags­vánni og hlýn­un jarðar á sam­fé­lags­miðlin­um Twitter er sett­ur í loftið af sjálf­virk­um not­end­um – svo­kölluðum „bott­um“ eða þjörk­um – sem hafa enga mann­eskju af holdi og blóði að baki sér. Þetta kem­ur fram í nýrri rann­sókn frá vís­inda­mönn­um við Brown-há­skóla í Banda­ríkj­un­um sem enn bíður birt­ing­ar.

Fjallað er um óbirta rann­sókn­ina á vef breska blaðsins Guar­di­an í dag, en þar seg­ir að rann­sak­end­ur hafi farið yfir millj­ón­ir tísta sem sett voru í loftið á enskri tungu um það leyti sem Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti til­kynnti að Banda­rík­in myndu draga sig frá Par­ís­ar­sam­komu­lag­inu, 1. júní árið 2017. 

Alls voru 6,5 millj­ón­ir tísta greind­ar með tóli sem heit­ir Botometer og var hannað við Indi­ana-há­skóla í Banda­ríkj­un­um, en tólið grein­ir hegðun not­enda á Twitter og sker úr um hvort um sé að ræða raun­veru­leg­an not­anda eða þjark.

Í ljós kom að á meðal­degi á því tíma­bili sem skoðað var voru 25% allra tísta sem fjölluðu um lofts­lags­vána (e. clima­te cris­is) frá þjörk­um og þjark­arn­ir voru einnig ábyrg­ir fyr­ir 38% allra tísta sem sner­ust um gervi­v­ís­indi (e. fake science) auk 28% allra tísta um olíu­fyr­ir­tækið Exxon. 

Þjark­arn­ir voru einnig á meðal þeirra not­enda sem létu frá sér tíst sem flokka mætti sem lofts­lags-aktív­isma, þar sem stuðningi var lýst yfir við aðgerðir í lofts­lags­mál­um. Þó var hlut­fallið ekki jafn hátt í þeim flokki, en ein­ung­is um 5% tísta þar sem farið var fram á meiri aðgerðir í lofts­lags­mál­um eru sögð hafa komið frá þjörk­um.

AFP

Thom­as Mar­low, doktorsnemi við Brown-há­skóla sem leiddi rann­sókn­ina, seg­ir við Guar­di­an að hún hafi sprottið upp úr vanga­velt­um hans og annarra um það af hverju það bæri jafn mikið á af­neit­un vís­inda­legra staðreynda um lofts­lags­mál og raun ber vitni, þegar vís­inda­sam­fé­lagið væri svo gott sem ein­róma á einn veg.

Það kom Mar­low á óvart að sjá hversu marg­ir þjark­ar tóku þátt í umræðunni um mála­flokk­inn á Twitter, en rann­sak­end­ur náðu ekki að kom­ast að því hvaðan nein­um þess­ara þjarka er stýrt.

mbl.is