Metralangur ormur fannst á skrifstofu CCP

Ormurinn Valdimar.
Ormurinn Valdimar. Skjáskot/Dan Crone

Starfs­mönn­um tölvu­leikja­fram­leiðand­ans CCP brá held­ur bet­ur í brún á dög­un­um þegar hreinsa átti fiska­búr fyr­ir­tæk­is­ins. Í ljós kom að gríðar­stór orm­ur hef­ur um ára­bil dvalið í búr­inu starfs­mönn­um að óvör­um.

Dan Crone, fram­leiðandi hjá CCP, deil­ir mynd­bandi af óvær­unni á Twitter. CCP stend­ur nú í flutn­ing­um, en til stend­ur að fyr­ir­tækið flytji höfuðstöðvar sín­ar af Granda í Reykja­vík yfir í hið nýja hús Grósku í Vatns­mýri. Í sam­tali við mbl.is seg­ir Dan að orm­ur­inn hafi komið í ljós þegar verið var að und­ir­búa flutn­ing fiska­búrs­ins með til­heyr­andi hreins­un. Kvik­indið hef­ur fengið nafnið Valdi­mar.

„Við höld­um að orm­ur­inn hafi senni­lega verið þarna í alla vega átta ár því það var síðast þá sem ein­hverju var bætt við búrið,“ seg­ir Dan. Fiska­búrið sem um ræðir er senni­lega eitt það stærsta á Íslandi og því gat orm­ur­inn at­hafnað sig án þess að nokk­ur yrði hans var í öll þessi ár. „Það hef­ur verið talað um að fisk­un­um í búr­inu hafi fækkað eitt­hvað síðustu árin, og nú er senni­lega kom­in skýr­ing á því,“ seg­ir Dan sem tel­ur lík­leg­ast að orm­ur­inn hafi borist hingað til lands með kór­alrifj­um sem eru í búr­inu og síðan fengið að vaxa og dafna óáreitt­ur.

Í umræðum sem sköpuðust á Twitter í kjöl­farið var því haldið fram að orm­ur­inn hefði horfið sjón­um starfs­manna og léki nú laus­um hala ein­hvers staðar á skrif­stof­um fyr­ir­tæk­is­ins. Það var þó grín, seg­ir Dan. Orm­ur­inn sé und­ir eft­ir­liti í búr­inu. „En hann gæti senni­lega ekki lifað lengi hér á landi.“

Til stend­ur að taka nýj­ar höfuðstöðvar CCP í notk­un í apríl. Spurður hvort starfs­menn séu bún­ir að missa áhug­ann á að halda skraut­fiska í höfuðstöðvun­um, seg­ir Dan svo ekki vera. „Ég held að flest­ir vilji enn halda í það.“

mbl.is