Krefst vitleysu, heimsku eða hvors tveggja

Hilmir ST-001 hefur verið þó nokkuð við bryggju í Hólmavík …
Hilmir ST-001 hefur verið þó nokkuð við bryggju í Hólmavík í vetur sökum veðurs. Ljósmynd/Sverrir Guðmundsson

Veðrið hefur valdið töluverðum truflunum fyrir útgerðir á Ströndum í vetur og muna fáir eftir annarri eins ótíð.

„Það er nákvæmlega ekki neitt að gera í grásleppunni því það er alltaf kolvitlaust veður. Það er búið að vera alveg hreint hræðilegt. Þeir sem eru búnir að leggja reyna að skjótast í þetta í smá tíma rétt á meðan snýst úr suðvestanátt í norðvestanátt. Það gengur ekkert vel. Við erum ekki búin að leggja netin,“ segir Anna Þorbjörg Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Æðar ehf., sem gerir út línu- og grásleppubátinn Hilmi ST-001 frá Hólmavík.

Hún segir miklar vonir bundnar við að það að fari að lægja. „Þetta er nú eiginlega að verða komið gott. Fjórir mánuðir í svona fjandans ótíð er dálítið mikið.“ Spurð hvort hún muni eftir svona langvarandi erfiðleikum vegna veðurs svarar hún: „Ég man ekki eftir því eftir að við fórum í smábátaútgerð, en ég man eftir því að 1968 komust rækjubátarnir ekkert út fyrir hafís. En það var öðruvísi, þá var hafís yfir öllu. Nú er það ekki.“

Vænn þorskur

Í vetur hefur verið farið á línuveiðar þegar veður hefur leyft, að sögn Önnu Þorbjargar. „En það hefur ekki gefið alltof mikið. Svo þegar kemur fram í mars þá er yfirleitt þorskurinn kominn í loðnuna og þá vill hann ekki línu, loðnan er miklu betri á bragðið en frystur makríll,“ segir hún. Hins vegar hafi veiðar gengið vel þá daga sem veitt hefur verið og hefur þorskurinn verið mjög stór. „Síðasta ár var nokkuð gott. Grásleppan mjög góð og línan líka,“ bætir Anna Þorbjörg við sem hefur komið að útgerð í um 15 ár. „Það er ekkert allt dans á rósum, það er alltaf eitthvert mótlæti líka.

Það helsta sem bátar í krókaaflamarkskerfinu glíma við fyrir utan veðurfarið er skortur á ýsukvóta eftir að hann var skertur um 25%, enda er ýsa óhjákvæmilegur fylgifiskur þorskveiða. „Það hefur þurft að reyna að forðast ýsuna og það getur verið erfitt. [...] Það er nóg af ýsu það má bara ekki veiða hana.“

Spurð hvort þurfi sérstakan áhuga til að leggja í smábátaútgerð svarar Anna Þorbjörg: „Það þarf eitthvað. Vitleysu, heimsku eða bæði.“ Í ljósi ofangreindra vandamála og bölvaðrar ótíðar kemst blaðamaður ekki hjá því að þurfa að spyrja hvort henni finnist skemmtilegt að stunda þennan rekstur. „Ég væri löngu hætt þessu annars.“

Viðtalið við Önnu Þorbjörgu var fyrst birt í blaði 200 mílna. 7. apríl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: