„Það er alltaf hætta á smiti, svo einfalt er það nú. Sóttvarnalæknir og landlæknir vildu aftur á móti vekja athygli á því hve mikilvægt skólastarf er í lífum barna. Við nálgumst nú óðum páskaleyfi og eftir það tekur allur apríl við. Nú skiptir því afar miklu máli að horfa til lands, ekki einungis næsta áfangastaðar. Þessi sjúkdómur er ekki að fara frá okkur - hann verður hér næstu vikurnar,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, í samtali við Morgunblaðið.
Greint var frá því á mbl.is og í Morgunblaðinu að tveir leikskólastjórnendur á höfuðborgarsvæðinu litu bréf sóttvarnalæknis og landlæknis til skólastjórnenda, kennara og foreldra barna í leik- og grunnskólum gagnrýnum augum. Bréfið var sent þriðjudaginn 24. mars sl., en í því var áréttað mikilvægi þess að nemendur haldi áfram að sækja skóla þrátt fyrir miklar takmarkanir á skólastarfi vegna hraðrar útbreiðslu kórónuveiru í íslensku samfélagi. Sögðust leikskólastjórarnir óttast smit inn á leikskóla sína með aukinni mætingu barna og foreldra.
Sigríður Kristín Jónsdóttir, leikskólastjóri í leikskólanum Seljakoti í Reykjavík, er annar þessara leikskólastjóra. „Um leið og lögð er áhersla á sóttvarnarými hér og að starfsfólk og börn eigi ekki að flakka á milli deilda þá er verið að hvetja til mætingar. Það þýðir þó ekki að við viljum ekki halda leikskólum opnum fyrir forgangshópa og þá foreldra sem virkilega þurfa á leikskólaplássi að halda,“ sagði hún og bætti við að því færri sem mæti þeim mun líklegra sé að hægt verði að koma í veg fyrir smit í leikskólum. Komi upp kórónuveirusmit á leikskóla, líkt og þegar hefur gerst á nokkrum leikskólum, sé afleiðingin skýr; loka þurfi fyrir allt starf í langan tíma.
Takmarkanir á skólastarfi fram í maí
Helgi segist búast við því að leik- og grunnskólastarf verði einhverjum takmörkunum háð út apríl og fram í maímánuð. „Fyrir líðan og örvun barnanna skiptir miklu máli að skólastarf haldi áfram. Það er ekki hægt að leggja nógu mikla áherslu á hve mikilvægt það er fyrir börn að þau hafi reglufestu og hitti félaga sína.“
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Spurður hvort hann skilji áhyggjur leikskólastjóranna kveður Helgi já við. „Við skiljum auðvitað þessar áhyggjur. Það er þó brýnt að taka fram að áfram verða í gildi þær takmarkanir sem verið hafa; að helmingur barna verði í húsi í leikskólanum, hópar megi ekki blandast saman, öflug smitgátt viðhöfð og að foreldrar í sóttkví megi ekki senda börn sín í skólann rétt eins og það er mikilvægt að halda veikum börnum heima. Við viljum aftur á móti fá þau börn sem eru fullfrísk aftur í skólann,“ segir hann.
Þá bendir Helgi einnig á að innan skólakerfisins megi finna viðkvæma hópa og megi oft lítið út af bregða til að viðkomandi falli úr námi. Nefnir hann meðal annars í þessu samhengi börn innflytjenda.
„Það eru hér ákveðin börn sem segja má að séu í brottfallshættu og þá er svona bréf ekki síst til þess fallið að undirstrika mikilvægi skólahalds í samfélaginu,“ segir hann og heldur áfram: „Það er því verið að senda sömu skilaboð til allra foreldra en auðvitað eru ákveðin ólíkindi milli aldurshópa, það er að segja hvort barn sé á leikskóla eða á unglingastigi. Það er bara erfitt að fara að sérsníða upplýsingar fyrir hvern og einn hóp.“
Helgi segir marga kennara nú hafa staðið sig hreint út sagt ótrúlega vel við afar erfiðar aðstæður þar sem í gildi séu ströng fyrirmæli frá stjórnvöldum sem meðal annars kveði á um hámarksfjölda fólks inni í tilteknu rými og lágmarks fjarlægð á milli einstaklinga.
„Við höfum séð stórkostlega hluti í mörgum skólum þar sem kennarar eru að halda vel utan um barnahópinn með fjarfundabúnaði og í gegnum fjarvinnu. Starfið er því bæði framsækið og skapandi,“ segir hann.
Ekkert leikskólabarn greinst í Reykjavík
Helgi segir starfsfólk Reykjavíkurborgar fylgjast afar náið með framvindu mála og þá hvort börn í reykvískum leikskólum hafi greinst með kórónuveirusmit. Þegar Morgunblaðið ræddi við Helga hafði ekkert leikskólabarn í Reykjavík greinst með veiruna.
„Við söfnum reglulega upplýsingum og fram til þessa hefur ekkert barn í leikskóla í Reykjavík greinst með smit. Ekki eitt. Í þessu samhengi má benda á að leikskólarnir, að sjálfstætt starfandi leikskólum meðtöldum, eru ríflega sjötíu. Þeir starfsmenn sem hafa smitast eru tíu talsins og smitin eru ekki endilega rakin til leikskólans. Á sama tíma eru smit í grunnskólum tíu talsins og eitt á frístundaheimili. Hjá börnum á grunnskólaaldri eru smit ellefu talsins og eru þau sem um ræðir á unglingastigi. Í stóra samhenginu, 20 þúsund börn og ellefu smit, þá sést hvað fólkið okkar er að standa sig vel í smitvörnum og hversu vel við erum að sinna þessu erfiða verkefni,“ segir Helgi.
Helgi segir Reykjavíkurborg halda utan um hve mörg börn séu nú í sóttkví, leyfi og skráð veik. „Um þrjátíu prósent barna í leikskólum eru í leyfi, sóttkví eða veik. Í grunnskólum er talan um 23 prósent. Skólasókn er því enn nokkuð góð þó farið sé að þynnast aðeins,“ segir hann, en hafa ber í huga að þessar prósentutölur sýna einungis þá sem formlega eru skráðir í leyfi, veikir eða sóttkví. Gera má ráð fyrir að einhverjir nemendur séu ekki skráðir formlega þótt þeir séu fjarverandi.
Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands.
mbl.is/Sigurður Bogi
Skólasókn féll mjög í vikunni
Ragnar Þór Pétursson er formaður Kennarasambands Íslands. Hann segir skólasókn hafa fallið mjög í byrjun viku. „Án þess þó að nefna tölur þá var ástandið orðið þannig að mjög algengt væri að helmingur barna væri fjarverandi og jafnvel nokkuð meira en það,“ segir hann og vísar til bæði leik- og grunnskóla. Ástandið er þó ólíkt eftir skólum.
Aðspurður segir Ragnar Þór foreldrum heimilt að halda börnum sínum heima nú þegar skæður heimsfaraldur gengur yfir. „Það er auðvitað skólaskylda í landinu en það er búið að hvetja fólk til að halda börnum sínum heima, geti þau það.“
Ragnar Þór tekur í svipaðan streng og Helgi og bendir á að Kennarasamband Íslands hafi nú áhyggjur af þeim börnum sem þurfi á stuðningi að halda. „Við erum öll að reyna að ná utan um þann veruleika sem nú er uppi. Við höfum áhyggjur af því að stór hluti þeirra barna sem nú mætir ekki þurfi á stuðningi að halda. Hér erum við til að mynda að horfa á börn af erlendum uppruna. Það eru því hópar sem við erum að missa samband við, bæði í grunn- og framhaldsskólum. Og það er ansi snúið að finna út úr því hvernig best sé að sinna þeim sem eru heima og þeim sem eru enn í skólanum.“
Foreldrum er heimilt að halda börnum sínum heima nú þegar skæður heimsfaraldur gengur yfir.
mbl.is/Kristinn Magnússon