„Undanfarnar vikur hafa verið mjög erfiðar en nú er allt kapp lagt á að reyna að þjónusta nemendur eins og hægt er í mjög breyttu og nýju umhverfi,“ segir Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands, í samtali við Morgunblaðið.
Samkomubann tók gildi á Íslandi 16. mars síðastliðinn vegna mikillar útbreiðslu kórónuveiru. Á sama tíma var framhaldsskólum og háskólum lokað og tekin upp fjarkennsla. Leik- og grunnskólum er enn haldið opnum þótt þar sé starfið takmarkað og í verulega breyttri mynd.
Þorsteinn segir skólastjórnendur grunnskóla hafi rætt hvort betra væri að loka þeim skólum einnig. Það sé þó lögð höfuðáhersla á að fara eftir tilmælum sóttvarnalæknis og yfirvalda í faraldrinum.
„Markmið grunnskóla númer eitt er að standa sig í að halda úti því skipulagi sem farið er fram á við okkur þótt upp hafi komið aðstæður þar sem verulega hefur orðið að bregða út af, til dæmis með lokunum skóla vegna útbreiðslu á smiti,“ segir hann og bendir á að staða skóla og kennslufyrirkomulag sé mjög misjafnt. „Það er í raun allt í gangi,“ bendir hann á.
Skólasókn er frá 30 prósentum
Þá segir Þorsteinn stjórnendur skóla leggja mikla áherslu á velferð og tengsl við nemendur. „Þegar skólastarf er orðið mjög takmarkað og nemendur eru ýmist heima eða í staðbundnu námi, þá skiptir þetta atriði, það er að halda tengslunum sterkum, mjög miklu máli.“
Spurður hvort hann hafi upplýsingar um skýr merki þess að einhverjir nemendur séu farnir að missa tengslin við skóla sinn vegna þess ástand sem nú ríkir í samfélaginu svarar Þorsteinn: „Ég held við séum að halda utan um þetta eins vel og hægt er í grunnskólanum. Það er hringt reglulega í þá nemendur sem eru heima og þeim send verkefni. Mikil áhersla er lögð á tengslin, enda mikilvægt að mæta börnunum á sem bestan hátt í svona aðstæðum til að lágmarka óöryggi og kvíðaástand.“
Spurður út í mætingu nemenda í skólum bendir Þorsteinn á að fremur fáir skólar séu nú opnir öllum. Því sé ekki mikið mark hægt að taka á mætingartölum eingöngu. Skólasókn er nú á bilinu 30-80%. „Lægstu tölur fyrir helgina voru 30 prósent í grunnskóla, en þetta fer upp í 80 prósent. Við erum ekki að halda úti fullu námi í grunnskólunum, nemendur eru að mæta inn í skólana til að sitja þrjár til fjórar kennslustundir á dag og einhverjir minna en það.“
Ekki mætt frá samkomubanni
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, segir mikinn hug vera í sínum félagsmönnum. Staðan sé þó afar snúin og óvissan mikil.
„Þótt kennarastarfið sé fjölbreytt og engir tveir dagar eins þá er skipulag skólastarfs mjög niðurnjörvað og ákveðið með löngum fyrirvara. Fyrir grunnskólakennara er þessi áskorun því rosaleg og óvissan um framhaldið afar lýjandi. En ég held að kennarar séu að bregðast við með öllum sínum ráðum,“ segir hún.
Þorgerður Laufey segir sum börn ekki hafa mætt í skólann frá því samkomubann tók gildi, einkum börn innflytjenda. Er þetta áhyggjuefni, að hennar mati.
„Foreldrar erlendra barna hafa í stórum stíl tekið börn sín úr skólunum. Oft og tíðum er þessi hópur að fylgjast með fréttum frá sínu heimalandi og þar er brugðist öðruvísi við en hér,“ segir hún. Skortur á skólaskyldu í heimalandi viðkomandi kann einnig að ýta undir þá ákvörðun foreldranna að taka börn sín úr skóla. „Það er ekki alls staðar skólaskylda. Íslenskir foreldrar senda börn sín frekar í skólann af því að skólaskylda er inngróin í íslenskt samfélag.“
Róðurinn þyngist með hverri viku
Sigurður Sigurjónsson er formaður Félags stjórnenda leikskóla. Hann segir stöðuna almennt góða og að stjórnendur og starfsfólk leikskóla geri sér vel grein fyrir erfiðri stöðu skólakerfisins. Sumir séu þó hræddir um eigin heilsu.
„Það má ekki gleyma því að þessi stétt er ekki sú yngsta. Sumir eru hræddir um sjálfa sig og sína fjölskyldu. Kennarar eru innan um nemendur og foreldra sem koma með börn sín í skólana,“ segir hann, en Morgunblaðið hefur áður greint frá áhyggjum leikskólastjóra sem segja smithættu fylgja komum foreldra inn á leikskólana.
„Það er ákveðin hræðsla við þetta. En ef fólk er veikt fyrir þá getur það auðvitað fengið vottorð, rætt við sinn yfirmann og fengið að vinna heima ef þess er kostur. Þá getur viðkomandi skráð sig í sóttkví líka, eins og reglur kveða á um í þessu ástandi. Það er alveg skiljanlegt að fólk sé hrætt um sig og sína nánustu,“ segir Sigurður og bætir við að stór hluti leikskólastjóra og -kennara ætli að standa sína vakt og það með sóma.
„Það er í raun ótrúlegt hvað fólk hefur lagt mikið á sig við að búa til nýtt leikskólastarf. Það er þó erfitt að halda uppi góðum starfsanda við svona aðstæður, nú er þriðja vika samkomubanns að byrja og róðurinn verður alltaf þyngri,“ segir Sigurður.
Nemendur sums staðar að hverfa
Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir kennara nú reyna að sinna vinnu sinni að heiman. „Þetta ástand hittir fólk þó á ýmsa vegu og nemendur og kennarar eiga misauðvelt með þetta. Sums staðar gengur þetta vel en annars staðar eru nemendur að hverfa. Það er erfitt að halda utan um nemendur og að halda fólki virku er mjög erfitt í svona ástandi,“ segir Guðjón Hreinn og bætir við að fyrirséð sé að einhverjir muni falla alveg úr námi vegna ástandsins.
„Það væri ótrúleg lukka ef það myndi ekki gerast. Aðstæður fólks eru afar mismunandi og sumir neyðast einfaldlega til þess að hætta að læra til að sinna öðrum þáttum. Það er því borðleggjandi að þetta mun hafa áhrif en reynt er að takmarka þau eins og kostur er,“ segir hann.