Opinn fundur fyrir luktum dyrum

Fundinum um nýsköpun og sjávarútveg var varpað á netið vegna …
Fundinum um nýsköpun og sjávarútveg var varpað á netið vegna samkomubannsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sam­komu­bannið setti svip sinn á op­inn fund Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi um ný­sköp­un og sjáv­ar­út­veg í morg­un, en fund­irn­ir í fundaröð sam­tak­anna hafa verið nokkuð vin­sæl­ir og hef­ur verið hús­fyll­ir á fyrri fund­um.

Í stað þess að blása fund­inn af var hon­um streymt á Youtu­be og sátu frum­mæl­end­ur og fund­ar­stjóri í tóm­um saln­um í Mess­an­um í Sjó­minja­safn­inu.

Ekki sjálf­gefið að halda for­skot­inu

Það er ekki sjálf­gefið að Íslend­ing­ar haldi sam­keppn­is­for­skoti sínu, sagði Berta Daní­els­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Íslenska sjáv­ar­klas­ans, í er­indi sínu. Tel­ur hún mik­il­vægt að hlúa að rann­sókn­um og þeim stofn­un­um sem þeim sinna auk þess að örva sam­starf þvert á grein­ar inn­an bláa hag­kerf­is­ins og laða til lands­ins fólk og fyr­ir­tæki. Þá sagði Berta einnig grund­vall­ar­atriði að efla mennt­un og sam­ræma vinnu á því sviði.

Guðmundur Hafsteinsson, sérfræðingur í nýsköpun, og Berta Daníelsdóttir, framkvæmdastjóri Sjávarklasans.
Guðmund­ur Haf­steins­son, sér­fræðing­ur í ný­sköp­un, og Berta Daní­els­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Sjáv­ar­klas­ans. Krist­inn Magnús­son

Berta sagði tæki­færi vera falið í því að laða til lands­ins frum­kvöðla á sviði bláa hag­kerf­is­ins með sama hætti og Dan­ir hafa laðið til sín frum­kvöðla á sviði þjarka­tækni. „Þeir búa til innviði til þess að laða fólk til Kaup­manna­hafn­ar. Af hverju erum við ekki miðstöð fjár­mála­markaðar í sjáv­ar­út­vegi?“ spurði hún.

Fjöl­mörg tæki­færi er einnig að finna í jaðar­teg­und­um eins og í grjót­krabba, kúfskel, sæ­bjúgu, þang og þara, að sögn Bertu. „Það virðist vera þannig að til þess að ná í fjár­magn í sjáv­ar­út­vegi þá þarf það yf­ir­leitt að tengj­ast á ein­hvern hátt bol­fisk­vinnslu. En þess­ar teg­und­ir eru staðbundn­ar, þær eru ekki á flakki í kring­um Ísland sem þýðir að við get­um búið til ný at­vinnusvæði á lands­byggðinni.“

Hún viður­kenndi það að ein­hverju kann að ræt­ast ekki úr, en benti á að til þess að ný­sköp­un­in eigi sér stað verður að láta á nýj­unga reyna og læra af reynsl­unni.

mbl.is