Grín og garn andvirði 3.000 læka

Jakob tók upp þráðinn þar sem hann slitnaði fyrir góðum …
Jakob tók upp þráðinn þar sem hann slitnaði fyrir góðum áratug og hóf að prjóna í samkomubanninu. Meðal annars vegna þess að hann er karl, uppskar hann gríðarleg viðbrögð þegar hann sagði frá því. Ljósmynd/Aðsend

Neyðin kenn­ir nökt­um uppist­and­ara að prjóna, gæti þeim orðið á að segja sem sofnaði á verðinum og leyfði lík­ing­un­um að verða óþarf­lega mynd­ræn­um í miðjum heims­far­aldri.

Hvað sem því líður er Jakob Birg­is­son uppist­and­ari að prjóna eins og handóður maður þessa dag­ana og sú til­komu­litla staðreynd virðist óend­an­lega fær um að gleðja manns­hjörtu, nú þegar síst er vanþörf á.

Jakob setti mynd af sér inn í face­book­hóp. Inn­tak færsl­unn­ar: Ég var að prjóna peysu. Og viðbrögðin? Þrjú þúsund læk og þeim fjölg­ar bara. Geri aðrir bet­ur, gæti maður sagt, en guð forði kær­leika frá leik­regl­um frjálsr­ar sam­keppni.

„Maður er bara meyr að hóp­ur­inn skuli taka mann svona í fangið. Þetta er fyrsta sinn sem ég set eitt­hvað þarna inn og ég sé strax að þetta er alls ekki síðasta,“ seg­ir Jakob í sam­tali við mbl.is. Hóp­ur­inn er Handóðir prjón­ar­ar, 30.000 manna sam­ræðuvett­vang­ur prjón­ara um land allt.

Bæld ástríða blossaði upp að nýju

Eng­an skal undra að Jakob skuli ekki hafa vígst inn í þann söfnuð fyrr en nú, enda eru þess­ar hannyrðir hans nýj­ar af nál­inni. Í sam­komu­bann­inu sá hann sæng sína upp­reidda – hverri skemmt­un­inni var af­lýst á fæt­ur ann­arri og iðju­leysið blasti við – og hann brá á það ráð að fara að prjóna. 

„Í grunn­skóla lærði ég að prjóna í tex­tíl­mennt og mér fannst það óvenjugam­an. Ég prjónaði nokkr­ar húf­ur heima í kjöl­farið en svo flosnaði ég upp frá því eins og öðru. Prjóna­skap­ur­inn blundaði þó greini­lega í mér all­ar göt­ur síðan, því þegar mér datt í hug að taka upp þráðinn núna 12 árum síðar var eins og bæld ástríða fengi langþráða út­rás,“ lýs­ir Jakob.

Afrakst­ur­inn er for­láta grá peysa úr sisu-garni sem Jakob prjónaði á kær­ustu sína, Sól­veigu Ein­ars­dótt­ur. Jakob ef­ast ekki and­ar­tak um að Sól­veig muni klæðast peys­unni við hvert tæki­færi þó að hvert tæki­færi sé kannski orðum aukið, seg­ir Jakob, sem viður­kenn­ir að Sól­veig hafi viður­kennt að peys­an verði hugs­an­lega einkum „heimapeysa“ fyrst um sinn, af praktísk­um ástæðum: Hún vill fara sér­stak­lega vel með hana.

Læk og athugasemdir hrannast upp, og ekki ófáar þeirra lýsa …
Læk og at­huga­semd­ir hrann­ast upp, og ekki ófá­ar þeirra lýsa yfir ánægju með að karl­menn séu farn­ir að prjóna í aukn­um mæli. Ljós­mynd/​Face­book

Safn­ar grín­forða í ein­angr­un­inni

Sem fyrr seg­ir er helst til lítið um að vera í skemmt­ana­brans­an­um nú um mund­ir en Jakob seg­ir ekki þýða að missa móðinn. Hann held­ur sér við efnið með prjón­inu, og tekst því sem nem­ur að sniðganga sam­fé­lags­miðla. Vissu­lega fylg­ist hann með helstu tíðind­um, en er ekki sligaður af upp­lýs­ingainn­töku eins og lengst af á síðasta ári, þegar hann var hand­rits­höf­und­ur að skaup­inu, seg­ir hann. Spor­göngu­menn sína í því verki tel­ur hann þegar komna með nokk­urt efni að moða úr.

Jakob nýt­ir sjálf­ur tím­ann í að safna efni í nýtt uppistand enda inni­lokaður með fjöl­skyldu sinni, sem löng­um hef­ur verið hans helsta um­fjöll­un­ar­efni í grín­inu. Hina stund­ina stend­ur hann í fram­kvæmd­um í íbúð sinni í Vest­ur­bæn­um og nýt­ur þar aðstoðar tengda­föður síns.

„Ég er orðinn at­vinnu­leys­ingi eins og marg­ir fleiri en reyni auðvitað að gera gott úr því og nýta tím­ann. Síðan kem­ur maður tví­efld­ur til baka þegar stund­in renn­ur upp, með nóg af nýju efni. Þeir sem ég um­gengst mest eru meira að segja farn­ir að setja sér­staka fyr­ir­vara um að orð og gjörðir þeirra séu ekki til minna einka­nota. En við sjá­um hvað ég stend við,“ seg­ir Jakob. Tím­inn leiðir í ljós hvort ör­lög vel­gjörðamanna grín­ist­ans verði þau sömu og þeirra sem slys­ast til að gift­ast skáld­um.

View this post on In­sta­gram

A post shared by Jakob Birg­is­son (@jakobb­irg­is) on Mar 26, 2020 at 1:59pm PDT

mbl.is

Stönd­um sam­an

Við hjá Árvakri vilj­um vekja at­hygli á því sem vel er gert á þess­um erfiðu tím­um. Ef þú ert með góða sögu af fyr­ir­tækj­um og ein­stak­ling­um sem eru að gera gott, sendu okk­ur ábend­ingu á net­fangið stond­um­sam­an@mbl.is.

Stöndum saman