Fyrir rétt rúmu ári lá Unnur Ósk Rúnarsdóttir á gjörgæsludeild Landspítalans með alvarlega blóðeitrun. Hún var þá 28 ára og nýbökuð tveggja barna móðir og lífið blasti við fjögurra manna fjölskyldunni. Í dag hugsar hún þakklát til baka, sérstaklega til heilbrigðisstarfsfólksins á gjörgæslunni sem stendur í ströngu þessa dagana.
„Þetta var eitt af þeim erfiðu verkefnum sem við höfum þurft að fara í gegnum. Þarna var Aníta Ósk aðeins tveggja vikna gömul og Rúrik Fannar stolti stóri bróðir nýbúinn að fá okkur heim af spítalanum. Allt var eins og það átti að vera þegar okkur var kippt svo hratt aftur niður á jörðina,“ lýsir Unnur í færslu á Facebook sem hún deildi nýlega.
Unnur lá inni í eina viku og um tíma var ástandið tvísýnt. „Eftir að ég var útskrifuð þurfti ég að játa mig sigraða, hætta að vera þrjósk og halda að ég gæti komist í gegnum þetta sjálf, fá eftirfylgni, fá hjálp, fá lyf og hvíla mig í marga mánuði,“ segir Unnur í færslunni.
Allt fór vel að lokum, Unni líður vel í dag en segir í samtali við mbl.is að það hafi tekið á að koma til baka. „Það voru margar brekkur sem mér fannst of brattar en með tímanum, þrjósku og hjálp frá mínu fólki hefur mér tekist að sigra þær,“ segir Unnur.
Hún ákvað að rifja þessa erfiðu reynslu upp nú þegar ár er liðið, ekki síst þar sem umræðan í samfélaginu snýst nær alfarið um áhrif kórónuveirunnar og leika heilbrigðisstarfsfólk og gjörgæsludeildir spítalanna þar stórt hlutverk. „Ég hef verið með tár í augunum ófáa daga undanfarið þar sem umræðan er mikil um gjörgæslu og mikið veikt fólk. Mér er hugsað til þeirra, þar sem ég þekki aðstæður og veit að þær eru erfiðar. Mér finnst í rauninni orðið gjörgæsla ennþá pínulítið erfitt orð,“ segir hún.
Unnur viðurkennir að það sé erfitt að líta til baka en á sama tíma gott, sérstaklega þar sem allt fór vel í hennar tilfelli. „Ég held að það sé mikilvægt að minna sjálfan sig reglulega á hvað maður getur verið þakklátur fyrir margt eins og heilsu, fjölskylduna, vinina og margt annað sem maður tekur sem sjálfsagðan hlut en er í raun alls ekki.“
Henni er þakklæti efst í huga og hugsar hún með hlýju til heilbrigðisstarfsfólks sem stendur í ströngu þessa daga í kórónuveirufaraldrinum. „Þetta er frábært og óeigingjarnt starf sem þau vinna. Hugrakkar hetjur sem standa vaktina dag eftir dag fyrir okkur í allri þessari óvissu,“ segir Unnur.
Á sama tíma verður Unni hugsað til verðandi mæðra þar sem nú er einmitt rétt um ár frá því að dóttir hennar fæddist. Miklar takmarkanir hafa verið settar á viðveru maka á sængurlegudeild vegna kórónuveirunnar. „Mér finnst erfitt að hugsa til þeirra, þetta eru erfiðir tímar og óvissan og hræðslan er næg fyrir á þessu tímabili. Að mínu mati er makinn svo ótrúlega stór partur af þessu ferli og að hann geti ekki verið með allan tímann hlýtur að vera erfitt. En auðvitað eru allir að gera sitt besta og ég var ótrúlega heppin með ljósmæður í báðum fæðingunum mínum og heimaþjónustu, þær hjálpuðu mér mjög mikið.“
Unnur á starfsfólki á vökudeild Landspítalans sömuleiðis margt að þakka þar sem sonur hennar kom í heiminn með bráðakeisara eftir 28 vikna meðgöngu og dvaldi á vökudeild í 50 daga. „Fólkið sem vinnur þar á líka mjög mikið hrós skilið þar sem þau tóku mjög vel á móti okkur og leiddu bæði hann og okkur í gegnum það ferli. Starfsfólkið þar vinnur kraftaverk á hverjum degi og þekkir það að vinna við mjög krefjandi og erfiðar aðstæður.“
Í dag er Unnur óendanlega þakklát fyrir heilsuna. Allir eru frískir á hennar heimili en Unnur segir að hún komist samt ekki hjá því að fá kórónuveiruna svolítið á heilann. „Það er mikið um breytingar og ný plön en við reynum bara að gera gott úr því, horfa á björtu hliðarnar og nýta tímann með fjölskyldunni. Annars verður mjög gott að komast aftur í heimsókn til ömmu og afa þegar þetta er yfirstaðið,“ segir Unnur, sem hvetur landsmenn til að fara áfram eftir fyrirmælum.
„Treystum á fólkið sem veit nákvæmlega hvað það er að gera og er búið að vinna dag og nótt fyrir okkur. Verum góð hvert við annað og hugsum um fólkið í kringum okkur.“
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.