„Skólakerfið hefur síðastliðnar vikur staðið frammi fyrir gríðarmiklum áskorunum og það var mikil og flókin framkvæmd að halda því gangandi. Ég er því afskaplega stolt af öllum þeim sem komu að þessari mikilvægu vinnu og hvernig til hefur tekist,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í samtali við Morgunblaðið.
Samkomubann tók gildi á Íslandi 16. mars síðastliðinn vegna mikillar útbreiðslu kórónuveiru. Á sama tíma var framhaldsskólum og háskólum lokað og tekin upp fjarkennsla. Leik- og grunnskólum er enn haldið opnum þótt þar sé starfið takmarkað og í verulega breyttri mynd. Um þetta hefur verið fjallað hér í Morgunblaðinu og á mbl.is og meðal annars rætt við skólastjórnendur um þær áskoranir sem skólarnir standa nú frammi fyrir. Í máli þeirra var einkum lögð mikil áhersla á velferð og góð tengsl við nemendur. Undir þetta tekur menntamálaráðherra.
„Vellíðan og virkni nemenda skiptir öllu máli á tímum sem þessum. Að uppi sé festa en um leið sveigjanleiki í kerfinu skiptir að mínu mati afar miklu máli. Þá hefur einnig verið lögð mikil áhersla á góð samskipti milli lykilaðila svo tryggja megi gang skólakerfisins,“ segir Lilja Dögg, en undirbúningur vegna hugsanlegrar röskunar í starfsemi skóla hófst snemma í febrúar síðastliðnum.
„Við áttum þá, líkt og nú, meðal annars í nánu samstarfi við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sóttvarnalækni og landlækni. En það var strax 17. febrúar sem undirbúningur hófst. Þegar loks var orðið ljóst að skólahald myndi takmarkast að verulegu leyti hafði þessi hópur átt sjö samráðsfundi. Núna er svo fundað minnst tvisvar sinnum í viku þvert á öll skólastig; leik-, grunn-, framhalds- og háskóla. Einnig koma að þessu einstaklingar frá framhaldsfræðslunni, heildarsamtökum foreldra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og skólastjórnendum svo eitthvað sé upptalið. Svona höfum við tekið á þessu verkefni frá upphafi, með nánu samstarfi og mikilli samvinnu, og út frá tilmælum og ráðleggingum frá sóttvarnalækni,“ segir Lilja Dögg.
Opnun skóla vel rökstudd
Sú ákvörðun að halda leik- og grunnskólum opnum hefur ekki verið án gagnrýni. Segir Lilja Dögg hins vegar ráðleggingar sóttvarnalæknis og gögn frá OECD styðja opnun. Ekki sé þörf á að loka þessum skólastigum á meðan veirufaraldurinn herjar minna á börn en fullorðna. Þá segja gögn OECD lokun skólastiganna munu hafa „gríðarleg“ efnahags- og félagsleg áhrif, en 16-45% foreldra þyrftu þá að taka sér leyfi frá vinnu til að hugsa um börn sín.
Lilja Dögg segir nú búið að setja á laggirnar hóp sem ætlað er að takast á við hugsanlegt brotthvarf nemenda á framhaldsskólastigi.
„Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með skólameisturum undanfarið. Þeir hafa skipulagt hringingar í þá nemendur sem viðkvæmastir eru til að halda þeim virkum í námi. Ég hef því góða tilfinningu fyrir árangri,“ segir Lilja Dögg, en sveitarfélög bera ábyrgð á rekstri leik- og grunnskóla. Í fyrri umfjöllun hefur komið fram að Reykjavíkurborg hefur einnig hrundið af stað átaki til að halda utan um viðkvæma nemendur. „Mitt meginmarkmið er að hjálpa viðkvæmustu hópunum. Þegar búið er að sigrast á veirunni mun ég setja allar nauðsynlegar bjargir af stað.“ Er ráðherra þá einkum að vísa til þeirra barna sem glíma við námsörðugleika og börn innflytjenda.
Við ætlum að klára þetta
Fram hefur komið að til umræðu sé nú að fella niður komandi stúdentspróf vegna þess ástands sem skapast hefur í skólamálum í kjölfar útbreiðslu kórónuveiru. Engin áform eru um slíkt hér á landi og gera allir framhaldsskólar ráð fyrir að ljúka önninni á hefðbundnum tíma með prófi eða mati á stöðu nemenda. Lilja Dögg segir það í raun aldrei hafa komið til greina að gera slíkt hér á landi.
„Við erum bara alls ekki á þeirri skoðun. Staðan er vissulega snúnari í starfsnáminu en allir eru staðráðnir í því að halda áfram. Það verður sveinspróf en við sláum því bara aðeins á frest og þetta er hugarfarið í okkar vinnu; við ætlum að klára hlutina og finna lausnir.“
Starfsfólk í Seljaskóla tekur skólastofu í gegn og notast við sótthreinsandi efni.
mbl.is/Kristinn Magnússon
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.