„Alversti tíminn til að eiga leiðinlegan maka“

Viktoría Hermannsdóttir dagskrárgerðarmaður á RÚV er að vinna heima þessa …
Viktoría Hermannsdóttir dagskrárgerðarmaður á RÚV er að vinna heima þessa dagana. mbl.is/Árni Sæberg

Vikt­oría Her­manns­dótt­ir not­ar eld­hús­borðið sem vinnuaðstöðu þessa dag­ana. Hún og unnusti henn­ar, Sóli Hólm, eiga fjög­ur börn svo það er mikið líf á heim­il­inu. Hún þakk­ar fyr­ir það að eiga skemmti­leg­an maka í þessu ár­ferði og er þakk­lát fyr­ir Bose-heyrn­ar­tól­in þegar mikið ligg­ur við. 

Vikt­oría, dag­skrár­gerðar­kona á RÚV, hef­ur í mörgu að snú­ast þessa dag­ana. Hún er einn af um­sjón­ar­mönn­um Land­ans og seg­ir skemmti­legt að ljá krafta sína þess­um vin­sæl­asta þætti lands­ins, sem er orðinn fast­ur liður hjá mörg­um lands­mönn­um á sunnu­dags­kvöld­um.

„Svo erum við líka að byrja að vinna að ann­arri þáttaröð af Fyr­ir alla muni sem ég er al­veg ótrú­lega spennt fyr­ir.“

Vikt­oría er líkt og aðrir lands­menn kom­in með skrif­stofuaðstöðu heima.

„Ég er búin að vera að vinna heima núna í nokkr­ar vik­ur. Ég er búin að koma mér fyr­ir við eld­hús­borðið heima, sem er reynd­ar stór­hættu­legt af því að það er aðeins of stutt í mat­inn. Mér fannst það af­rek um dag­inn að vera ekki búin að fá mér súkkulaði fyr­ir klukk­an ell­efu, það sýn­ir kannski á hvaða stað við erum stödd.“

Vön að vinna í opnu rými

Hvernig nærðu að ein­beita þér heima?

„Það geng­ur mis­vel að ein­beita sér og fer líka eft­ir því hversu marg­ir heim­il­is­menn eru heima hverju sinni. En lík­lega býr maður ágæt­lega að því að vera van­ur að vinna í opnu vinnu­rými þar sem fólk er á þönum í kring­um mann all­an dag­inn og svo bjarga Bose „noise cancell­ing“-heyrn­ar­tól­in ansi miklu, ég skil­greini eig­in­lega líf mitt fyr­ir og eft­ir að ég eignaðist þau! Ann­ars geng­ur þetta bara nokkuð vel. Ef ég þarf að taka sím­töl fer ég bara í önn­ur rými eða út ef það eru mik­il læti.“

Eru börn­in einnig að vinna á heima­skrif­stof­unni? „Já. Við eig­um sam­tals fjög­ur börn og þrjú þeirra eru hér aðra hverja viku. Hins veg­ar eru þau lítið í skól­an­um þessa dag­ana og eru því mikið að koma hina vik­una líka sem er nú bara gam­an. Svo er yngsta barnið okk­ar, sem er eins árs, hjá dag­mömm­um en mikið hef­ur verið um veik­indi í vet­ur þannig að hún er búin að vera mikið heima líka.“

Vikt­oría seg­ir að sér líði bara vel þessa dag­ana.

„Vissu­lega eru þetta furðuleg­ar og kvíðvæn­leg­ar aðstæður en þær kenna manni að meta bet­ur hvað maður hef­ur það gott. Maður hlýðir bara Víði og held­ur sig heima enda treysti ég þessu þríeyki svo vel að ég væri til í að fá þau til að sjá bara um líf mitt al­mennt og taka erfiðar ákv­arðanir fyr­ir mig.“

Viss um að þol­in­mæði kem­ur manni langt

Ertu með gott ráð fyr­ir þá sem eru að vinna heima með fullt af börn­um?

„Ég er rosa lé­leg í upp­eld­is­ráðum en held að þol­in­mæði komi manni langt og að hafa ekki of mikl­ar vænt­ing­ar. Það þarf ekki allt að vera hreint og fínt og stund­um eru börn­in óþolandi og maður sjálf­ur líka en þannig er það bara í mik­illi sam­veru. Það er um að gera að reyna að vera slak­ur og njóta þess bara að vera sam­an. Við erum alltaf á þönum en núna hef­ur hægst um hjá mörg­um og það er gott að reyna sjá það góða í því og muna að þetta er tíma­bundið ástand.“

Hvernig ger­ir þú hlut­ina? „Ég vakna snemma alla morgna við mann­legu vekj­ara­klukk­una á heim­il­inu, helli upp á kaffi, fer í sturtu og byrja dag­inn við skrif­borðið heima. Stund­um fer ég í tök­ur, ann­ars held­ur maður sig heima bara mest­all­an dag­inn. Við reyn­um að passa að all­ir hreyfi sig eitt­hvað, fari aðeins út og þess á milli vinni þau verk­efni sem þarf að vinna. Síðan er líka mik­il­vægt að reyna að hætta í vinn­unni þegar vinnu­degi lýk­ur en ef ég kem litlu í verk yfir dag­inn er samt líka gott að hafa kost á því að geta notað kvöld­in til að vinna.“

Er eitt­hvað sem þú ger­ir bara fyr­ir þig yfir dag­inn? „Ég reyni að passa mig að fara í göngu­túr ein­hvern tím­ann yfir dag­inn til að fá smá súr­efni.“

Bose heyrnartólin koma henni langt.
Bose heyrn­ar­tól­in koma henni langt. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Reyna að halda sig sem mest heima

Er eitt­hvað sem þú forðast að gera í dag?

„Já, eig­in­lega flestallt. Við hitt­um enga nema bara okk­ur fjöl­skyld­una og för­um ekk­ert í heim­sókn­ir. Við reyn­um bara að halda okk­ur sem mest heima enda held ég að það sé mjög mik­il­vægt. Ég þarf eðli máls­ins vegna stund­um að fara út í tök­ur að taka viðtöl en þá fylgj­um við ýtr­ustu ör­ygg­is­regl­um og pöss­um að halda tveggja metra fjar­lægð við viðmæl­end­ur. Ástandið set­ur okk­ur vissu­lega skorður við efnisöfl­un þegar maður er að vinna efni fyr­ir sjón­varp en þá er um að gera að reyna að hugsa út fyr­ir boxið og finna nýj­ar lausn­ir. Þannig spratt ein­mitt upp hug­mynd­in að Heimaland­an­um, sem er nýr dag­skrárliður í Land­an­um þar sem við ósk­um eft­ir að fólk sendi okk­ur mynd­bönd af því sem það er að gera til að stytta sér stund­ir í sam­komu­bann­inu og bestu mynd­bönd­in enda svo í Land­an­um. Þannig náum við að „hitta“ fleira fólk án þess að hitta það og fáum að sjá hvað fólk er að gera á þess­um skrýtnu tím­um.“

Nærðu að halda þér sæmi­lega til eða ertu á nátt­föt­un­um eins og svo marg­ir aðrir?

„Ég passa mig nú að klæða mig á hverj­um morgni en er mikið að vinna með þægi­leg­an fatnað. Jogg­inggalli og ull­ar­sokk­ar eru mikið notaðir þessa dag­ana.“

Get­urðu fundið eitt­hvað fal­legt sem hef­ur komið út úr öllu því sem er að ger­ast þessa dag­ana?

„Mér finnst meiri sam­kennd í sam­fé­lag­inu. Fólk er meðvitaðra um ná­ung­ann og að það séu marg­ir sem eiga um sárt að binda á þess­um erfiðu tím­um. Ég held að þetta eigi líka eft­ir að hægja aðeins á hraðanum í sam­fé­lag­inu. Takt­ur­inn var orðinn dá­lítið hraður hjá mörg­um og kannski fær­ir þetta okk­ur nær því að sjá hvað það er sem skipt­ir máli.“

Er nauðsyn­legt að eiga skemmti­leg­an maka á tím­um sem þess­um?

„Ég myndi segja að það væri mjög mik­il­vægt. Ég hugsa að þetta sé al­veg al­versti tím­inn til að eiga leiðin­leg­an maka. Ég slepp sem bet­ur fer við það enda hepp­in að eiga mjög skemmti­leg­an maka sem er aldrei leiðin­legt að vera með.“

Viktoría og Sóli eiga samtals fjörgur börn.
Vikt­oría og Sóli eiga sam­tals fjörg­ur börn. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Stór­kost­leg til­finn­ing að leiðast um stund

Hvernig hafið þið gam­an sam­an?

„Við fáum okk­ur góðan mat og horf­um á eitt­hvað skemmti­legt, eins og til dæm­is tón­leik­ana hjá Helga okk­ar Björns. Síðustu helgi feng­um við okk­ur góðan mat og hl­ustuðum á tón­leik­ana með nokkr­um vin­um okk­ar á Facetime. Þetta endaði svo í #heimameðHólm þar sem Sóli tók nokk­ur lög á pí­anóið og við sung­um öll með.“

Hvað viltu segja við lands­menn sem eru marg­ir hverj­ir að reyna að ná utan um hlut­ina á skrif­stof­unni með ys og þys í kring­um sig?

„Bara slaka aðeins á. Mér finnst eins og sum­um finn­ist þeir þurfa vera að af­reka svo mikið í þessu sam­komu­banni að það verður yfirþyrm­andi. Við erum svo ýkt að all­ir ætla hreyfa sig rosa mikið, gera jóga í stof­unni, mála eld­húsið, baka og elda allt sem þeir geta, kenna börn­un­um og klippa sig sjálf. Eig­um við ekki bara aðeins að slaka og reyna að muna hvernig það er að leiðast í smá­stund. Það er al­veg stór­kost­leg til­finn­ing sem ör­ugg­lega flest­ir eru bún­ir að gleyma.“

Hvaða mann­eskju lang­ar þig að skoða heima­skrif­stof­una hjá næst?

„Ég myndi vilja skora á vin­konu mína Þór­hildi Ólafs­dótt­ur að sýna sína heima­skrif­stofu.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Stönd­um sam­an

Við hjá Árvakri vilj­um vekja at­hygli á því sem vel er gert á þess­um erfiðu tím­um. Ef þú ert með góða sögu af fyr­ir­tækj­um og ein­stak­ling­um sem eru að gera gott, sendu okk­ur ábend­ingu á net­fangið stond­um­sam­an@mbl.is.

Stöndum saman