Þríeykið og síðan Helgi Björns, Vilborg Halldórsdóttir, eiginkona hans, og Reiðmenn vindanna ásamt gestum hafa komið landsmönnum í gegnum kórónuveiruna undanfarnar vikur. Í síðarnefnda hópnum er trommarinn Ingólfur Sigurðsson og segja má að hann hafi slegið taktinn fyrir þjóðina með innlifun sinni og útgeislun á tónleikunum Heima með Helga Björns, sem hafa verið í beinni útsendingu Sjónvarps Símans þrjú laugardagskvöld í röð og verða í fjórða sinn í kvöld: Heima með Helga um páskana.
„Hugmynd Helga hefur alfarið gengið upp, tónleikarnir hafa tekist ótrúlega vel og viðbrögðin hafa verið eftir því,“ segir Ingólfur. Hann hefur verið mjög „lifandi“ í útsendingunum og segir tjáninguna fylgja hljómfallinu. „Ég er stöðugt að radda og það tekur í að syngja út í eitt án þess að hreyfingarnar fylgi með.“
Þegar Ingólfur var 13 ára var hann búinn að safna fyrir trommusetti með því að bera út dagblöð og hann byrjaði að æfa sig úti í bílskúr vorið 1983. „Fyrsta „alvöru“ hljómsveit mín var Rauðir fletir og við gáfum út tvær plötur 1986 og 1987,“ rifjar hann upp. Bætir við að þá hafi Helgi Björns heyrt sig spila og boðið sér á æfingu með Síðan skein sól. „Allir voru búnir að stilla sér upp og það var hræðilegt fyrir mig, 17 ára strák blautan á bak við eyrun, að koma og setjast við trommurnar, en við smullum strax saman og þarna varð til lagið „Einn plús“ sem kom út á fyrst plötu SSSól.“
Eftir um fjögur góð ár í bandinu gekk Ingólfur til liðs við æskufélaga í hljómsveitinni Orgil. Hann kom líka við í Pláhnetum, þar sem Stefán Hilmarsson var á meðal liðsmanna, og hefur verið í Greifunum frá 1997. 2017 voru haldnir vel heppnaðir tónleikar í tilefni þess að hljómsveitin SSSól hafði verið stofnuð 30 árum áður. „Gamla bandið var í forgrunninum, ég gekk aftur til liðs við Helga og hef spilað með honum undanfarin þrjú ár,“ segir Ingólfur og er greinilega ánægður með gang mála.
Tónlistarmenn þurfa að vera í góðu líkamlegu ástandi og Ingólfur hefur haldið sér við með því að hlaupa með hundana sína tvo. „Ég var líka daghlaupari hjá Fréttablaðinu í tólf ár, en hætti því 2018,“ segir hann.
Hlaupin skila sér heim í stofu og Ingólfur situr úti í horni og gefur tóninn á cajun-trommurnar. „Ég er eini trommarinn, sem hefur eitthvað að gera um þessar mundir,“ segir hann kankvís. Bætir við að ekkert annað sé reyndar á dagskrá hjá sér og því gefist góður tími til undirbúnings. „Við hittumst alltaf á föstudögum, því þá liggur fyrir hverjir verða sérstakir gestir, og förum yfir það sem við ætlum að gera. Svo tökum við gott rennsli eftir hádegi á laugardögum áður en tónleikarnir hefjast klukkan átta.“
Oft hefur verið sagt að trommarinn sé mikilvægasti hlekkur hverrar hljómsveitar, því hann slái taktinn og haldi mönnum í réttri tóntegund. Ingólfur segir að þetta sé gömul klisja. Engin keðja sé sterkari en veikasti hlekkurinn og því skipti allir máli. „Maður verður bara að passa að halda einbeitningunni og láta ekkert trufla sig.“
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.