Greinin má ekki draga sig inn í skel

Framtíð nýsköpunar í sjávarútvegi byggist m.a. á að greinin opnist …
Framtíð nýsköpunar í sjávarútvegi byggist m.a. á að greinin opnist betur út á við og að regluverkið utan um starfsemi sprotafyrirtækja verði bætt enn frekar, segir Guðmundur Hafsteinsson. Eggert Jóhannesson

Síðasti ára­tug­ur var tíma­bil mik­ill­ar hug­mynda­auðgi og ný­sköp­un­ar í ís­lensk­um sjáv­ar­út­vegi. Fjöldi nýrra fyr­ir­tækja varð til inn­an grein­ar­inn­ar, í kring­um allt frá betri tækni fyr­ir vinnslu og kæl­ingu, yfir í fram­leiðslu fæðubót­ar­efna, dýr­mætra ensíma og sára­binda. Eru þeir sem hafa besta yf­ir­sýn yfir sjáv­ar­út­veg­inn jafn­vel farn­ir að spá því að þess verði ekki langt að bíða að heilsu­bæt­andi ensím og alls kyns tæki fyr­ir veiðar og vinnslu verði orðin verðmæt­ari út­flutn­ings­vara en fín­ustu hnakka­stykki, og virðist grein­in enn eiga heil­mikið inni þegar kem­ur að því að skapa ný verðmæti.

Guðmund­ur Haf­steins­son, frum­kvöðull, var einn frum­mæl­enda á fundi Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi á miðviku­dag um hvernig megi auka má ný­sköp­un í sjáv­ar­út­vegi.

Meðal þess sem Guðmund­ur ræddi um var að hvaða marki ný­sköp­un­ar­sam­fé­lag ís­lensks sjáv­ar­út­vegs get­ur lært af vel­gengni Kís­il­dals í Banda­ríkj­un­um en Guðmund­ur starfaði þar um langt skeið og var m.a. yf­ir­maður vöruþró­un­ar hjá bæði Google og Apple.

Hann seg­ir ár­ang­ur und­an­far­ins ára­tug­ar m.a. minna á að alltaf er hægt að gera bet­ur, og minn­ist Guðmund­ur gam­als brand­ara um það þegar ákveðið var að loka þýsku einka­leyf­a­stof­unni und­ir lok 19. ald­ar, þar eð ljóst þótti að þegar væri búið að finna upp allt sem hægt væri að finna upp. „Það er ekk­ert sem heit­ir, á nokkru sviði at­vinnu­lífs­ins, að gera hlut­ina upp á tíu og geta ekki gert bet­ur. Alltaf er hægt að taka enn meiri fram­förum, og hugs­un­ar­hátt­ur­inn þarf að hverf­ast um það að finna tæki­fær­in og leita leiða til að stíga næstu skref.“

Umræðuvandi

Aðspurður að hvaða marki megi yf­ir­færa vinnu­brögð Kís­il­dals yfir á sjáv­ar­út­veg­stengda ný­sköp­un í sjáv­ar­út­vegi nefn­ir Guðmund­ur fyrst af öllu að reynsl­an hafi kennt hon­um að það boði alla jafna gott ef fólk og fyr­ir­tæki ein­beiti sér að því sem þau þekkja best. „Það ligg­ur bein­ast við að Ísland sé í fremstu röð í sjáv­ar­út­veg­stengdri ný­sköp­un enda grein sem við höf­um mikla reynslu af, og hægt að byggja á upp­söfnuðum rann­sókn­um og þekk­ingu sem aðrir búa ekki að.“

Árang­ur Kís­il­dals minn­ir líka á mik­il­vægi þess að laða að hæfi­leika­fólk úr öll­um átt­um og opna grein­ina út á við. Þar seg­ir Guðmund­ur að sjáv­ar­út­veg­ur­inn glími við nokk­urs kon­ar umræðuvanda sem m.a. má rekja til langvar­andi deilna um hvernig fisk­veiðum skuli háttað, hvernig út­deila skuli kvóta og hvernig skatt­leggja skuli þá sem nýta auðlind­ina. „Út af langvar­andi nei­kvæðri umræðu er eins og sjáv­ar­út­veg­ur­inn hafi sumpart dregið sig inn í skel og hiki við að hleypa ut­anaðkom­andi inn af ótta við að all­ir þeir sem vilja láta sig grein­ina varða séu komn­ir til að gagn­rýna hana. Þetta get­ur leitt til þess að sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæk­in verði frek­ar ein­angraður hóp­ur, sem svo skap­ar hætt­una á að nýj­ar hug­mynd­ir kom­ist ekki að og þess í stað reynt að gera hlut­ina allaf með sama hætti og áður.“

mbl.is/​Al­fons Finns­son

Guðmund­ur seg­ir þurfa að höggva á þenn­an hnút, og að jafn­vel þó seint muni tak­ast að út­kljá all­ar deil­ur um sjáv­ar­út­veg­inn verði þjóðfé­lagið að gang­ast við því að blóm­leg fisk­vinnsla og -veiðar skipti sam­fé­lagið miklu. „Þá get­ur grein­in kannski tekið að opn­ast bet­ur út á við og gert meira af því að fá ut­anaðkom­andi fólk og fyr­ir­tæki með sér í lið, með ein­um eða öðrum hætti, til að skapa enn meiri verðmæti.“

Gullpott­ur við sjón­arrönd

Loks seg­ir Guðmund­ur að það eigi við um ný­sköp­un í sjáv­ar­út­vegi rétt eins og ný­sköp­un og frum­kvöðlastarf al­mennt að lög og reglu­gerðir þurfa að skapa rétt­an ramma, og veita það svig­rúm sem sprot­ar þurfa til að hefja sig til flugs.

„Grunn­atriðin í frum­kvöðla­starfi eru alltaf þau sömu; hug­mynd­in þarf að vera góð, leysa al­vöru vanda­mál, skapa raun­veru­leg verðmæti og vera skalan­leg; hóp­ur­inn sem stend­ur að fram­kvæmd­inni þarf að vera þess megn­ug­ur að gera hug­mynd­ina að veru­leika, og loks þarf að vera nægi­lega gott aðgengi að fjár­magni,“ út­skýr­ir hann og bæt­ir við að fjár­fest­ar séu sí­fellt á hött­un­um eft­ir góðum verk­efn­um til að liðsinna og fjár­magnið leiti alltaf – fyrr eða síðar – þangað sem góðar hug­mynd­ir og öfl­ug teymi fara sam­an.

Miklar tækniframfarir hafa átt sér stað undanfarin ár.
Mikl­ar tækni­fram­far­ir hafa átt sér stað und­an­far­in ár. Ljós­mynd/​Valka

Ef rammi lag­anna er ekki eins og hann á að vera get­ur það hins veg­ar dregið þrótt­inn úr frum­kvöðlun­um, og tor­veldað þeim að fá aðra til liðs við sig og bend­ir Guðmund­ur á að þrátt fyr­ir ýms­ar já­kvæðar breyt­ing­ar á reglu­verk­inu þá sé Ísland ekki nema hálfnað á þeirri veg­ferð að bjóða sprot­um upp á sams kon­ar rekstr­ar­um­gjörð og tíðkast t.d. í Banda­ríkj­un­um þar sem al­vana­legt er að lyk­ilfólk sem kem­ur inn í sprota­fyr­ir­tæki á fyrstu stig­um vinni launa­laust eða launa­lítið í skipt­um fyr­ir eign­ar­hluti sem mögu­lega verða mjög verðmæt­ir seinna meir:

„Það skap­ar mikla hvata til að ná settu marki ef all­ir eiga ein­hverja hlut­deild í gullpott­in­um sem er út við sjón­arrönd, þó hann sé kannski ekki í seil­ing­ar­fjar­lægð fyrr en eft­ir nokk­ur ár. Þessi fjár­hags­legi hvati fær fólk til að leggja enn harðar að sér, sem þýðir um leið að sprota­fyr­ir­tækið er fljót­ara að ná mik­il­væg­um áföng­um sem svo aft­ur ger­ir fjár­festa enn áhuga­sam­ari.“

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: