„Staða þessara barna er mikið áhyggjuefni. Á sama tíma berast okkur þau tíðindi að foreldrarnir hafi einnig lokað sig af. En þeir segja; ef ég veikist þá höfum við ekkert bakland hér á landi,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, í samtali við Morgunblaðið.
Vísar hann í máli sínu til foreldra og barna af erlendum uppruna. Hefur þessi hópur einangrast mjög undanfarið vegna útbreiðslu kórónuveiru hér á landi. Er svo komið að tekið er að fjara undan tengslum þessara barna við skóla sína. Hafa skólastjórnendur meðal annars lýst yfir miklum áhyggjum vegna þessa í samtölum sínum við Morgunblaðið síðustu daga.
„Við ætlum að setja á laggirnar sérstaka vakt í kringum þennan hóp. Ástandið er ekki að breytast á næstunni og ljóst að skólahald verður með takmörkunum eftir páska. Það skiptir gríðarlega miklu máli að halda góðum tengslum og vita hvað þau eru að gera svo fólk hellist ekki úr lestinni,“ segir Helgi.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Aðspurður segir hann fleiri en börn innflytjenda falla hér undir. „Þetta á almennt við þann hóp sem hefur veikt bakland. Það skiptir svo miklu máli að þau börn njóti skólahalds og tengingar við skólann. Að tilheyra skólahaldi er afar mikilvægt fyrir börn,“ segir Helgi.
Þá bendir Helgi einnig á að fólk af erlendum uppruna sé nú í talsvert mikilli hættu á að missa vinnu sína vegna þeirra efnahagsþrenginga sem blasa við.
Krefjast harðari aðgerða
Sabine Leskopf, formaður fjölmenningarráðs Reykjavíkurborgar, segir hljóðið í innflytjendum vera „allt öðruvísi“ en í Íslendingum.
„Þessir foreldrar senda börn sín síður í skólann, hafa miklar áhyggjur og vilja frekar hafa börnin heima. Frá sínum heimalöndum fá þau fréttir af lokuðum skólum og krefjast þess einnig hér til að vernda börnin. Annað atriði sem kann að skýra þetta er mikil áhersla innflytjenda á börnin. Íslenskt samfélag leggur skiljanlega áherslu á þá sem eldri eru, en eldri ættingjar innflytjenda eru aftur á móti ekki hér,“ segir Sabine og heldur áfram:
„Um leið og börnin eru tekin úr skólanum og foreldrarnir geta ekki leitað til ömmu og afa eftir aðstoð þá lokast fjölskyldan sjálfkrafa af. Að sama skapi má halda því fram að þessi hópur sé undir meira álagi þar sem baklandið er ekkert.“
Segir hún afar mikilvægt að bregðast hratt við stöðunni og veita börnum innflytjenda aðstoð við hæfi. „Þetta er einmitt sá hópur sem má alls ekki missa af skólastarfi. Það skiptir afar miklu máli fyrir þessa krakka að vera í íslenskumælandi umhverfi og fá menntun við hæfi. Svo má ekki gleyma því að foreldrar þessara barna geta kannski ekki veitt sama stuðning við heimanámið og aðrir. Við stöndum því kannski frammi fyrir miklu bakslagi í þessum hópi.“
Spurð hvort hún viti til þess að atvinnuleysi sé að aukast meðal innflytjenda á Íslandi kveður Sabine nei við. „Það gerir það yfirleitt en við höfum ekki séð neinar tölur frá Vinnumálastofnun. Við höfum þó alltaf séð atvinnuleysi meðal þessa hóps aukast þegar þrengir að, sérstaklega í ferðaþjónustu. Það má því búast við því.“
Sabine Leskopf, formaður fjölmenningarráðs Reykjavíkurborgar.
mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson
Þá segir hún einnig vantraust í garð kerfisins vera fremur ríkjandi meðal innflytjenda á Íslandi og kann það að hafa áhrif á ákvörðun þeirra um að halda börnum sínum heima.
„Þessi hópur ber oft saman skólakerfið hér og í heimalandinu og það er margt öðruvísi. Þetta er mjög vandmeðfarið og flókið verkefni.“
Sabine segir mikilvægt nú að sveitarfélög og fyrirtæki reyni hvað þau geti til að auka hlutfall starfsmanna af erlendum uppruna. Slíkt sé, að hennar mati, til þess fallið að auka traust meðal annarra innflytjenda í samfélaginu.
„Ég tel mikilvægt að auka mjög hlutfall vel menntaðra starfsmanna af erlendum uppruna. Það myndi auka traust en einnig skiptir þetta afar miklu máli fyrir börnin, að þau geti séð sig í þessu fólki. Börn sjá nú mörg bara innflytjendur sinna þrifum í skólum sínum, þau ættu fremur að sjá fyrirmyndir í kennurum og deildarstjórum. Það er svo mikilvægt að leyfa innflytjendum að taka virkari þátt í samfélaginu í stað þess að vera bara þiggjendur. Vonandi getur íslenskt samfélag lært þetta í þessu ástandi sem nú er,“ segir hún.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.