Vilja aukin sveigjanleika í byggðakvóta

Kristján Þór Júlíusson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, hefur tekið við skýrslu …
Kristján Þór Júlíusson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, hefur tekið við skýrslu starfshópsins sem Þóroddur Bjarnason, prófessor, leiddi. Lagðar eru til talsverðar breytingar á atvinnu- og byggðakvótakerfinu Ljósmynd/Atvinnuvegaráðuneytið

Hvernig væri að vinnslu­skylda byggðakvóta væri aðeins þar sem hún myndi skila ein­hverj­um ár­angri? Þetta er meðal viðfangs­efna starfs­hóps sem nú hef­ur skilað til­lög­um um um­bæt­ur í byggðakvóta­kerf­inu.

í skýrslu starfs­hóps sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra um at­vinnu- og byggðakvóta er lagt til að stirt reglu­verk verði lagt af og í staðinn verði horft til þess að finna leiðir sem há­marki áhrif út­hlut­un­ar afla­marks. Þá sé eina leiðin til þess að ná því marki að sett verði mæl­an­leg mark­mið til þess að meta ár­ang­ur­inn, út­skýr­ir Þórodd­ur Bjarna­son, pró­fess­or og formaður starfs­hóps­ins.

Hann viður­kenn­ir að at­vinnu- og byggðakvóti sé ekki stór hluti af heild­arafla­mark­inu, 5,3%, en engu að síður séu þetta mik­il verðmæti sem ríkið út­hlut­ar, eða allt að 7,6 millj­arðar króna eins og fram kom í Morg­un­blaðinu í gær. „Það er mesti byggðastuðning­ur sem veitt­ur er á land­inu. Okk­ur fannst þurfa skýr­ari ramma utan um þenn­an stuðning. Ef þessu væri út­hlutað í pen­ing­um væri ein­hver samn­ing­ur, skil­greind mark­mið, eft­ir­fylgni og út­tekt á ár­angri sam­kvæmt skil­greind­um mæli­kv­arða.“

Þá seg­ir Þórodd­ur mik­il­vægt að skil­yrði út­gef­ins at­vinnu- og/​eða byggðakvóta þurfi að vera skýr og nefn­ir sem dæmi að afla­heim­ild­ir sem er út­hlutað til þess að stuðla að nýliðun þurfi að vera á grund­velli skil­grein­ing­ar á því hvað sé átt við með nýliðun, þannig að hægt sé að mæla hvort nýliðun eigi sér stað.

Hins veg­ar eru ólík­ar til­lög­ur fyr­ir ólík kerfi, að sögn Þórodds. Til að mynda er lagt til, hvað strand­veiðar varðar, að ráðuneytið skil­greini til hvers þær séu og að sex árum liðnum verði ut­anaðkom­andi aðili feng­inn til þess að meta ár­ang­ur­inn í sam­hengi við þau verðmæti sem ráðstafað voru í verk­efnið.

Byggja þarf á þörf­um hvers byggðarlags

Það er hins veg­ar tvíþætt nálg­un þegar kem­ur að al­menna byggðakvót­an­um, að sögn Þórodds. „Ef sveit­ar­fé­lög vilja veita byggðakvóta viðtöku verða þau að und­ir­rita samn­ing um hann. Í þeim samn­ingi verður að koma fram við hverju er bú­ist af út­hlut­un­inni,“ seg­ir pró­fess­or­inn. Hann seg­ir slíka skil­mála geta verið mjög breyti­lega eft­ir aðstæðum sveit­ar­fé­lag­anna og byggðarlag­anna. Á sum­um stöðum get­ur mark­miðið ein­fald­lega verið að tryggja að út­gerð sé starf­rækt en á öðrum stöðum geta mark­miðin verið fjölþætt.

Það er þekkt að mörg sveit­ar­fé­lög, fyr­ir hönd byggðarlaga inn­an þeirra, biðji um und­anþágu frá skil­yrði reglu­gerðar um byggðakvóta sem kveður á um vinnslu­skyldu. Til að mynda hef­ur Dal­vík­ur­byggð, Fjalla­byggð og Norðurþing beðið um að heim­ilað verði að landa inn­an sveit­ar­fé­lags í stað þess að lönd­un­ar­skylda sé í smærra byggðarlagi þar sem ekki er fýsi­legt að halda úti vinnslu. Skaga­strönd tel­ur meira að segja að ekki sé hægt að leggja vinnslu­skyldu á byggðakvóta til sveit­ar­fé­lags­ins, þar sem erfitt hafi reynst að fá nokk­urn til að reka vinnslu í sveit­ar­fé­lag­inu.

Þessi vanda­mál gætu heyrt sög­unni til ef til­lög­ur starfs­hóps­ins verða inn­leidd­ar, seg­ir Þórodd­ur, sem út­skýr­ir að með því að gera samn­inga um byggðakvót­ann sé ríkið að losa sig und­an stirðu reglu­verki sem ætli það sama af öll­um og geti samn­ing­ar tekið mið af því sem telj­ist fram­kvæm­an­legt á hverj­um stað fyr­ir sig og lík­legt til að ná til­ætluðum ár­angri.

Seg­ir hann óraun­hæft að til dæm­is ætl­ast til þess að með því að út­hluta 300 tonn í eitt byggðarlag skap­ist grund­völl­ur fyr­ir arðbærri vinnslu. „Mikið af svo­kölluðu „svindli“ í þessu kerfi er þegar menn eru að reyna að finna leiðir fram­hjá því sem er ófram­kvæm­an­legt. Annaðhvort með því að fá und­anþágur eða vera með ein­hverj­ar brell­ur. Það virðist sem kerfið sé byggt upp í kring­um það að reyna að koma hlut­um í ástand sem var 1970 eða 1980, en það sem við erum að opna á er að meta hvað það besta er sem við get­um gert fyr­ir til­tekið byggðarlag miðað við þær heim­ild­ir sem við höf­um til ráðstöf­un­ar.“

Línuíviln­un breytt

Starfs­hóp­ur­inn legg­ur einnig til breyt­ing­ar hvað línuíviln­un varðar og seg­ir Þórodd­ur ekki skýrt í gild­andi lög­um hvaða til­gangi fyr­ir­komu­lagið eigi að þjóna, en að það virðist vera að halda störf­um í landi. „Þá er eðli­legt að stilla þessu við hliðina á kostnaði. Þannig að spurt er hversu mikl­um verðmæt­um er ráðstafað til þess að skapa hvert starf.“ Hann seg­ir nýt­ing­una í kerf­inu hafa farið minnk­andi þar sem marg­ir út­gerðaraðilar hafi talið það ekki borga sig að vera inn­an kerf­is­ins þrátt fyr­ir meðgjöf.

Hins veg­ar eru til byggðarlög þar sem línuíviln­un skipt­ir máli og legg­ur starfs­hóp­ur­inn ekki til að línuíviln­un verði af­num­in held­ur að ónýtt­ar heim­ild­ir í kerf­inu fær­ist yfir á þá staði sem landa mest inn­an þess kerf­is.

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: