Útbreiðsla kórónuveirunnar hefur ekki bara haft neikvæð áhrif. Í Bandaríkjunum hafa ættleiðingar dýra frá dýraathvörfum aukist allt að 20%. Aukinn fjöldi Bandaríkjamanna situr nú heima í sóttkví og hefur brugðið á það ráð að fá sér hund eða kött til að létta andann á heimilinu.
Nikole Bresciani, framkvæmdarstjóri Indland Valley Humane Society í Pomona í Kaliforínuríki, segir í viðtali við TMZ að fjöldi fólks hafi leitað til samtakanna síðastliðna viku og óskað eftir að ættleiða dýr. Bóka þarf tíma á netinu eða í gegnum síma til að fá að koma í heimsókn í dýraathvarfið til að forðast of mikinn fjölda gesta.
Bresciani segir að þau hafi tekið eftir auknum fjölda barnafjölskyldna sem vilji bæta við sig ketti eða hundi.
Eldri borgarar í Flórídaríki hafa einnig brugðið á sama ráð. Randa Richter hjá SPCA í Flórída segir að þau hafi séð að minnsta kosti 20% aukningu á síðustu vikum. Fjölda viðburða fyrir eldri borgara hefur verið aflýst vegna útbreiðslu veirunnar og leitar fólkið í að finna sér eitthvað að gera, eins og til dæmis að fara út að ganga með hundinn.
Richter segir einnig að þau hafi fengið til sín fleiri sjálfboðaliða. Sjálfboðaliðarnir eru framhaldsskólakrakkar sem hafa meiri tíma til að sinna samfélagslegum verkefnum nú þegar kennsla hefur verið færð yfir á netið.
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.