Þorgrímur Þráinsson rithöfundur var fenginn til að halda stutt erindi á upplýsingafundi almannavarna í dag, í tilefni þess að sögn Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns „að við séum að nálgast seinni hálfleik“ í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn.
Þorgrímur beindi orðum sínum til ungmenna „eins og hann gerir dagsdaglega.“ Þorgrímur vísaði í upphafi til orða fyrrverandi þjálfara íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, Lars Lagerback: „Litlir hlutir skapa stóra sigra.“
„Einhvern tímann þegar við vorum í verkefni í janúar með marga nýliða og einn gekk upp að Lars og spurði hann hvað hann meinti með þessum litlu hlutum. Þá sagði hann: ‚Klukkan hvað vaknarðu á morgnana? Bjóstu um rúmið þitt? Hvað fékkstu þér í morgunmat? Ertu búinn að hrósa einhverjum í dag? Ertu búinn að gera góðverk? Mætirðu á réttum tíma á æfingu? Tekurðu séræfingu? Hvernig kemurðu fram við konuna þína og börnin þín? Passarðu upp á svefninn þinn?‘ Lars sagði að ef þú passar upp á þessa hluti dagsdaglega, þá mun velgengnin elta þig,“ sagði Þorgrímur.
Þorgrímur taldi þetta vel heimfæranlegt á aðstæður í þjóðfélaginu í dag, þar sem tilefni væri að líta í eigin barm og þannig gæti maður jafnvel tekið eitthvað „jákvætt úr úr þessari skrítnu lífsreynslu. Ég held að þessi aukna samvera styrki hreinlega böndin og það sem skiptir máli á milli foreldra og barna. Kvíði og ótti eru eðlilegar tilfinningar, það þarf bara að takast á við þær.“
Síðan lagði Þorgrímur sérstaka áherslu á átakið „Tími til að lesa“. „Ég er þeirrar skoðunar að læsi sé eitt mikilvægasta lýðheilsumál þjóðarinnar, vegna þess að ef börnin okkar ná tökum á tungumálinu og orðaforða, þá ná þau tökum á náminu,“ sagði Þorgrímur.
Í lestrarátaki ætti ekki aðeins að taka niður þann fjölda af blaðsíðum sem manni tækist að lesa á einhverjum ákveðnum tíma, heldur mælti hann með því að hver og einn skrifaði niður þau orð sem hann skildi ekki við lesturinn, og byggði þannig smátt og smátt upp orðaforða sinn. Þá gætu foreldrar líka tekið upp á því að líma eitt orð upp á ísskápinn á hverjum degi.
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.