Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækisins Brims hf. jókst frá fyrra ári og nam 4,7 milljörðum króna, miðað við meðalgengi evru á árinu. Hagnaðurinn nam 34 milljónum evra, samanborið við 32,2 milljónir evra í fyrra. Þetta kemur fram í afkomutilkynningu sem birt hefur verið á vef fyrirtækisins.
Tekjur félagsins námu 37,1 milljarði króna á síðasta ári og EBITDA er 8,8 milljarðar, miðað við meðalgengi evrunnar.
Í lok árs námu eignir Brims samtals 94,9 milljörðum króna, skuldirnar voru 51,9 milljarðar og eigið fé 43 milljarðar króna, en í þessum tölum er miðað við lokagengi evru á síðasta ári sem var 135,45 kr.
Fram kemur í tilkynningu félagsins að lagt sé til að greiða tæplega 1,9 milljarða króna í arð til hluthafa félagsins á þessu ári vegna rekstrarársins 2019.
„Afkoman á síðasta ári var viðunandi. Eins og oft áður voru skin og skúrir. Engin loðna veiddist og á haustmánuðum voru miklar brælur en sumarið var gott í bolfiski og makríl. Þá var gott ár í útgerð frystitogara. Það má segja að árangurinn sé ágætur þegar horft er um öxl á þetta fyrsta heila rekstrarár frá því nýir aðilar komu að rekstri félagsins,“ er haft eftir Guðmundi Kristjánssyni forstjóra Brims í tilkynningu.
„Brim er öflugt félag, með mikinn mannauð, sterka stöðu eiginfjár og kvóta. Framleiðslutækin eru góð og fara batnandi með aukinni fjárfestingu í hátæknibúnaði. Þá styrkti félagið stöðu sína á alþjóðlegum mörkuðum með kaupum á markaðs- og sölufélögum í Asíu. Framtíðin hjá félaginu er því björt þótt blikur séu á lofti með loðnuveiðar á þessu ári og vegna óvissu um áhrif COVID-19-veirunnar á markaði og heimsviðskipti,“ segir forstjórinn enn fremur.