Fólk er eðlilega óttaslegið

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Ásdís

Yfirlögregluþjónninn Víðir Reynisson stendur vaktina þessa dagana og brýnir fyrir landsmönnum að fara varlega, halda tveggja metra reglunni, spritta sig og halda sig heima. Eyjapeyinn Víðir hefur víðtæka reynslu af björgunaraðgerðum og almannavörnum og er því réttur maður á réttum stað. Og öll viljum við hlýða Víði.

Einn hráslagalegan dag í vikunni fór blaðamaður til fundar við einn þremenninganna í framlínunni þessa dagana, yfirlögregluþjóninn Víði Reynisson. Víðir hefur víðtæka reynslu af almannavarnastarfi sem kemur sér vel nú þegar lífið liggur við að hægja á útbreiðslu hinnar alræmdu kórónuveiru og upplýsa þjóðina um gang mála. Víðir hefur ávallt unnið á bak við tjöldin og því aldrei verið þekkt andlit í þjóðfélaginu. Nú er hann líklega einn þekktasti maður Íslands; nokkuð sem hann hvorki átti von á né bað um.

Víðir er sestur góða tvo metra frá blaðamanni í litlu gámahúsi fyrir utan Björgunarmiðstöðina í Skógarhlíð. Þar fara blaðamannafundir fram daglega klukkan tvö og er óhætt að segja að þjóðin sitji límd yfir þeim til að fylgjast með framgangi mála. Víðir, Alma Möller og Þórólfur Guðnason hafa staðið vaktina og bæði upplýst og sefað þjóðina á þessum óvissutímum. Víðir hefur fengið þjóðina til að virða lög og reglur. Fólk hefur tekið það til sín og segir gjarnan: Ég hlýði Víði!

Og það er gott að hlýða Víði; hann virkar yfirvegaður og virðist vera með allt á hreinu. Þjóðin hreinlega fær ekki nóg af honum og því ákvað Sunnudagsblaðið að skyggnast á bak við tjöldin og kynnast manninum Víði Reynissyni.

Horfði heim til Eyja

„Ég fæddist í Eyjum í apríl 1967 og bjó þar á tólfta ár. Það var dásamlegt að alast upp á stað þar sem frjálsræðið er mikið. Ég var rosalega mikið í fótbolta þótt ég væri aldrei neitt svakalega góður. Við vorum með okkar eigið Wembley; grasvöll þar sem við bjuggum til heimatilbúin mörk úr steinum eða úlpum,“ segir hann.

Víðir var sex ára þegar fór að gjósa í Heimaey árið 1973.

„Fyrsta minningin er af mér þar sem ég stend fyrir utan húsið, sem stóð rétt efst í bænum. Ég man að ég stóð og horfði á gosið en ég held ég hafi ekki skilið þetta almennilega. Ég á líka sterka minningu frá kvöldinu áður. Í forstofunni var innri hurð með gleri sem enn var ekki búið að festa almennilega. Ég man að þetta kvöld titraði glerið og ég lék mér að því að setja fingur á það þannig að það hætti. Svo sleppti ég og þá fór aftur að titra; það glamraði í glerinu. Pabbi hélt að olíukyndingin í húsinu væri að bila. Þetta var nokkrum tímum áður en fór að gjósa,“ segir hann.

„Ég man líka eftir að hafa verið á bryggjunni og svo síðar í bátnum. Við sátum inni í bát og mamma var þar með litlu systur mína í fanginu en hún var ekki orðin eins árs. Á milli okkar var stór olíufata. Ég ældi eins og múkki alla leiðina. Svo man ég hvað það var gott að komast til ömmu og afa sem bjuggu í Ölfusi. Þar dvöldum við í húsi með útsýni til Vestmannaeyja og ég stóð oft við gluggann og horfði á gosmökkinn. Ég var greinilega mikið að hugsa heim.“

Móðir hans, María Júlía Helgadóttir, vann ýmis störf, bæði í fiski og við umönnun aldraðra. Faðir Víðis, Reynir Gunnsteinsson, skólastjóri í Vestmannaeyjum, var í almannavarnanefnd Vestmannaeyja og stóð því vaktina í Eyjum á gostímum. „Þetta er kannski í blóðinu,“ segir Víðir og brosir út í annað.

„Ég fór til Eyja þarna um sumarið, strax eftir goslok, og var þar í nokkra daga hjá pabba, en við fluttum ekki aftur til Eyja fyrr en sumarið 1974. Þá var búið að hreinsa allt það helsta en það var ennþá verið að moka upp húsin sem voru austast í bænum. Þetta var mikill ævintýraheimur fyrir lítinn strák. Við vinirnir vorum að þvælast þarna um allt og skriðum inn í húsin og lékum okkur í nýja hrauninu, sem var mjög torfært svo ekki sé meira sagt. Það var enn hiti í gjótunum og maður þurfti ekki að sparka burt mörgum steinum til að komast niður á glóð. Það var ýmislegt brallað þarna,“ segir Víðir með blik í auga.

„Ég tala alltaf um að fara heim til Eyja.“

Sonur skólastjórans

Ellefu ára flutti Víðir ásamt fjölskyldu sinni upp á land, eins og það er kallað. Þar gekk hann í Snælandsskóla, Árbæjarskóla, og aftur í Snælandsskóla, en faðir hans var þar bæði kennari og skólastjóri.

Þú hefur þá verið sonur skólastjórans?

„Já, í tveimur skólum, barnaskólanum í Vestmannaeyjum og svo í Snælandsskóla. Pabbi var vel liðinn en mjög strangur kennari. En ég fann aldrei neitt fyrir því að vera sonur hans; kannski hugsaði ég lítið um það,“ segir hann og bætir við að hann hafi ekki verið strangur sem faðir.

Víðir segist hafa verið nokkuð stilltur unglingur þótt hann muni einhver strákapör. „Ég lenti aldrei í neinu veseni og ef ég horfi til baka held ég að ég hafi ekki skaðað neinn. En ég var enginn engill og ég skammast mín mikið fyrir það að ég tók örugglega þátt í einelti þegar ég var í grunnskóla en ég man sérstaklega eftir tveimur drengjum sem urðu fyrir barðinu á eineltinu. Ég var þátttakandi að einhverju leyti og það er engin afsökun fyrir því að taka þátt í svona. Þá var maður ekki góður unglingur. Sem betur fer er meira talað um einelti í dag og miklu meiri fræðsla fyrir krakka um þessi mál,“ segir Víðir alvarlegur í bragði.

Víðir fór svo í Menntaskólann í Kópavogi en gafst upp eftir rúmt ár þegar verkfall skall á. Hann fór þá í byggingarvinnu og bauðst síðar að fara á samning í trésmíði sem hann þáði og settist því á skólabekk í Iðnskólanum. Hann kláraði trésmíðina og starfaði við fagið í um áratug.

Varstu góður smiður?

„Nei, ekkert sérstaklega,“ segir hann og hlær.

„Jú, jú, ég get alveg bjargað mér. En ég fann að þetta var ekki ég.“

Víðir og eiginkona hans, Sigrún María, eiga tvö börn, Söru …
Víðir og eiginkona hans, Sigrún María, eiga tvö börn, Söru Kristínu og Kristján Orra.

Kalla mig pappalöggu

Hjálparsveit skáta stóð í húsbyggingum árið 1996 og var Víðir ráðinn til að halda utan um byggingarframkvæmdir. „Ég vann í því og í kjölfarið var ég í öðrum verkefnum. Mig langaði ekki að fara aftur að smíða þegar þessu lauk þannig að ég fór að vinna í timbursölunni í Byko og kunni vel við mig þar. Ég fór þaðan að vinna hjá fyrirtæki sem seldi búnað í fiskiskip og vann þar í nokkra mánuði. Árið 2000 urðu svo jarðskjálftar á Suðurlandi og vann ég mikið þá sem björgunarsveitarmaður vegna þeirra. Eftir skjálftana hélt ég áfram að vinna við að taka saman gögn og fannst það mjög skemmtilegt. Stuttu síðar var auglýst staða hjá Almannavörnum ríkisins sem ég fékk og hóf að vinna þar um haustið. Ég var þá sviðsstjóri samhæfingarsviðs. Almannavarnir ríkisins voru svo lagðar niður árið 2003 og verkefni flutt til Ríkislögreglustjóra,“ segir Víðir en hann fékk þá vinnu þar í almannavarnadeild og vann þar næstu tólf ár. Á sama tíma kláraði hann lögregluskólann meðfram vinnu. Honum var svo boðin staða deildarstjóra yfir almannavarnadeildinni sem hann þáði.

„Ég hef aldrei verið almennur lögreglumaður. Vinir mínir kalla mig pappalöggu og ég held það sé nokkuð rétt hjá þeim,“ segir Víðir og brosir.

Víðir hefur alla tíð verið mjög virkur í björgunarsveit, sérstaklega til ársins 2003.

„Síðustu ár hefur það meira snúið að einstökum verkefnum, eins og flugeldasölu. Ég hef ekki farið í útköll í mörg ár, en fór mikið áður og var í svæðisstjórn um tíma. Ég sá þá að skipulags- og stjórnunarstörf áttu vel við mig. Það er kannski byrjunin á því hvert það leiddi mig síðar; hvar ég er í dag. Grunnurinn í þessu er að eiga almennileg samskipti við fólk.“

Margir fá ekki hrós

Sem deildarstjóri almannavarnadeildar, á árunum 2006 til 2015, sá Víðir um undirbúning almannavarnakerfisins.

„Við vorum að reyna að fá fólk til að undirbúa sig fyrir ýmiss konar ástand; eins og til dæmis það sem við erum stödd í núna. Það gat verið snúið því menn voru mismóttækilegir á tímum þegar ekkert var að gerast. Við vorum með fyrstu æfinguna sem sneri að heimsfaraldri árið 2005, fyrir fimmtán árum. Á hverju ári síðan höfum við verið að undirbúa okkur fyrir að takast á við svona atburði eins og við stöndum frammi fyrir í dag,“ segir Víðir og segir að þau hafi gert sér grein fyrir að heimsfaraldrar væru reglulegir viðburðir.

„Við vissum auðvitað ekki hvaða tegund gæti komið upp, en vinnan 2006 til 2009 snerist um inflúensu. En við höfum haldið þeirri vinnu áfram alveg síðan og margir lagt hönd á plóginn.“

Hvernig býr maður þjóð undir veirufaraldur?

„Fyrsta skrefið er að greina hverja faraldurinn hefur áhrif á. Í þessu samhengi er augljóst að enginn sleppur. Þá reynir maður að greina lykilstofnanir; hvaða starfsemi má ekki stöðvast. Allt frá 2006 voru stofnaðir margir vinnuhópar sem reyndu að greina einstaka þætti og við fórum í það að biðja fyrirtæki og stofnanir að gera áætlanir um það hvernig hægt væri að láta helming starfsmanna vera í burtu á hverjum tíma. Það var viðmiðið; að geta keyrt starfsemina með 50% starfsmannanna. Þegar á reynir reynist það mörgum erfiðara í framkvæmd en á pappír,“ segir hann.

„Það eru fjölmargir sem ekki er fjallað um sem gegna gríðarlega mikilvægum hlutverkum nú og hafa þurft að breyta lífi sínu mjög mikið á meðan þetta stendur yfir. Það fer ekki mikið fyrir þessu fólki; alls konar venjulegt fólk í venjulegum störfum. Leikskólakennarar og grunnskólakennarar eru til að mynda allt í einu orðnir framlínustarfsfólk.“

Víðir segir að við slíkan undirbúning sé ávallt óvissa um marga þætti, svo sem viðbrögð einstaklinga.

„Fólk er eðlilega óttaslegið. Við heyrum sögur og sjáum hryllingsmyndir af þessum faraldri víða um heim. Enn erum við ekki komin á versta stað sem við höfum séð aðra lenda á og vonandi tekst okkur að sleppa við það. En það er meðal annars vegna þess að við höfum fengið svona fólk sem hefur staðið upp og verið tilbúið til að leggja sitt af mörkum. Það eru ótrúlega margir sem fá ekki það hrós sem þeir eiga skilið.“

Sóttvarnamálin fyrst

Víðir hætti hjá Ríkislögreglustjóra árið 2015 og gerðist lögreglufulltrúi á Suðurlandi og síðar öryggisfulltrúi hjá KSÍ.

„Það var ekki fyrr en núna um áramótin að dómsmálaráðherra bað mig að koma að því verkefni að greina starfsemi ríkislögreglustjóra. Það verkefni átti bara að taka tvo mánuði og ég átti að skila því fimmtánda mars. Ég ætlaði aftur til KSÍ fyrsta mars en í lok febrúar var ég beðinn að taka að mér nýtt verkefni; það þurfti yfirlögregluþjón til að halda utan um málefni Covid-19. Ég fékk leyfi hjá KSÍ og talaði fyrst um nokkurra vikna frí en strax á öðrum degi áttuðum við okkur á því að þetta yrði risaverkefni sem svo stækkaði hratt. Dagarnir urðu langir og fljótlega myndaðist þetta teymi; ég, Þórólfur og Alma. Þetta teymi var ekki planað heldur einhvern veginn varð bara til. Við þrjú sáum að ef öll samhæfing ætti að ganga yrðum við að standa þétt saman. Við hittumst oft á dag og þegar við vorum komin á neyðarstig fluttu allir sína starfsemi hingað í Skógarhlíð,“ segir Víðir.

„Þetta var leiðin til að keyra þetta verkefni. Við sáum hvað var að gerast í löndunum í kringum okkur þegar stjórnmálamenn stigu fram og kynntu stórar ákvarðanir. Við ræddum auðvitað við okkar ráðherra og fulltrúa ríkisstjórnarinnar en fengum strax þau svör frá þeim að Ísland vildi keyra þetta áfram byggt á vísindalegum ákvörðunum. Það voru skýr skilaboð. Sóttvarnamálin væru númer eitt og efnahagsmálin númer tvö. Það er engin pólitík í þessu. Við höfum aldrei upplifað neina pressu til þess að mæta einhverjum öðrum kröfum en að láta baráttuna við veiruna ganga fyrir. Það bakka okkur allir upp,“ segir Víðir og segir þau þrjú eiga vel saman.

„Ég þekkti Þórólf áður, en við byrjuðum að vinna saman í þessum málum árið 2005. Ég kannaðist við Ölmu en við unnum saman í janúar 2005 að mjög erfiðu verkefni. Þá var farið í sjúkraflug til Taílands eftir jarðskjálftana í Suðaustur-Asíu. Þá flaug héðan vél og sótti slasaða Svía og Dani og flogið var með þá til Svíþjóðar. Það var ótrúlega snúið verkefni, lítill svefn og andlega mjög krefjandi. Það var 26 tíma ferðalag frá Taílandi til Svíþjóðar en þá var Alma að vinna þar sem svæfingar- og gjörgæslulæknir,“ segir hann.

„Við erum samt mjög ólík og erum ekki alltaf sammála, en erum á uppbyggilegan hátt gagnrýnin hvert við annað. Okkur tekst alltaf að ræða okkur niður á niðurstöðuna, og ég held að fyrir vikið verði hún betri.“

Blaðamenn og ljósmyndarar bíða eftir fundi almannavarna.
Blaðamenn og ljósmyndarar bíða eftir fundi almannavarna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þjóðin hlýðir Víði

Það má segja að Víðir hafi fengið stærsta verkefni lífs síns um leið og hann tók við starfi yfirlögregluþjóns nú fyrir skömmu.

„Allt sem ég hef gert alla ævi, frá því ég var barn að horfa á eldgosið, mótar mann. Sumt er góð reynsla og gerir mann að því sem maður er í dag. En já, þetta er risaverkefni. Mér er treyst fyrir því en ég er með margt gott fólk í mínu teymi.“

Nú vissu fáir hver þú varst fyrir nokkrum vikum. Hvernig er að vera orðinn nokkurs konar þjóðareign?

„Ég hugsa oft að fólk hljóti að fara að verða leitt á mér. Það er ekki eins og ég sé skemmtilegasti maður á landinu! En þetta er verkefni og við ætlum að leysa það.“

Nú gengur um landið slagorðið: Ég hlýði Víði. Finnst þér þjóðin vera að hlýða?

„Já, já. Mér finnst þetta fyrst og fremst fyndið orðatiltæki en ég og Birgir Ómarsson sem samdi þetta höfum þekkst lengi og ég held að þetta hafi í upphafi átt að vera smá stríðni. En þetta er orðið slagorð verkefnisins, sem er bara fínt,“ segir Víðir og segir auðvelt fyrir fólk „að hlýða“ þar sem hann sé með trúverðugan málstað, sé heiðarlegur og sannur og með góð rök.

„Nú þegar þetta er komið svona nálægt okkur tekur fólk þetta alvarlega. Þetta er ekki venjuleg flensa; þetta er miklu meira smitandi og miklu meira ólíkindatól en venjuleg flensa. Sumir veikjast ekki neitt og aðrir verða fárveikir og erfitt er að sjá reglu í þessu. Hér eru fjórir látnir og ólíklegt að þeir verði ekki fleiri,“ segir hann.

Nokkrar gagnrýnisraddir hafa verið uppi vegna þess að grunnskólar starfa enn, þó með breyttu sniði. Víðir segir að ef þetta hefði verið skæð inflúensa hefði skólum verið lokað en þessi veira hegðar sér öðruvísi. „Börn veikjast síður, fá síður einkenni og smita ekki eins mikið. Þetta er kenningin sem við vinnum eftir. Við hefðum aldrei tekið ákvörðun um að halda skólum opnum ef við hefðum litið á það sem einhverja tilraun.“

Eins og epli og appelsínur

Í vikunni var tilkynnt að samkomubann yrði framlengt fram til 4. maí. Víðir telur ekki þörf á útgöngubanni því núverandi aðgerðir hafi virkað nógu vel.

„Ef upp koma hópsýkingar á einstökum svæðum verður mögulega gripið til harðari aðgerða á þeim svæðum; það er alveg viðbúið,“ segir hann og brýnir fyrir fólki að halda sig heima um páskana.

„Hér á landi er auðvelt fyrir okkur að ná til samfélagsins og það er ekki hægt að bera okkur saman við önnur lönd, þetta er eins og epli og appelsínur. Við tökum hlutfallslega miklu fleiri sýni því við beitum þeirri aðferðafræði að finna hina sýktu eins fljótt og hægt er og koma þeim í einangrun og öðrum í kringum þá í sóttkví,“ segir hann.

„Þetta hefur virkað því það er auðvelt fyrir okkur að finna fólk og hafa samband og 99% af fólki hlýða því ef við biðjum það að fara í sóttkví.“

Fáið þið margar tilkynningar um brot á reglum?

„Við fengum átta hundruð tilkynningar nú á sjö dögum, bara á Facebook. Í síðustu viku fengum við 1.200 tilkynningar. Þetta er allt frá því að einstaklingur sem talið er að eigi að vera í sóttkví sé úti í búð og í það að það sé of mikill troðningur í Bónus. Alls konar. Við fylgjum þessu eftir og höfum samband en í fæstum tilvikum er stoð fyrir brotunum. Til dæmis eru margir búnir í sóttkví eða einangrun og mega þá vera úti í þjóðfélaginu. Ég hljóp á mig á sunnudag varðandi skipulagðar æfingar íþróttafélaganna, sem var auðvitað bara rangt. Ég hafði fengið rangar upplýsingar og tók þær hráar og kannaði ekki málið. Í öllum málunum voru þetta krakkar að æfa sjálf,“ segir hann og nefnir að komnar séu sektarheimildir.

„Það er hægt að beita allt að fimm hundruð þúsund króna sekt fyrir brot, en vonandi þurfum við ekki að nota það. Við verðum að standa saman núna, öll þjóðin. Þetta misheppnast ef við förum hvert í sína áttina. Nú þarf að kalla á þrautseigjuna í okkur.“

Þannig að þetta snýst frekar um að standa saman en að hlýða Víði?

„Miklu frekar. Ef við stöndum saman getum við allt. Það eru tveir óvinir í þessu verkefni; veiran sjálf og óttinn. Við látum ekki veiruna stjórna heldur stýrum henni og slökum aldrei á. Við tökumst á við óttann með því að segja öllum allt. Það verður að vera þannig.“

Yfirlögregluþjónninn ásamt sóttvarnalækni og landlækni á fundi með blaðamönnum.
Yfirlögregluþjónninn ásamt sóttvarnalækni og landlækni á fundi með blaðamönnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Æskuástin varð eiginkonan

Nú hefur fólk verið að reyna að halda í húmorinn og meðal annars grínast með að það verði komið með ansi ljóta hárgreiðslu á næstunni. Þú ert eins og nýklipptur. Hvernig geturðu útskýrt það?

„Það vex svo hægt á mér hárið,“ segir hann og hlær.

„Ég fór í klippingu rétt áður en fyrra samkomubannið var sett á. Það var klippt alveg extra stutt.“

Víðir segir mikilvægt á þessum tímum að hlæja og reyna að hafa gaman. Það þurfi þá kannski að hagræða hlutum og jafnvel halda matarboð eða spilakvöld á Skype.

Þau fjölskyldan eru þrjú í heimili. Sonur hans, Kristján Orri, er fluttur að heiman en hann leggur stund á læknisfræði. „Hann er að klára kandídatsárið sitt og er með fyrirmæli frá Páli um að halda sig frá fólki þannig að við sjáumst ekkert þessa dagana,“ segir hann.

„Sara Kristín dóttir mín er tvítug og býr heima. Hún fór í hjúkrunarfræði í vetur en undirbýr sig fyrir inntökupróf í sjúkraþjálfun,“ segir hann.

Víðir og kona hans, Sigrún María, bókari hjá NTC, hafa verið gift í áratugi en þau kynntust fyrst tíu ára gömul.

„Við vorum í sama vinahópi frá tíu ára aldri og urðum kærustupar nítján ára. Ég var voða skotinn í henni þegar ég var tíu ára,“ segir hann og brosir.

„Við erum mjög hamingjusöm og deilum sömu sýn á lífið. Lífið á fyrst og fremst að vera skemmtilegt og ef þú getur gert það betra fyrir aðra er það mikill kostur. Ég vil bara vera almennileg manneskja og við höfum innprentað börnunum okkar það. Þau eru gott fólk. Maður getur ekki beðið um meira. Svo verð ég afi núna í maí,“ segir Víðir og er að vonum spenntur.

„Ég ætlaði í golf til Portúgals á afmælinu mínu núna 22. apríl, en það bíður betri tíma. Þegar þetta er allt gengið yfir ætla ég í golf með konunni og börnunum, á Íslandi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: