Fjögur leikskólabörn og 33 grunnskólanemendur hafa greinst með kórónuveiru í Reykjavík. Þá hafa einnig 28 starfsmenn leikskóla og 18 starfsmenn grunnskóla smitast af veirunni, en smit hafa nú komið upp í 11 leikskólum og 20 grunnskólum Reykjavíkurborgar. Kemur þetta fram í svari skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn Morgunblaðsins, en tölurnar miðast við 2. apríl.
Í Reykjavík eru nú 355 grunnskólanemendur í sóttkví og 3.351 í leyfi frá skóla að ósk foreldra. Fjöldi barna á leikskólaaldri í sóttkví er 166 og eru 1.448 leikskólabörn í leyfi að ósk foreldra. Alls er því 5.320 leik- og grunnskólabörnum í Reykjavík haldið heima þessa dagana.
Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingar og formaður skóla- og frístundaráðs, segir ljóst að ákveðinn hópur foreldra vilji hafa vaðið fyrir neðan sig og vísar hann þar til mikils fjölda barna í leyfi frá skóla.
„Ástæðurnar geta verið mýmargar; persónulegar eða tengdar heilsufari barnanna eða einhverra á heimilinu. Við höfum fullan skilning á því,“ segir hann og bætir við að Reykjavíkurborg hafi lagt mikið kapp á að koma í veg fyrir smit inni í skólum. Segir Skúli það hafa heppnast vel til þessa og bendir í því samhengi á að leikskólabörn séu 6.237 talsins og grunnskólabörn 15.322. „Hlutfallslega eru þetta því mjög lágar tölur,“ segir hann.
Aðspurður segir Skúli mikinn baráttuhug vera í starfsfólki skólanna. „Ég er mjög stoltur af þessu fólki. Hópurinn er afar lausnamiðaður í þessum sérstöku aðstæðum sem nú eru uppi. Það er gríðarlega mikilvægt að við stöndum öll saman.“
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segist vilja koma á framfæri þökkum til starfsfólks sviðsins í leik- og grunnskólum og frístundastarfi. Hefur það á liðnum vikum stuðlað að áframhaldandi námsframvindu og góðri líðan barnanna við afar óvenjulegar aðstæður.
„Við viljum einnig þakka foreldrum kærlega fyrir skilninginn á þessum fordæmalausu aðstæðum sem við störfum við. Eftir páska kemur vonandi betri tíð sem allra fyrst, en viðbúið er að einhver skerðing verði á skóla- og frístundastarfi fram eftir maímánuði,“ segir Helgi.
Hafi þor til að endurmeta stöðuna
Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir fjarvistartölur mun hærri en hún átti von á og að mikilvægt sé að fylgjast áfram grannt með þróun mála og fjölda smita í skólum borgarinnar.
„Ef þróunin fer til hins verra er mikilvægt að hafa þor til að endurmeta stöðuna og þá hvort þörf sé á að framlengja páskafrí nemenda eða grípa til lokana. Allar ákvarðanir hafa til þessa verið teknar í samráði við sóttvarnalækni og þannig viljum við halda því áfram,“ segir hún.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.