Vísindamenn og læknar reyna nú hvað þeir geta til að skilja betur afleiðingar kórónuveirusýkingar á fólk. Þótt margt sé enn á huldu er ýmislegt vitað um sjúkdóminn sem kórónuveiran veldur, Covid-19. Þannig er t.a.m. vitað að líkur á alvarlegum sjúkdómi aukast með aldri, sérstaklega eftir 60 ára aldur. Þá eru einstaklingar með ákveðin undirliggjandi vandamál einnig í aukinni hættu á alvarlegri sýkingu ef þeir smitast af veirunni. Eru þetta vandamál á borð við hjarta- og lungnasjúkdóma, sykursýki, langvinna nýrnabilun og krabbamein. Reykingamenn virðast einnig vera í aukinni hættu á alvarlegum sjúkdómi og spilar þar eflaust inn í langvinn lungnateppa sem eykur alvarleika sjúkdómsins.
Upplýsingar um sjúkdómsgang hjá börnum eru takmarkaðar enn sem komið er. Þó er vitað að börn á öllum aldri geta smitast af kórónuveiru og hefur veiran greinst á öllum skólastigum hér á landi, allt frá leikskólabörnum til háskólanema. Lítið virðist þó vera um alvarlegar sýkingar meðal barna, samkvæmt upplýsingum frá Embætti landlæknis.
Nýlegt yfirlit yfir kórónuveirusmit hjá 2.143 börnum í Kína sýndi að börn á öllum aldri geta smitast en einkenni voru yfirleitt vægari hjá börnum en fullorðnum. Hugsanlegt er þó að börn yngri en sex ára fái alvarlegri sýkingar. Þó þarf að hafa í huga að hjá þeim börnum sem gögnin frá Kína tóku til var einungis minnihluti tilfella með staðfest kórónuveirusmit, eða um þriðjungur þeirra. Gætu börnin því allt eins hafa verið með RS-vírus eða inflúensusýkingu í stað Covid-19.
Læknar sjást hér veita alvarlega veikum manni læknisaðstoð. Myndin er tekin í Wuhan í febrúar sl.
AFP
Ungbörn líklegri til að sýna alvarleg einkenni
Barnaspítalinn í Boston í Bandaríkjunum greinir á heimasíðu sinni nánar frá þessari umfangsmestu rannsókn vísindamanna í Kína á áhrifum kórónuveiru á börn. Rannsóknin var birt í Pediatrics og náði sem fyrr segir til 2.143 kínverskra barna tímabilið 16. janúar til 8. febrúar síðastliðinn. Niðurstöður benda til að börn og ungmenni fái vægari einkenni en þeir sem eldri eru. Þannig sýndu 4,4% barna og ungmenna engin einkenni, 50,9% sýndu væg einkenni og 38,8% voru með miðlungsalvarleg einkenni.
Af þeim börnum sem sýndu einkenni sjúkdómsins fengu einungis 0,6% alvarlega öndunarfærasýkingu. Mjög ung börn, einkum undir eins árs aldri, voru þó líklegri til að hafa alvarleg einkenni. Voru 10% ungbarna undir eins árs aldri með alvarleg einkenni samanborið við 3% ungmenna eldri en 15 ára.
Niðurstöður annarrar rannsóknar sem birtar voru 18. mars síðastliðinn í New England Journal of Medicine bentu til að um 16% barna sýndu engin einkenni. Tók rannsóknin til alls 171 barns og ungmennis í Wuhan í Kína sem smitast höfðu af kórónuveiru. Algengustu einkenni voru hósti, eymsli í hálsi og hiti.
Smitast ekki í móðurkviði
Til þessa hafa engar upplýsingar komið fram um sérstaka hættu fyrir barnshafandi konur eða hættu á fylgikvillum á meðgöngu vegna sýkingar af völdum kórónuveiru. Engar sérstakar ráðleggingar eru því í gildi fyrir barnshafandi konur sem almennt teljast hraustar, aðeins almenn smitgát og hreinlæti.
Tvær rannsóknir benda til að kórónuveirusmit berist ekki á milli móður og barns á meðgöngu. Í lítilli rannsókn sem náði til einungis níu barnshafandi kvenna og birt var í The Lancet kemur fram að ekkert barnanna hafi smitast á meðgöngu af kórónuveiru. Mæðurnar voru þó allar með einkenni lungnabólgu vegna veirunnar. Þá var hvorki hægt að greina veiruna í brjóstamjólk né í legvatni. Önnur rannsókn, sem birt var í Frontiers in Pediatrics, fylgdi eftir fjórum barnshafandi konum í Wuhan í Kína sem allar voru sýktar af kórónuveiru. Var það niðurstaða rannsóknarinnar að ekki væri unnt að sýna fram á smit á milli móður og barns á meðgöngu.
Heilbrigðisstarfsmaður í Kína tekur sýni úr konu í lok síðasta mánaðar.
AFP
Óþroskað ónæmiskerfi hjá ungbörnum
Kristin Moffitt, læknir á Barnaspítalanum í Boston, segir meirihluta einstaklinga undir 19 ára aldri sýna væg einkenni kórónuveirusýkingar. Börn séu ólíklegri en aðrir aldurshópar til að sýna alvarleg einkenni sjúkdómsins og er síður þörf á sjúkrahúsinnlögn hjá þeim. Þá telur hún líklegt að lítill hluti barna með kórónuveiru fái greiningu.
„Eins og staðan er nú þá er verið að forgangsraða prófum til þeirra sjúklinga sem líklegir eru til að sýna mikil einkenni,“ segir hún. „Sökum þess hve stór hluti sjúklinga á barnsaldri hefur væg einkenni munu fæstir þeirra uppfylla kröfur fyrir prófun.“
Í kínversku rannsókninni sem náði til yfir 2.000 barna kom fram að börn undir eins árs aldri sýndu oftast mikil eða alvarleg einkenni. Moffitt telur þetta vera vegna þess hve ófullkomið ónæmiskerfið sé í ungum börnum. „Þetta tengist að líkindum breytingum í ónæmiskerfinu. Það er ekki óalgengt að börn undir eins árs aldri þurfi á einhvers konar sjúkrahúsaðstoð að halda vegna vírussýkingar í öndunarfærum. Tengist þetta því hversu óþroskað ónæmiskerfið er hjá þessum hópi.“
Læknar og heilbrigðisstarfsfólk sinnir alvarlega veikum manni í Wuhan í mars sl.
AFP