Skiptir öllu máli að taka réttar ákvarðanir

Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood, segir góðu fréttirnar vera að …
Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood, segir góðu fréttirnar vera að fiskur sé nauðsynjavara en að allt annað sé háð mikilli óvissu. Ljósmynd/Iceland Seafood

„Góðu frétt­irn­ar í allri þess­ari óvissu fyr­ir ís­lensk­an sjáv­ar­út­veg eru þær að fisk­ur er nauðsynja­vara, mat­væli, og í þess­um tak­mörk­un­um sem er verið að grípa til í fólks­flutn­ing­um er verið að leggja áherslu á að lyf og mat­væli njóti for­gangs og að ferðaf­relsi þeirra vara sé ekki skert. Við eig­um von á því að það verði margt gert af hálfu yf­ir­valda á hverj­um stað til þess að tryggja það að fólk fái mat. Þetta er það góða í stöðunni í út­flutn­ingi á sjáv­ar­fangi frá Íslandi,“ seg­ir Bjarni Ármanns­son, for­stjóri Ice­land Sea­food In­ternati­onal, er hann er innt­ur álits á þróun markaða í kjöl­far for­dæma­lausra aðgerða stjórn­valda víða um heim til þess að sporna við út­breiðslu kór­ónu­veirunn­ar.

„Allt annað er í mjög mik­illi óvissu,“ seg­ir Bjarni og vís­ar meðal ann­ars til þess að sala ferskra afurða inn á Frakk­land og saltaðra afurða inn í þjón­ustu­geir­ann á Spáni og á Ítal­íu hef­ur nán­ast stöðvast. „Það er mjög mikið stopp í sölu í augna­blik­inu og meira að segja er út­göngu­bann á sum­um stöðum og harðnandi regl­ur á öðrum stöðum.“ Hann seg­ir að í þessu ár­ferði haldi kaup­end­ur að sér hönd­um og enda­kaup­end­um á þess­um mörkuðum er skipað að vera heima hjá sér. Hins veg­ar sé fólk enn að versla í dag­vöru­versl­un­um.

„En það er líka mik­illi óvissu háð og sumstaðar hafa vörumarkaðir lokað svo­kölluðum fisk­borðum. Fisk­ur er því ein­vörðungu seld­ur í pakkn­ing­um. Al­mennt erum við að sjá lækk­an­ir á fisk­verði. Í augna­blik­inu ekki dra­stísk­ar lækk­an­ir en lækk­an­ir hvort sem það er á laxi, hvít­fiski eða skel­fiski. Óviss­an er mik­il og þetta breyt­ist hratt. Við erum að von­ast til þess að á næstu vik­um sjá­ist bet­ur í hvaða átt þetta þró­ast, en í augna­blik­inu verður hver og einn að meta sína hags­muni og hvað sé rétt að gera, því það eru all­ir með vanda­mál á sín­um borðum, bara af mimun­andi toga,“ út­skýr­ir Bjarni.

Var­ir ekki að ei­lífu

Spurður hvort sam­drátt­ur í sölu á fersku sjáv­ar­fangi leiði til þess að vinnsluaðilar færi sig í aukn­um mæli í fram­leiðslu annarra vara svar­ar Bjarni: „Það er mis­mun­andi og all­ir beita öllu því vopna­búri sem þeir hafa. Í ein­hverj­um til­fell­um geta menn sett í létt­saltaðar, saltaðar eða fryst­ar afurðir og gera það í ein­hverj­um mæli, því sala á fryst­um afurðum mun að ein­hverju leyti taka við af fersk­um. Aðrir minnka sókn­ina í sjó­inn meðan þetta gjörn­inga­veður geis­ar. En það er al­veg ljóst að það er ekki hægt að taka það magn sem hef­ur farið í fersk­ar afurðir og færa að fullu yfir í aðrar vinnslu­leiðir. Þannig að það mun hægja á öllu, sér­stak­lega á næstu vik­um á meðan þetta skýrist.“

Þegar horft er til framtíðar er ljóst að óviss­an mun ekki vara að ei­lífu, að sögn Bjarna. „Þá verður maður að horfa til þeirra landa þar sem þetta byrjaði, eins og Kína, Suður-Kór­eu og Singa­púr. Þar sjá­um við að vinnslu­ein­ing­ar með fisk eru aft­ur komn­ar á fulla ferð eft­ir að hafa stoppað um mánaðamót­in janú­ar/​fe­brú­ar, í kring­um kín­verska ný­árið, og sömu­leiðis er farið aft­ur að opna veit­inga­hús og lífið að kom­ast aft­ur í eðli­legt ástand. Það má ekki gleyma því að við mun­um ná utan um að hefta út­breiðslu kór­óna­veirunn­ar. Þetta eru óvenju­lega harðar leiðir sem þarf að fara til þess að ná þeim mark­miðum fram, en þá þurfa all­ir að hegða sér skyn­sam­lega og sýna æðru­leysi og halda áfram.“

Páska­sal­an glötuð

Ice­land Sea­food hef­ur fjár­fest tals­vert að und­an­förnu og festi meðal ann­ars kaup á eign­ar­halds­fé­lagi Elba S.L. á Spáni í nóv­em­ber og fyr­ir­tækj­un­um Icelandic Iberica á Spáni og Oce­an­path á Írlandi á ár­inu 2018. Jafn­framt var í byrj­un þessa mánaðar und­ir­ritaður samn­ing­ur um kaup á framtíðar­vinnslu­hús­næði og frystigeymslu í Grims­by í Bretlandi.

Bjarni seg­ir stöðuna á evr­ópsk­um mörkuðum erfiða vegna þess­ara for­dæma­lausu aðgerða stjórn­valda að hefta ferðaf­relsi og koma á sam­komu­banni.

„Staðan á Spáni er þannig að við sjá­um fram á að páska­tíma­bilið, sem í kaþólsk­um lönd­um er mikið fiskneyslu­tíma­bil, er í raun­inni farið. Það er bara þannig. Við erum auðvitað líka að vinna með okk­ar viðskipta­vin­um sem horfa á það að greiðslu­streymið til þeirra minnk­ar. Þetta ástand sem rík­ir núna mun taka í og mun gliðna úr saum­un­um á mjög mörg­um stöðum. En þá er fram­leiðslu stillt af þannig að hún end­ur­spegli þetta ástand. Svo mun sum­arið og haustið koma og það verður aldrei þannig að það verði út­göngu­bann í marga mánuði. Þegar þessu ástandi linn­ir mun fólk vilja hitta fjöl­skyldu og vini á veit­inga­stöðum eins og er menn­ing fyr­ir á þess­um stöðum. Þannig að að ein­hverju leyti er þetta tapaður tími, en að öðru leyti hliðrun,“ seg­ir Bjarni og bæt­ir við að það megi ekki missa sjón­ar á því að Íslend­ing­ar hafa selt fisk til Spán­ar um ald­ir – og Ice­land Sea­food og fyr­ir­renn­ari þess fyr­ir­tæk­is, SÍF, síðan 1932 „og við ætl­um að halda því áfram um ókomna tíð“.

Þegar litið er til stöðunn­ar á Írlandi er staðan ann­ars eðlis að sögn Bjarna enda sé Ice­land Sea­food þar al­farið að selja til stór­markaða. „Þar er um­tals­verð sölu­aukn­ing. Þegar mat­sölu­stöðum er lokað kaup­ir fólk meira í versl­un­um og eld­ar heima við.“ Hann seg­ir hins veg­ar stór­ar versl­un­ar­keðjur á borð við Tesco hafa lokað fisk­borðum sín­um. „Það hef­ur auðvitað aukið sölu í frystu sjáv­ar­fangi – þannig að það eru mikl­ar breyt­ing­ar í hegðun neyt­enda á þess­um tím­um.“

Áhrif á lausa­fjár­stöðu

Bjarni seg­ir mik­il­væg­ast á þess­um tíma að halda flutn­inga­leiðum opn­um, vinna náið með viðskipta­vin­um og birgj­um þannig að upp­lýs­inga­streymi sé gott milli aðila og fram­leiðsla frum­fram­leiðenda sé í sem best­um takti við mat á aðstæðum á hverj­um tíma.

Spurður hvort ástandið hafi nei­kvæð áhrif á lausa­fjár­stöðu Ice­land Sea­food svar­ar Bjarni því ját­andi. „En við erum ágæt­lega í stakk búin til þess að tak­ast á við það og kem­ur sér vel að við fór­um í hluta­fjáraukn­ingu síðastliðið haust sam­hliða skrán­ingu á aðall­ista Kaup­hall­ar­inn­ar, auk þess erum við með öfl­ug banka­sam­bönd. Þannig að við erum í ágætri stöðu. En það er eins með all­an rekst­ur, að eng­inn rekst­ur get­ur verið án tekna eða með mjög minnk­andi tekj­ur til langs tíma. Núna er aðal­málið að taka rétt­ar ákv­arðanir miðað við stöðumatið á hverj­um tíma.“

Viðtalið við Bjarna var fyrst birt í ViðskiptaMogg­an­um 18. mars.

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: