Í fyrsta skipti í 36 ára sögu togararalls Hafrannsóknastofnunar verður rannsóknarliðið um borð í rannsóknarskipinu Bjarna Sæmundssyni alfarið skipað konum.
Skipið lét úr höfn í fyrrakvöld í um þriggja vikna leiðangur og leiðangursstjóri um borð er Ingibjörg G. Jónsdóttir sjávarvistfræðingur.
Togararallið er einnig kallað marsrall, en formlegt heiti er stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum. Auk Bjarna Sæmundssonar taka rannsóknarskipið Árni Friðriksson og togararnir Gnúpur GK og Múlaberg SI þátt í verkefninu. Fimm til sjö rannsóknarmenn eru á hverju skipi auk áhafnar.
Hafsvæðinu við landið er skipt í fernt og verður Bjarni Sæmundsson einkum við rannsóknir við norðvestanvert landið.