„Þetta reyndi mest á andlegu hliðina“

Kristján Birkisson, háseti á Blængi NK, segir bræluna hafa haft …
Kristján Birkisson, háseti á Blængi NK, segir bræluna hafa haft áhrif á andlegu hliðina og að vinnan hafi orðið erfiðari fyrir vikið. Ljósmynd/Kristján Birkisson

Veðurfarið hefur verið erfitt fyrir sjómenn að undanförnu og tókst Kristjáni Birkissyni, háseta á Blængi NK, að ná myndum af áhöfninni að störfum á síðasta túr.

„Við vorum að klára mánaðartúr og það sem einkenndi túrinn var ekkert annað en bræla. Skítaveður allan tímann,“ segir Kristján í samtali við 200 mílur en skipið kom til hafnar í Neskaupstað á sunnudag.

Ljósmynd/Kristján Birkisson

Hann segir stöðugan flótta hafa verið undan veðri. „Hvar sem við veiddum, þar var aðeins meira logn en annar staðar og ef við vorum ekki að kasta var það bara út af veðri. Þetta reyndi mest á andlegu hliðina. Þegar er svona skítaveður allan tímann þá verður öll vinna erfiðari og líkaminn verður þreyttari. Maður er marga daga frá fjölskyldunni og hver klukkustund er lengur að líða þegar þetta er svona til lengdar.“

Þá hafi verið gott að geta sinnt áhugamálinu (ljósmyndun) þegar tækifæri gafst, að sögn Kristjáns sem segir það taka á að vinna við svona aðstæður. „Þetta er ekki fyrir alla. Við erum að græja okkur upp í flotvesti, hjálm og stígvél með stáltá. Hvert augnablik skiptir máli þarna úti þegar þetta er svona. Það er bara öryggið sem er eitt, tvö og þrjú. Ef þú ert ekki með öryggið 100% þá veit maður ekki hvort þetta sé manns síðasta.“

Öldurnar gusuðu yfir áhöfnina.
Öldurnar gusuðu yfir áhöfnina. Ljósmynd/Kristján Birkisson
Ljósmynd/Kristján Birkisson
Ljósmynd/Kristján Birkisson



mbl.is