Skiptir miklu máli að horfa til lands

Búast má við því að leik- og grunnskólastarf verði einhverjum …
Búast má við því að leik- og grunnskólastarf verði einhverjum takmörkunum háð fram í maímánuð. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er alltaf hætta á smiti, svo einfalt er það nú. Sóttvarnalæknir og landlæknir vildu aftur á móti vekja athygli á því hve mikilvægt skólastarf er í lífum barna. Við nálgumst nú óðum páskaleyfi og eftir það tekur allur apríl við. Nú skiptir því afar miklu máli að horfa til lands, ekki einungis næsta áfangastaðar. Þessi sjúkdómur er ekki að fara frá okkur - hann verður hér næstu vikurnar,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, í samtali við Morgunblaðið.

Greint var frá því á mbl.is og í Morgunblaðinu að tveir leikskólastjórnendur á höfuðborgarsvæðinu litu bréf sóttvarnalæknis og landlæknis til skólastjórnenda, kennara og foreldra barna í leik- og grunnskólum gagnrýnum augum. Bréfið var sent þriðjudaginn 24. mars sl., en í því var áréttað mikilvægi þess að nemendur haldi áfram að sækja skóla þrátt fyrir miklar takmarkanir á skólastarfi vegna hraðrar útbreiðslu kórónuveiru í íslensku samfélagi. Sögðust leikskólastjórarnir óttast smit inn á leikskóla sína með aukinni mætingu barna og foreldra. 

mbl.is