Þorsteinn Víglundsson hættir á þingi

Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, hefur sagt af sér þingmennsku.
Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, hefur sagt af sér þingmennsku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þor­steinn Víg­lunds­son, þingmaður Viðreisn­ar, hef­ur sagt af sér þing­mennsku og hyggst hann taka við „spenn­andi verk­efni á vett­vangi at­vinnu­lífs­ins“, að því er seg­ir í til­kynn­ingu frá frá­far­andi þing­mann­in­um. 

Af­sögn Þor­steins tek­ur gildi frá og með 14. apríl og síðar í mánuðinum tek­ur hann við nýja starf­inu. 

Þor­steinn hef­ur jafn­framt til­kynnt stjórn Viðreisn­ar af­sögn sína sem vara­formaður flokks­ins.

Þor­steinn hef­ur starfað í stjórn­mál­um í tæp fjög­ur ár og tók sæti á Alþingi eft­ir kosn­ing­arn­ar í októ­ber 2016. Þá gegndi hann embætti fé­lags- og jafn­rétt­is­málaráðherra árið 2017. Þor­steinn seg­ist vera þakk­lát­ur fyr­ir það traust sem hon­um hef­ur verið sýnt á vett­vangi stjórn­mál­anna. 

Til­kynn­ingu Þor­steins má lesa hér í heild sinni: 

Síðdeg­is í gær til­kynnti ég Stein­grími J. Sig­fús­syni, for­seta Alþing­is, að ég hefði tekið ákvörðun um að segja af mér þing­mennsku frá og með 14. apríl næst­kom­andi. Ég hef að vand­lega íhuguðu máli samþykkt að taka að mér spenn­andi verk­efni á vett­vangi at­vinnu­lífs­ins og mun hefja störf síðar í þess­um mánuði. Þá hef ég á sama tíma til­kynnt stjórn Viðreisn­ar um af­sögn mína sem vara­formaður flokks­ins.

Ég hef starfað í stjórn­mál­um und­an­far­in tæp fjög­ur ár og er þakk­lát­ur fyr­ir það traust sem mér hef­ur verið sýnt á þeim vett­vangi. Ég hef tví­veg­is verið kjör­inn þingmaður Reyk­vík­inga og það er mér mik­ill heiður að hafa fengið að sitja á Alþingi Íslend­inga þenn­an tíma.

Þótt átök ein­kenni gjarn­an störf þings­ins í op­in­berri um­fjöll­un er mér efst í huga á þess­um tíma­mót­um sú dýr­mæta reynsla sem ég hef öðlast og góð sam­skipti og vin­skap­ur við sam­herja jafnt sem póli­tíska and­stæðinga. Ég kveð með söknuði allt það góða fólk sem ég hef starfað með á Alþingi á und­an­förn­um árum, bæði þing­menn og ekki síður allt hið hæfi­leika­ríka starfs­fólk sem starfar fyr­ir Alþingi.  

Ég er stolt­ur af því að hafa tekið þátt í upp­bygg­ingu Viðreisn­ar. Flokk­ur­inn hef­ur á fáum árum fest sig í sessi sem öfl­ug­ur og skýr val­kost­ur fyr­ir frjáls­lynt fólk á miðju ís­lenskra stjórn­mála. Flokk­ur­inn hef­ur sterka innviði og mik­inn fjölda hæfi­leika­fólks. Viðreisn hef­ur þegar markað sér sess til framtíðar í ís­lensk­um stjórn­mál­um. Ég fer frá borði full­viss um að þetta fley mun áfram sigla segl­um þönd­um. Viðreisn mun áfram berj­ast fyr­ir betra mann­lífi og bætt­um kjör­um Íslend­inga og ég hlakka til að fylgj­ast með flokkn­um af hliðarlín­unni.

Virðing­ar­fyllst,

Þor­steinn Víg­lunds­son

mbl.is