Kórónuveiran og aðgerðir stjórnvalda til að hefta útbreiðslu hennar hafa gjörbreytt ásýnd og verslun við Laugaveg í Reykjavík. Þar sem eitt sinn var fjölbreytt mannlíf og ferðamenn í hópum eru nú fáir á ferli og auð bílastæði.
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, undrast að Reykjavíkurborg leggi sig ekki meira fram við að bæta aðgengi að verslunargötunni og auðvelda þannig kaupmönnum að ná til viðskiptavina. Nefnir hún í því samhengi m.a. breytta akstursstefnu á hluta Laugavegar sem tók gildi í maí 2019. Segir hún borgina eiga að gera Laugaveg að einstefnu á ný enda hafi einkabíllinn styrkt stöðu sína mjög nú þegar fólk forðast almenningssamgöngur og fjölmenni.
„Þegar borgin sneri einstefnunni á sínum tíma var það hrein og klár ögrun við kaupmenn. Og það sér ekki nokkur maður tilganginn með þessari aðgerð. Það eina sem hún gerir er að rugla fólk og búa til stjórnleysi að ástæðulausu,“ segir Vigdís og bætir við að hún hafi lagt til fulla opnun og einstefnu á Laugavegi á fundi borgarráðs í mars sl. Þeirri tillögu var hins vegar hafnað.
Fyrst meirihlutinn, nú veiran
Aðspurð segir Vigdís marga kaupmenn hafa sett sig í samband við sig undanfarið og lýst erfiðri stöðu.
„Staðan er orðin algjörlega óbærileg hjá þessu fólki sem er að reyna að halda þarna úti rekstri. Fyrst þurfti þetta fólk að glíma við þráhyggju meirihlutans fyrir lokunum og svo skellur veiran á,“ segir hún og heldur áfram: „Þetta svæði verður dauðs manns gröf. Það sést þarna varla maður á ferli.“
Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi.
mbl.is/Styrmir Kári
Morgunblaðið setti sig í samband við nokkra kaupmenn. Sögðu þeir allir þörf á því að gera götuna að einstefnugötu á ný. Slíkt myndi auka líkurnar á komum fólks þangað.
„Það er fáránlegt að snúa götunni svona við nú þegar ástandið er eins og það er í þjóðfélaginu. Auðvitað á að taka af þessa hringavitleysu sem enginn botnar neitt í,“ segir Brynjólfur Björnsson, eigandi Brynju.
Þrátt fyrir erfitt aðgengi og útbreiðslu kórónuveiru segir Brynjólfur verslun ágæta um þessar mundir. Þakkar hann það framkvæmdagleði landans, sem nú heldur sig mikið heima við. „Við erum með svolítið sérstaka búð. Fólk er greinilega að finna sér gömul verkefni, farið að taka til og gera við. Það er því ágætlega líflegt hjá mér þótt gatan sé dauð.“
Áður en kórónuveiran skall á var búið að koma upp vefverslun í Brynju. Segir Brynjólfur að hún hafa tekið mikinn kipp síðustu vikurnar. „Við finnum fyrir mikilli aukningu þar. Ég held að marsmánuður hafi rokið upp um 30 prósent og ég á von á enn meira í þessum mánuði.“
Brynjólfur Björnsson, eigandi Brynju.
mbl.is/Kristinn Magnússon
Tækifæri fyrir Íslendinga
Jón Sigurjónsson gullsmíðameistari segir ruglinginn með akstursstefnuna vera algjört hneyksli.
„Það er ekki hægt að bjóða okkur upp á svona bull og að ekki sé búið að taka þetta af núna er ótrúlegt,“ segir hann og bætir við að Laugavegur muni að líkindum breytast mjög vegna ástandsins í þjóðfélaginu. „Túrismanum, veitingastöðum og hótelum var óhindrað hleypt af stað hérna. Núna er þetta allt að hrynja og eftir munu standa tóm pláss,“ segir Jón.
Spurður hvort Laugavegur sé nú orðinn að eins konar draugagötu kveður Jón nei við. „Ég myndi nú ekki alveg segja það. En hann hefur auðvitað gjörbreyst eftir að ferðamenn hættu að koma hingað. Það sést ekki einn ferðamaður hérna núna og búið er að fæla Íslendinga í burtu með götulokunum, þrengingum og bílastæðaleysi. Allt var það náttúrulega gert til að dekra við ferðamenn, sem eru horfnir. Hvort Íslendingar komi aftur - það er að minnsta kosti tækifæri fyrir þá til að koma aftur niður í bæ.“
Jón Sigurjónsson gullsmíðameistari.
Jón segir viðskipti nú svo gott sem engin. „Þetta hefur dottið algerlega niður, alls staðar. Við erum á þremur stöðum og það er ekkert skárra í verslunarmiðstöðvunum. Þetta ástand er alveg svakalegt.“
Að sögn Jóns er nú reynt að leggja áherslu á netverslun. Hún geti þó aldrei orðið eins og venjuleg verslun með tilheyrandi þjónustu og nánd við viðskiptavini. „Ég hef verið í þessum bransa í 50 ár og aldrei upplifað neitt þessu líkt áður. Þó að netverslun geti verið ágæt er hún aldrei eins, það er miklu skemmtilegra fyrir fólk að snerta vöruna og skoða. Við erum líka í svo mikilli þjónustu við fólk og til þess þarf fólk að komast til okkar.“
Einkabíllinn hefur styrkt sig aftur
Sigurður Gilbertsson úrsmiður segir „allt hafa hrunið“ síðustu vikur. „Við seljum mikið af framleiðslu okkar til ferðamanna og finnum auðvitað fyrir minni sölu. Það sem við hins vegar bjóðum einnig upp á og sérhæfum okkur í er alhliða viðgerðir á úrum og klukkum. Það heldur sem betur fer áfram, fólk er að mæta með þetta í viðgerð til okkar,“ segir hann.
Aðspurður segir hann verslun sína einnig bjóða upp á netverslun. Það sé þó aldrei eins, og gangi erfiðar fyrir sig. „Það er allt öðruvísi en að koma í eigin persónu og versla.“
Sigurður segir mjög litla bílaumferð vera um Laugaveg núna og að nóg sé af bílastæðum. „Það er nokkuð sem við höfum ekki þekkt áður,“ segir hann. „Ég vona að fólk muni halda áfram að fara í bæinn og nýta sér þjónustuna. En það er margt breytt. Verslanir eru margar bara lokaðar, veitingastaðir og barir. Allt er þetta lokað meira og minna. Á þeim veitingastöðum sem eru opnir er oftast mjög lítið að gera.“
Þá tekur Sigurður undir skoðanir annarra kaupmanna við Laugaveg, opna ætti fyrir alla bílaumferð og gera götuna að einstefnugötu á ný. „Núna vilja eflaust margir keyra niður Laugaveginn í stað þess að mæta þarna einstefnu að hluta og einhverjum lokunum. Það er skrítið að þetta sé ekki lagað nú þegar einkabíllinn er aðalsamgöngumátinn. Fólk vill jú síður vera í strætó innan um ókunnuga. Það er því mikilvægt að greiða fyrir umferð aftur.“
Sérfræðingarnir Grímkell P. Sigurþórsson, Gilbert Guðjónsson og Sigurður Gilbertsson.
mbl.is/RAX