Landsliðsmaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson, sem spilar með Darmstadt í þýsku B-deildinni, sýnir páskaæfingarnar í nýju myndskeiði sem knattspyrnusamband Íslands birti á samfélagsmiðlum í morgun.
Um er að ræða myndbönd þar sem sýndar eru æfingar sem iðkendur geta framkvæmt heima hjá sér sem og hvatningarmyndbönd frá landsliðsfólki á þessum erfiðu tímum. Verkefnið er kallað „Áfram Ísland“ og myndböndin munu birtast daglega á instagram- og facebooksíðum KSÍ en þau verður einnig að finna á youtubesíðu sambandsins.
„Fyrir mér er mjög mikilvægt að halda mér í góðri rútínu. Æfa vel, borða vel og sofa vel. Í þessari óvissu veit maður ekki hvenær kallið kemur. Eg vil vera 100% klár þegar við byrjum aftur með félagsliði og landsliði. Hér eru nokkrar æfingar sem ég vil deila með ykkur sem ég geri heima,“ er haft eftir Guðlaugi en æfingarnar má sjá í spilaranum hér að neðan.
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.