Norðmenn máttu hefja hrefnuveiðar ársins í gær, 1. apríl, og er heimilt að veiða 1278 dýr. Það er sami kvóti og í fyrra, en þá veiddust 429 dýr og var það lélegasta vertíðin fram til þessa.
Veiðarnar eru umdeildar og hefur breski stjórnmálamaðurinn og auðjöfurinn, Michael Ashcroft, gagnrýnt veiðarnar harðlega. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir hann þær gamaldags, villimannslegar og ónauðsynlegar.
Fjallað er um málið á vef NRK Nordland og er vitnað í grein sem Ashcroft lávarður skrifaði i Mail on Sunday. Þar segir Ashcroft að Norðmenn geti ekki réttlætt slátrun á hrefnum í hundraðavís á hverju ári. Hann segist ekki kaupa þær röksemdir að veiðarnar byggist á norskum hefðum. Að sama skapi hafi þrælahald verið hluti af venjum í Bretlandi fram til 1833.