Óttast smit með aukinni mætingu

Sóttvarnalæknir og landlæknir sendu þriðjudaginn 24. mars sl. bréf til skólastjórnenda, kennara og foreldra barna í leik- og grunnskólum. Var þar áréttað mikilvægi þess að nemendur haldi áfram að sækja skóla þrátt fyrir takmarkanir á skólastarfi vegna hraðrar útbreiðslu kórónuveiru hér á landi. Tveir leikskólastjórnendur á höfuðborgarsvæðinu sem Morgunblaðið ræddi við segja bréfið ekki samrýmast fyrri leiðbeiningum. Segjast þeir óttast smit með aukinni mætingu.

„Við höfðum áður fengið þær upplýsingar frá okkar yfirmönnum að reyna að takmarka barnahópinn í húsinu eins og kostur er,“ segir Valborg Guðlaugsdóttir, leikskólastjóri í leikskólanum Langholti í Reykjavík. „Hjá okkur er nú helmingur barna skráður í leikskólann á hverjum degi. Svo kemur það upp að við erum beðin um að taka á móti forgangsbeiðnum, sem við og gerum. Við tökum þá strax ákvörðun um að opna sér forgangsdeildir og erum í dag með þrjár deildir af níu fyrir forgangsbörn.“

mbl.is