„Bræla, bræla, bræla“

Valur ÍS-20.
Valur ÍS-20. Ljósmynd/Arnaldur Sævarsson

„Það er bara bræla. Bræla, bræla, bræla. Það er ekk­ert þarna á milli. Þetta eru ekki einu sinni sex til átta metr­ar, það eru bara fimmtán eða tutt­ugu. Við vor­um á sjó í gær og kom­umst inn á Hest­fjörðinn og feng­um þar 3,5 tonn sem er bara allt í lagi. Þetta er eini staður­inn sem við kom­umst vegna veðurs,“ seg­ir Har­ald­ur Kon­ráðsson, skip­stjóri á Val ÍS-20, í sam­tali við 200 míl­ur er hann er spurður hvernig rækju­veiðarn­ar hafa gengið und­an­farið.

Ekki er því vafi um að veðurfarið hafi truflað rækju­veiðarn­ar eins og aðrar veiðar og því til­efni til þess að spyrja hvort góð veiði hafi verið þá daga þegar veður leyf­ir. „Þetta er svo sem ekki sama mokveiði og í fyrra, en það var gott fram­an af. Bara fín­asta veiði,“ seg­ir hann og bæt­ir við að afl­inn und­an­farið hafi verið um þrjú til fimm eða sex tonn. „Það er bara ljóm­andi gott.“

Óvenju­mik­ill þari

Har­ald­ur seg­ir mikið söl hafa sett svip á veiðarn­ar og að það sé óvenju­mik­ill þari sem fest­ist í veiðarfær­un­um. „Ég veit ekki hvort þetta sé tíðarfarið sem ger­ir það að verk­um að þetta sé svona. Þannig að við erum á eft­ir á ákveðnum stöðum. […] Þetta fest­ist í veiðarfær­un­um og fyll­ir bara trollið á þeim stöðum sem maður lend­ir í þessu og þetta er lengi að fara úr troll­un­um.“

Spurður hvort hann sé vongóður um að fari að lægja, svar­ar hann að það eigi að verða ágætis­veður á fimmtu­dag og föstu­dag, en vand­inn er ekki bara veðurfarið á sjó.

„Svo þurf­um við að fara fjalla­leið frá Ísaf­irði til Súðavík­ur og það er ekki alltaf fært þar,“ seg­ir Har­ald­ur og hlær. „Róðrar­lagið er farið að snú­ast um það hvort það koma viðvar­an­ir frá Vega­gerðinni. […] Þetta er búið að vera aga­leg­ur vet­ur. Maður hefði byrjað fyrr hefði maður vitað þetta. En við tök­um þetta bara í blíðunni í sum­ar, við meg­um veiða til fyrsta sept­em­ber.“

mbl.is