„Þessi dagur skiptir margt fólk alveg ofboðslega miklu máli, en ég hef fulla trú á því að við getum haldið honum á lofti í ár og innan ASÍ er þegar hafin vinna við að finna leiðir til þess,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í samtali við Morgunblaðið.
Greint var frá því á mbl.is að sóttvarnalæknir hafi lagt það til við heilbrigðisráðherra að samkomubanni vegna útbreiðslu kórónuveiru hér á landi yrði aflétt mánudaginn 4. maí næstkomandi. Gera má ráð fyrir að banninu verði aflétt í skrefum. Vegna samkomubanns verða hátíðarhöld í tengslum við alþjóðlegan baráttudag verkalýðsins, sem haldinn er 1. maí ár hvert, með afar breyttu sniðið, en fjöldasamkomur og kröfugöngur eru ekki leyfðar á meðan samkomubann ríkir. Mun dagurinn að líkindum færast yfir í netheima og sjónvarp.
„Við innan Eflingar erum orðin ansi flink í því að nota samfélagsmiðla til að koma okkar skilaboðum á framfæri. Eins höfum við unnið mikla vinnu með félagsmönnum og ættum að geta fengið þá með okkur í lið til að koma saman með einhverjum hætti á netinu,“ segir Sólveig Anna og bætir við að baráttudagur verkalýðsins eigi afar vel við í dag nú þegar launafólk stendur frammi fyrir mikilli óvissu.
„Þessi dagur er ekki síður mikilvægur nú þegar við stöndum frammi fyrir hrikalegu ástandi. Við hljótum öll að gera okkur grein fyrir því að vinnandi fólk er ávallt sá hópur sem þarf að bera þyngstu byrðarnar. Það er alltaf látið þannig og ákveðið fyrir fram að niðurstaða samtalsins og samfélagssáttmála sé sú að vinnandi fólk skuli enn eina ferðina rogast með byrðarnar og þjást. Ef ekki er þörf á því að koma saman núna og telja kjark og baráttuanda í hvort annað, þá veit ég ekki hvenær. Auðvitað verður forvitnilegt að sjá hvernig okkur tekst til með þetta núna en ég er alltaf bjartsýn á leiðir,“ segir Sólveig Anna.
Spurð hvort nú sé ef til vill tækifæri til að ná til fleiri einstaklinga en venjulega kveður hún já við. „Ef okkur tekst að búa til einhverja stóra dagskrá sem verður á netinu og mögulega einnig í sjónvarpi, þá gæti það gerst. Það eru jú margir sem eiga ekki heimangengt og ungt fólk sem hefur kannski ekki gefið okkar gömlu hefðum tíma. Við skulum sjá hvað gerist.“
Dagurinn ekki blásinn af
Drífa Snædal, forseti ASÍ, segist reikna með að öll félög aflýsi nú hátíðarhöldum sínum.
„Það er alltaf ábyrgðahluti að stefna saman fólki og nú reikna ég með að þau félög sem ekki þegar hafa blásið af sína hefðbundnu baráttufundi geri það. Á sama tíma munum við finna aðrar leiðir til að tryggja að fólk geti notað daginn til að brýna sig og leggja sitt af mörkum,“ segir Drífa.
„Við finnum einhverja leið til að gera þetta í netheimum í stað raunheima. Það er mikilvægt að fólk geti með einhverju móti tekið þátt í deginum. Það er alls ekki verið að blása hann af.“
VR lokar orlofshúsum sínum
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, flytur ávarp á upplýsingafundi.
mbl.is/Hari
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir 1. maí-nefnd verkalýðsfélaganna hafa verið búna undir samkomubann.
„Nefndin er nú að skoða hvaða möguleika við höfum til að halda upp á daginn með hátíðardagskrá. Það verður brugðist við þessu með öllum tiltækum leiðum, enda er þessi dagur mikilvægur okkur öllum,“ segir Ragnar Þór.
Almannavarnir, sóttvarnalæknir og landlæknir hafa beðið almenning um að halda sig heima um komandi páskahátíð og vera þannig ekki á faraldsfæti. Hafa almannavarnir þannig mælst gegn því að fólk fari í sumarhús, slíkt sé talið óheppilegt nú þegar sjúkrahús landsins eiga fullt í fangi vegna útreiðslu kórónuveiru.
Ragnar Þór segir VR nú hafa tekið ákvörðun um að meina félagsmönnum sínum að nota sumarhús félagsins. Vill VR þannig koma til móts við ósk almannavarna og heilbrigðisyfirvalda. Aðspurður segir Ragnar Þór óvenjumikla aðsókn hafa verið í sumarhús VR fyrir þessa páska.
„Við munum þurfa að loka sumarhúsum um páskana þar sem almenningur og stéttarfélög voru beðin um að stefna ekki fólki þangað. Það hefur verið alveg rosaleg aðsókn í orlofshúsin okkar, allt uppbókað,“ segir hann og bætir við að þeir sem hafi fengið úthlutað sumarhúsi muni fá innborgun sína endurgreidda. „Við munum að sjálfsögðu leggja okkar að mörkum til að berjast gegn þessum faraldri. Þeir sem hafa pantað hús og greitt fyrir fá endurgreitt.“
Fremur eftir en fyrir helgi
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn ásamt sóttvarnalækni.
mbl.is/Kristinn Magnússon
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir almannavarnir og landlækni fremur vilja aflétta samkomubanni við upphaf viku í stað þess að gera það við eða um helgi.
„Það er betra að gera þetta á mánudegi, svona við upphaf vinnuviku þegar fólk er líklegra til að vera í rólegheitum,“ segir hann. Af þeim sökum er meðal annars heppilegra að aflétta samkomubanni 4. maí, eftir verkalýðsdaginn, þar sem um er að ræða mánudag.
Þá segir hann nokkur stéttarfélög hafa sett sig í samband við almannavarnir vegna útleigu orlofshúsa. „Einhver félög eru nú að hvetja fólk sitt til að vera heima.“