Til umræðu er nú í Danmörku að fella niður komandi stúdentspróf vegna þess ástands sem skapast hefur í skólamálum í kjölfar útbreiðslu kórónuveiru. Er ástæða þess meðal annars sögð mikið álag á nemendur í fjarkennslu, einkum þá sem standa höllum fæti fyrir.
Kristinn Þorsteinsson, skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ og formaður Skólameistarafélags Íslands, segir engin áform um slíkt hér á landi. Allir framhaldsskólar geri ráð fyrir að ljúka önninni á hefðbundnum tíma með prófi eða mati á stöðu nemenda.
„Skólarnir eru mjög ólíkir, sumir eru með lítil sem engin próf á meðan aðrir eru með mikla prófahefð og þannig verður það áfram,“ segir hann og bætir við að skólastarf síðastliðnar vikur hafi „gengið vonum framar“.
„Það er vissulega mikið átak að taka hefðbundna kennslu og skella henni í dreifnám með afar skömmum fyrirvara. Menn voru misvel undir þetta búnir en allir tókust á við verkefnið í sameiningu. Fjölmargir skólar, eins og til að mynda okkar, halda svo úti tímum á netinu þar sem tekið er niður manntal og fylgst með mætingu. Nemendur vinna svo verkefni og skila á netinu,“ segir Kristinn og bætir við að fjarfundabúnaður og samskiptaforrit komi sér vel núna.
Aðspurður segir Kristinn starfsnám í erfiðari stöðu en hefðbundið bóknám. „Bóknámið gengur að mínu mati mjög vel. Ég á ekki von á öðru en að menn munu ljúka sínu námi eins og venjulega, hvort sem haldin verður einhver athöfn eða skírteini sent heim í pósti. Starfsnámið er aftur á móti við erfiðari aðstæður. Þar eru ýmis tæki og tól sem ekki er hægt að nota og áhyggjur manna því meiri. Þó er á sama tíma verið að leggja aukna áherslu á fagbóklega þætti innan verknámsins og svo er hugsunin sú að leggja meiri áherslu á verknám þegar menn komast aftur til starfa,“ segir hann. „Bóknámið bjargar sér en verknámið glímir eðlilega við meiri erfiðleika.“
„Engin örvænting í gangi“
Kristinn segir skólastjórnendur, kennara og starfsfólk mennta- og menningarmálaráðuneytisins hafa unnið afar góða og mikla vinnu við erfiðar aðstæður. „Ég vil nýta tækifærið sérstaklega til að hrósa ráðuneytinu fyrir hvernig þar hefur verið staðið að málum. Að sama skapi hafa kennarar tekið þessu mjög vel og eiga mikið hrós skilið fyrir sitt framlag. Okkur hefur í raun tekist að halda úti kennslu án þess að það hafi fallið niður dagur,“ segir hann og bætir við:
„Þessi hópur hefur unnið ótrúlega vel við erfiðar aðstæður. Það er engin örvænting í gangi og hljóðið í skólameisturum er almennt gott. Þótt menn sjái vandræði þá gengur þetta ágætlega.“
Fleiri lenda sennilega í vanda
Morgunblaðið hefur undanfarið greint frá áhyggjum skólastjórnenda vegna erfiðrar stöðu í skólamálum. Hafa þeir meðal annars áhyggjur af því að sumir nemendur séu farnir að missa tengsl sín við skólana. Kristinn segir hugsanlegt að fleiri nemendur séu nú að lenda í erfiðleikum en vanalega.
„Það munu alltaf einhverjir líða fyrir svona skrítið ástand. Hugsanlega lenda fleiri nemendur í erfiðleikum nú, en við erum þó að láta námsráðgjafa hringja í nemendur til að fylgjast með þeim sem eru í erfiðleikum. Ástandið er vissulega öðruvísi og erfitt,“ segir hann og heldur áfram:
„Við getum misst hópa frá okkur, fólk getur jú sleppt því að svara þegar við hringjum. En hvort þetta sé stærri hópur en vanalega, við bara vitum það ekki á þessu stigi.“
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.