„Gjörgæsla“ enn þá pínulítið erfitt orð

„Verum þakklát fyrir daginn í dag, jákvæðu orkuna þrátt fyrir …
„Verum þakklát fyrir daginn í dag, jákvæðu orkuna þrátt fyrir erfiða tíma og samstöðuna á litla landinu okkar,“ segir Unnur Ósk Rúnarsdóttir. Fyrir ári síðan lá hún á gjörgæsludeild Landspítalans með alvarlega blóðeitrun. Í dag hugsar hún þakklát til baka, sérstaklega til heilbrigðisstarfsfólksins á gjörgæslunni sem stendur í ströngu þessa dagana. Ljósmynd/Aðsend

Fyr­ir rétt rúmu ári lá Unn­ur Ósk Rún­ars­dótt­ir á gjör­gæslu­deild Land­spít­al­ans með al­var­lega blóðeitrun. Hún var þá 28 ára og ný­bökuð tveggja barna móðir og lífið blasti við fjög­urra manna fjöl­skyld­unni. Í dag hugs­ar hún þakk­lát til baka, sér­stak­lega til heil­brigðis­starfs­fólks­ins á gjör­gæsl­unni sem stend­ur í ströngu þessa dag­ana. 

Þetta var eitt af þeim erfiðu verk­efn­um sem við höf­um þurft að fara í gegn­um. Þarna var Aníta Ósk aðeins tveggja vikna göm­ul og Rúrik Fann­ar stolti stóri bróðir ný­bú­inn að fá okk­ur heim af spít­al­an­um. Allt var eins og það átti að vera þegar okk­ur var kippt svo hratt aft­ur niður á jörðina,“ lýs­ir Unn­ur í færslu á Face­book sem hún deildi ný­lega. 

Unn­ur lá inni í eina viku og um tíma var ástandið tví­sýnt. „Eft­ir að ég var út­skrifuð þurfti ég að játa mig sigraða, hætta að vera þrjósk og halda að ég gæti kom­ist í gegn­um þetta sjálf, fá eft­ir­fylgni, fá hjálp, fá lyf og hvíla mig í marga mánuði,“ seg­ir Unn­ur í færsl­unni. 

Með tár­in í aug­un­um vegna ástands­ins und­an­farið

Allt fór vel að lok­um, Unni líður vel í dag en seg­ir í sam­tali við mbl.is að það hafi tekið á að koma til baka. „Það voru marg­ar brekk­ur sem mér fannst of bratt­ar en með tím­an­um, þrjósku og hjálp frá mínu fólki hef­ur mér tek­ist að sigra þær,“ seg­ir Unn­ur. 

Hún ákvað að rifja þessa erfiðu reynslu upp nú þegar ár er liðið, ekki síst þar sem umræðan í sam­fé­lag­inu snýst nær al­farið um áhrif kór­ónu­veirunn­ar og leika heil­brigðis­starfs­fólk og gjör­gæslu­deild­ir spít­al­anna þar stórt hlut­verk. „Ég hef verið með tár í aug­un­um ófáa daga und­an­farið þar sem umræðan er mik­il um gjör­gæslu og mikið veikt fólk. Mér er hugsað til þeirra, þar sem ég þekki aðstæður og veit að þær eru erfiðar. Mér finnst í raun­inni orðið gjör­gæsla ennþá pínu­lítið erfitt orð,“ seg­ir hún. 

Ólafur Fannar Heimisson og Unnur Ósk Rúnarsdóttir ásamt Rúrik Fannar …
Ólaf­ur Fann­ar Heim­is­son og Unn­ur Ósk Rún­ars­dótt­ir ásamt Rúrik Fann­ar og Anítu Ósk á góðri stundu. Ljós­mynd/​Aðsend

Unn­ur viður­kenn­ir að það sé erfitt að líta til baka en á sama tíma gott, sér­stak­lega þar sem allt fór vel í henn­ar til­felli. „Ég held að það sé mik­il­vægt að minna sjálf­an sig reglu­lega á hvað maður get­ur verið þakk­lát­ur fyr­ir margt eins og heilsu, fjöl­skyld­una, vin­ina og margt annað sem maður tek­ur sem sjálf­sagðan hlut en er í raun alls ekki.“ 

Hug­rakk­ar hetj­ur sem standa vakt­ina

Henni er þakk­læti efst í huga og hugs­ar hún með hlýju til heil­brigðis­starfs­fólks sem stend­ur í ströngu þessa daga í kór­ónu­veirufar­aldr­in­um. „Þetta er frá­bært og óeig­ingjarnt starf sem þau vinna. Hug­rakk­ar hetj­ur sem standa vakt­ina dag eft­ir dag fyr­ir okk­ur í allri þess­ari óvissu,“ seg­ir Unn­ur. 

Á sama tíma verður Unni hugsað til verðandi mæðra þar sem nú er ein­mitt rétt um ár frá því að dótt­ir henn­ar fædd­ist. Mikl­ar tak­mark­an­ir hafa verið sett­ar á viðveru maka á sæng­ur­legu­deild vegna kór­ónu­veirunn­ar. „Mér finnst erfitt að hugsa til þeirra, þetta eru erfiðir tím­ar og óviss­an og hræðslan er næg fyr­ir á þessu tíma­bili. Að mínu mati er mak­inn svo ótrú­lega stór part­ur af þessu ferli og að hann geti ekki verið með all­an tím­ann hlýt­ur að vera erfitt. En auðvitað eru all­ir að gera sitt besta og ég var ótrú­lega hepp­in með ljós­mæður í báðum fæðing­un­um mín­um og heimaþjón­ustu, þær hjálpuðu mér mjög mikið.“ 

Unn­ur á starfs­fólki á vöku­deild Land­spít­al­ans sömu­leiðis margt að þakka þar sem son­ur henn­ar kom í heim­inn með bráðakeis­ara eft­ir 28 vikna meðgöngu og dvaldi á vöku­deild í 50 daga. „Fólkið sem vinn­ur þar á líka mjög mikið hrós skilið þar sem þau tóku mjög vel á móti okk­ur og leiddu bæði hann og okk­ur í gegn­um það ferli. Starfs­fólkið þar vinn­ur krafta­verk á hverj­um degi og þekk­ir það að vinna við mjög krefj­andi og erfiðar aðstæður.“

„Ver­um góð hvert við annað“

Í dag er Unn­ur óend­an­lega þakk­lát fyr­ir heils­una. All­ir eru frísk­ir á henn­ar heim­ili en Unn­ur seg­ir að hún kom­ist samt ekki hjá því að fá kór­ónu­veiruna svo­lítið á heil­ann. „Það er mikið um breyt­ing­ar og ný plön en við reyn­um bara að gera gott úr því, horfa á björtu hliðarn­ar og nýta tím­ann með fjöl­skyld­unni. Ann­ars verður mjög gott að kom­ast aft­ur í heim­sókn til ömmu og afa þegar þetta er yf­ir­staðið,“ seg­ir Unn­ur, sem hvet­ur lands­menn til að fara áfram eft­ir fyr­ir­mæl­um. 

„Treyst­um á fólkið sem veit ná­kvæm­lega hvað það er að gera og er búið að vinna dag og nótt fyr­ir okk­ur. Ver­um góð hvert við annað og hugs­um um fólkið í kring­um okk­ur.“

mbl.is

Stönd­um sam­an

Við hjá Árvakri vilj­um vekja at­hygli á því sem vel er gert á þess­um erfiðu tím­um. Ef þú ert með góða sögu af fyr­ir­tækj­um og ein­stak­ling­um sem eru að gera gott, sendu okk­ur ábend­ingu á net­fangið stond­um­sam­an@mbl.is.

Stöndum saman