Hollenskur maður sem mun eignast barn á Íslandi í maí er á leiðinni til landsins en þurfti að finna sér gistingu fyrir tveggja vikna sóttkví. Hóteleigandi í Hveragerði tók til sinna ráða og „fannst bara sjálfsagt“ að bjóða honum fría hótelgistingu meðan á sóttkvínni stendur.
Davíð Michelsen verður afi í maí þar sem dóttir hans, Charlotta Ýr, á von á barni með hollenskum manni að nafni Lars de Bruin. Lars, sem starfar sem kerfisfræðingur í Hollandi, ætlar sér að reyna komast til Íslands á meðan það er ennþá möguleiki til að ná að vera viðstaddur fæðingu barns síns.
Vegna aðstæðna á heimili Davíðs í Hveragerði og á heimili foreldra hans, þar sem dóttir hans býr tímabundið, treystir fjölskyldan sér ekki til að hýsa hinn verðandi föður meðan á sóttkvínni stendur og Davíð greip á það ráð að auglýsa eftir gistingu í facebookhópi Hvergerðinga.
„Dóttir mín býr hjá foreldrum mínum tímabundið og pabbi gamli er með undirliggjandi sjúkdóma. Við sjálf erum með fjögurra mánaða gamalt barn. Til að gæta öryggis og tryggja að það komi ekki upp nein smit óskaði ég eftir því hvort einhver gæti hýst tengdasoninn,“ segir Davíð í samtali við mbl.is og bætir við:
„Þá svaraði Elfa Dögg kallinu og býður gistinguna að kostnaðarlausu. Við erum alveg gríðarlega þakklát henni.“
Umrædd Elfa Dögg er Þórðardóttir og er eigandi hótelsins Frosts & funa í Hveragerði. Er hún sá auglýsingu Davíðs var hún ekki lengi að bregðast við og þótti það ekkert tiltökumál að hýsa Lars á meðan hann þarf að vera í sóttkví.
„Mér fannst bara sjálfsagt að nýta þessa aðstöðu sem við erum með. Það hentar líka ágætlega á mínu hóteli þar sem er sérinngangur inn í hvert herbergi en ekki hótelgangur,“ segir hún í samtali við mbl.is.
„Það er gott að geta lagt eitthvað til málanna í þessu ástandi fyrst það er hvort eð er allt að tæmast. Hann fær að vera hjá okkur á meðan hann er í sóttkví og það verður þrifið af honum sérstaklega,“ bætir Elfa við.
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.