Hreinsunartækin sögð menga fisk og skeldýr

Hreinsunarbúnaður sem á að draga úr loftmengun frá skipum dælir …
Hreinsunarbúnaður sem á að draga úr loftmengun frá skipum dælir úrgangi í sjóinn og getur það haft áhrif á heilsu manna. mbl.is/Árni Sæberg

Útblást­urs­hreinsi­búnaður sem komið hef­ur verið fyr­ir í skip­um kann að hafa skaðleg áhrif á fólk með því að menga fisk og skeldýr. Kem­ur þetta fram í inn­an­húss-skýrslu Alþjóðasigl­inga­mála­stofn­un­ar­inn­ar (IMO) sem breska dag­blaðið Guar­di­an hef­ur und­ir hönd­um. En stofn­un­in inn­leiddi sjálf regl­ur sem leiddu til notk­un­ar búnaðar­ins.

Í skýrsl­unni seg­ir að ekki liggi fyr­ir nægi­lega áreiðan­leg­ar upp­lýs­ing­ar til þess að hægt sé að leggja mat á hættu sem steðjar að mann­eskj­um af notk­un hreins­un­ar­búnaðar­ins sem kallaður er „scrubber“ á ensku. Búnaður­inn er til þess gerður að draga úr loft­meng­un sem fylg­ir út­blæstri skipa, en ódýr­ustu og vin­sæl­ustu gerðir búnaðar­ins dæla meng­andi ögn­um í sjó­inn.

Guar­di­an seg­ir frá því að skipa­fé­lög um all­an heim hafi ráðstafað yfir 12 millj­örðum Banda­ríkja­dala, ígildi 1.500 millj­arða ís­lenskra króna, í verk­efni er tengj­ast því að koma hreins­un­ar­búnaði fyr­ir í skip­um sín­um í þeim til­gangi að upp­fylla alþjóðlega staðla um loft­meng­un sem tóku gildi 1. janú­ar 2020. Á þetta einnig við ís­lensk skip.

Losað í Vest­manna­eyja­höfn

Dæmi eru um að úr­gangi hafi verið dælt í hafn­ir, meðal ann­ars í Vest­manna­eyj­um síðastliðið haust. Fram kem­ur í fund­ar­gerð fram­kvæmda- og hafn­ar­ráðs Vest­manna­eyja­bæj­ar frá 17. sept­em­ber að út­blást­urs­hreinsi­búnaður (open loop scrubber) um borð í Lag­ar­foss, skipi Eim­skips, hafi verið í notk­un þegar skipið fór frá bryggju með þeim af­leiðing­um að sjó­blandað sót sem inni­held­ur brenni­stein­sögn­um skolaðist í höfn­ina.

Í kjöl­far at­viks­ins upp­lýsti Eim­skip að „hreinsi­búnaður­inn var fram­leidd­ur og er starf­rækt­ur í sam­ræmi við leiðbein­ing­ar IMO“.

Fram kem­ur í um­fjöll­un Guar­di­an að notk­un „scrubbers“-búnaðar get­ur haft áhrif á hvernig höfn­um sé viðhaldið og til­kynntu sam­tök breskra hafna (BPA) í októ­ber að notk­un þess gæti leitt til þess að ein­hverj­ar bresk­ar hafn­ir yrðu ónot­hæf­ar vegna mengaðs botn­falls. Jafn­framt gæti meng­un­in leitt af sér auk­inn kostnað við dýpk­un og/​eða hreins­un hafna.

Ekki hægt að fram­kvæma hættumat

Efn­in sem dælt er í sjó­inn við notk­un búnaðar­ins og sér­fræðing­ar hafa sér­stak­ar áhyggj­ur af eru svo­kölluð PAH, en þau hafa verið tal­in auka lík­ur á húð-, lungna-, þvag­blöðru-, lifr­ar- og magakrabba­mein­um.

Í skýrsl­unni seg­ir að fram­kvæmd hættumats hafi ekki verið mögu­leg vegna ófull­nægj­an­legra fyr­ir­liggj­andi upp­lýs­inga og er varað við því að eit­ur­efni geti „lík­lega“ borist til manna með neyslu sjáv­ar­af­urða.

Haft er eft­ir Christoph­er Elliott, pró­fess­or við Fæðuör­ygg­is­stofn­un í Há­skóla drottn­ing­ar­inn­ar í Belfast (e. Qu­een‘s Uni­versity Belfast), að söfn­un PAH-efna í neðri hluta fæðukeðjunn­ar geti haft nei­kvæðar af­leiðing­ar fyr­ir heilsu manna og „skaðað ónæmis­kerfi og mögu­lega aukið lík­urn­ar á krabba­meini.“

mbl.is