„Engar áætlanir gátu búið okkur undir þetta“

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia
Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia mbl.is/Eggert Jóhannesson

Isavia býr sig undir erfiða mánuði framundan en Sveinbjörn Indriðason, forstjóri fyrirtækisins, hefur þó fulla trú á því að flugumferð muni vaxa fiskur um hrygg að nýju. Félagið getur haldið sjó án nokkurra tekna í fimm mánuði en Sveinbjörn gerir þó ráð fyrir að félagið muni leita leiða til að styrkja lausafjárstöðuna á komandi vikum.

„Það er allt tómt.“ Með þessum orðum lýsir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, stöðunni á Keflavíkurflugvelli þegar hann er spurður út í stöðu mála á svæði sem helst hefði mátt nefna Erilborg á umliðnum árum. Í einni svipan hefur völlurinn, sem verið hefur einn stærsti vinnustaður landsins, skipt um ham. Í dag, miðvikudag, eru þrjár flugferðir á áætlun til landsins og þrjár af landi brott. Eins og fyrir siðasakir koma og fara vélar frá Nuuk, Lundúnum og Boston. Heimildir ViðskiptaMoggans herma að í flestum vélum séu farþegarnir taldir í fáum tugum, stundum ekki það.

Sveinbjörn segir að staðan hafi versnað hratt og að í raun hafi verið skrúfað á ógnarhraða fyrir farþegaflutninga milli landa.

„Þegar þetta skall á fyrir nokkrum vikum reyndum við að horfa til næstu missera í stað þess að horfa á næstu vikur eða mánuði. Við höfum séð að það er meira og minna að slokkna á öllu farþegaflugi í Evrópu og stórum hluta heimsins. Við sáum fljótt að það yrði lítil sem engin flugumferð í apríl og maí og að páskarnir yrðu ekki undanskildir í því sambandi. Það eru aðeins örfáar flugvélar sem fara hér um. Innviðirnir sem hér hafa verið byggðir upp eru af þeim sökum lítið sem ekkert nýttir og flugstöðin tóm.“

Ástandið í raun óraunverulegt

Eftir stutta þögn segir forstjórinn einfaldlega að það sé skrítið eða óraunverulegt að lýsa þessu ástandi. Þótt fljótt hafi komið í ljós að fólk myndi ferðast miklu minna en ráð var fyrir gert gerðu forsvarsmenn Isavia ráð fyrir að flugfélögin myndu reyna að halda uppi einhverri tíðni.

„Við töldum að þau myndu sjá hag sinn í því. En það breyttist hins vegar hratt og flugfélögin gátu einfaldlega ekki haldið þessari tíðni uppi. Þau hafa þurft að grípa til mjög drastískra aðgerða en það er skiljanlegt og rétt af þeirra hálfu miðað við aðstæður.“

Hann segir að þegar litið sé yfir farþegatölur milli ára þá sé samdrátturinn það er af er apríl orðinn um 99%.

„Það er engin umferð miðað við það sem var í fyrra. Það má því segja að flugrekstur með farþega hafi bara lagst tímabundið af. Þetta á við um alla millilandaflugvelli í löndunum í kringum okkur og þessi staða teiknaðist upp þegar löndin fóru að loka landamærum sínum.“

Þegar gripið var til lokana, m.a. í Danmörku, stóðu vonir til að þessar aðgerðir myndu vara í tvær vikur eða svo. Nú hafa sífellt fleiri ríki ákveðið að samkomubann skuli gilda inn í maímánuð og jafnvel fram undir júníbyrjun. Hvernig getur Isavia gert áætlanir í þessu ástandi?

„Óvissan er í raun bara algjör. Við getum ekki gert áætlanir fram í tímann en við reynum að meta stöðuna. Farþegaspárnar hjá okkur hafa byggst á upplýsingum frá flugfélögunum sem eru að fljúga til og frá Keflavík. Þar eru forsendurnar ekki til staðar lengur, flugfélögin eru í jafn miklu myrkri og við. Þegar við reynum að meta næstu skref þá er það í raun gert í algerri óvissu, því miður, en við höfum ekki kost á neinu öðru, þessar aðstæður eru svo sérstakar.“

Þessar sérstöku aðstæður kalla á undarlegar spurningar. Hvernig horfir þá staðan við þér í myrkrinu? Hvenær telur þú líklegt að vélarnar taki að hefja sig aftur til flugs?

„Í okkar sviðsmyndagreiningu erum við ekki að gera ráð fyrir miklu flugi fyrri hluta sumars. Við gerum hins vegar ráð fyrir að það lifni aðeins yfir þessu á seinni hluta þess, að því gefnu að það verði ekki frekari áföll. En ef við horfum á árið í heild þá má auðveldlega gera ráð fyrir því að farþegum muni fækka um meira en helming milli ára. Það er hins vegar 100% óvissa um hvort það geti orðið minna eða meira. Þær aðgerðir sem við erum að grípa til núna byggjast á þessari mynd, því við verðum að miða við eitthvað í óvissunni. Ég verð þó að ítreka að þetta er alls ekki spá um það sem mun gerast á næstu mánuðum. Almennt horfir ferðaþjónustan mikið til þeirra talna sem við gefum út til að meta horfurnar framundan en núna erum við í sama myrkrinu og allir aðrir.“

Þotur Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Búið er að ganga frá þeim …
Þotur Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Búið er að ganga frá þeim fyrir langtímageymslu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hafa aldrei gert ráð fyrir viðlíka ástandi

Sveinbjörn tók við starfi forstjóra Isavia í fyrra af Birni Óla Haukssyni. Í viðtali sem birtist við hann í ViðskiptaMogganum 10. nóvember 2016 var hann spurður út í hverskonar högg gætu mögulega komið á starfsemina ef flugrekstur myndi dragast saman. Tók hann þá dæmi af áhrifunum sem urðu af hryðjuverkaárásunum í Bandaríkjunum 2001 og sagði að sviðsmyndagreiningar gerðu ráð fyrir 20-30% mögulegum samdrætti en að hann yrði alltaf skammær. Því er ekki úr vegi að spyrja Sveinbjörn hvort einhverjar sviðsmyndir hafi búið fyrirtækið undir að flug myndi nær alfarið stöðvast yfir lengra tímabil?

„Alls ekki. Í raun og veru þá erum við í krísuástandi sem enginn gat séð fyrir. Þetta er heimsfaraldur sem við höfum ekki orðið vitni að áður frá því að flugsamgöngur komu til. Það er engin leið að áætla varðandi krísur af þessu tagi. Við erum með fjölda viðbragðsáætlana gagnvart rekstraröryggi flugvallarins og við erum að virkja marga ferla sem snúa að því að hægt sé að halda rekstirnum gangandi. Það snýr m.a. að því að tryggja að starfsemin geti haldið áfram jafnvel þótt smit komi upp hjá starfsfólki. En þegar kemur að fjárhagslega þættinum þá gat enginn séð þetta fyrir. Okkar verkefni núna er að fara í gegnum hvern dag og lágmarka það tjón sem við verðum fyrir vegna þessara aðstæðna og tryggja rekstrarhæfi fyrirtækisins.“

Í fyrra námu rekstrartekjur af starfsemi samstæðu Isavia 38 milljörðum króna og langstærstur hluti þeirra komu til vegna umsvifanna á flugvellinum í Keflavík. Ef skotið í myrkrinu um helmings samdrátt í farþegafjölda í ár gengi eftir myndi það hafa gríðarleg áhrif á rekstrartekjurnar. En getur Isavia brugðist hratt við og skorið niður kostnað til að mæta gífurlegum samdrætti í tekjum.

„Stór hluti kostnaðarins hjá okkur er breytilegur og hann er að stórum hluta launakostnaður. Það sem við þurfum nú að horfast í augu við er að við munum byrja með mjög illa nýtta innviði þegar starfsemin fer í gang á ný. Okkar áskorun í gegnum tíðina hefur verið að það myndast mikið álag á Keflavíkurflugvelli á morgnana og seinni partinn vegna mikilla umsvifa Icelandair á vellinum á þeim tíma dags. Þess á milli hefur verið minna að gera, en þrátt fyrir það höfum við alltaf þurft að manna völlinn miðað við þessa álagstíma. Á síðustu árum hefur okkur tekist að fylla betur upp minna nýtta tíma innan dagsins með þjónustu við erlend flugfélög. Þannig höfum við nýtt mannvirkin og mannaflann betur. Nú þegar flugið fer af stað aftur má gera ráð fyrir að umsvifin verði mest hjá Icelandair til að byrja með og þá stöndum við aftur frammi fyrir því að vera með lítið nýtta innviði miðað við það sem verið hefur síðustu árin.“

Sveinbjörn segir að þessi staðreynd sníði Isavia nokkuð þröngan stakk. Ef skera eigi mikið niður, komi það óhjákvæmilega niður á þjónustunni sem fyrirtækið getur veitt og það geti aftur orðið flöskuháls fyrir vöxt þegar umsvifin taka að aukast á ný, ekki síst fyrir Icelandair.

„Það gæti orðið dýrkeypt og ekki skynsamlegt til lengri tíma litið. Við verðum að búa þannig um hnútana að flugfélögin geti aukið tíðni sína hratt og að þau sjái að við séum að mæta þörfum þeirra. Að öðrum kosti skerðist samkeppnishæfni flugvallarins.“

Hlutabótaúrræðið ekki hugsað fyrir Isavia

Fyrir nýliðin mánaðamót var tilkynnt að Isavia hefði sagt upp 101 starfsmanni, einkum í framlínu fyrirtækisins á Keflavíkurflugvelli, m.a. í flugvernd, farþegaþjónustu og bílastæðaþjónustu. Þá var 37 starfsmönnum boðið að lækka starfshlutfall sitt. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2019 voru stöðugildi hjá fyrirtækinu 1.360 að meðaltali á síðasta ári. Því er inngripið ekki mikið hlutfallslega fyrir samstæðuna í heild en þegar horft er eingöngu til Keflavíkurflugvallar er um að ræða ríflega 20% af starfsmönnum móðurfélags Isavia á flugvellinum.

„Hlutabótaúrræði stjórnvalda nær til fyrsta júní sem gerir mörgum fyrirtækjum kleift að komast í gegnum þessar hremmingar. Við ákváðum hins vegar að nýta úrræðið ekki. Við vorum með mjög sterka lausafjárstöðu í upphafi árs og það hefur reynst mjög mikilvægt. Það gerir það að verkum að við lendum ekki í vandræðum næstu mánuðina þótt við séum tekjulítil. Þess vegna mátum við það svo að þetta úrræði væri ekki hugsað fyrir okkur. Hins vegar höfum við viljað greina það hvaða verkefni við höfum fyrir starfsfólkið okkar á komandi mánuðum og misserum. Þar sjáum við að störfum sem tengjast beinni þjónustu við farþega mun fækka og það verður ekki aðeins þróunin í sumar, þau áhrif munu ná inn í veturinn. Við erum hins vegar áfram með töluvert mikil umsvif, við erum t.d. að reka stór og viðhaldsfrek mannvirki og þá stefnum við að því að byggja upp rekstrarinnviðina okkar.“

Hann bendir einnig á að umsvifin í Keflavík hafi vaxið gríðarlega á síðustu árum. Þannig hafi t.d. farþegafjöldinn vaxið úr 2,8 milljónum í 9,8 milljónir milli áranna 2012 og 2018. Fyrirtækið hafi í raun ekki verið búið undir þennan vöxt þar sem mjög hafi verið skorið niður í starfseminni í kjölfar bankahrunsins.

„Þó að við höfum náð að vaxa á arðbæran hátt þá hefur skort á skilvirkni og nú liggja mjög mörg verkefni fyrir til að efla fyrirtækið. Fjármálaráðherra talaði um að við ættum að búa okkur undir Ísland 2.0 og það er einnig nokkuð til í því þegar við horfum til Isavia. Nú getum við búið okkur undir að byggja upp Isavia 2.0 til framtíðar og þá þannig að það sé gert með sem skilvirkustum hætti.“

Flugstöðin er svo gott sem tóm allan daginn.
Flugstöðin er svo gott sem tóm allan daginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lausafjárstaðan sterk

Sú spurning vaknar óneitanlega hvort Isavia geti leyft sér að horfa fram hjá hlutabótaúrræði ríkisstjórnarinnar, af þeirri ástæðu einni að lausafjárstaða fyrirtækisins er sterk?

„Að okkar mati þá erum við einfaldlega ekki í þeim fjárhagslegu erfiðleikum sem úrræðinu var ætlað að mæta. Við teljum að þau fyrirtæki sem geti varðveitt störfin í þessum erfiðleikum eigi að gera það. Isavia er í stöðu til þess og það eru næg verkefni til staðar sem snúa m.a. að því að halda áfram uppbyggingu starfseminnar. Auk þess var ákveðið að auka hlutafé fyrirtækisins um fjóra milljarða m.a. til þess að flýta stórum framkvæmdum á svæðinu. Við það fjölgar líka verkefnum innanhúss hjá okkur, bæði hvað varðar sérfræðinga og starfsmenn í ákveðnum framlínustörfum.“

Sveinbjörn segir þó að ef áfallið dregst á langinn og langt verður í að flugumferð komist í svipað horf og áður þá muni lausafé Isavia að lokum ganga til þurrðar eins og hjá öðrum fyrirtækjum.

„Af þeim ástæðum þurfum við auðvitað að geta brugðist við ef þörf krefur. Þess vegna væri óábyrgt af minni hálfu að segja að við ætluðum ekki að grípa til frekari aðgerða hvað niðurskurð varðar. Það kemur allt til greina í því sambandi en við ætlum hins vegar að róa öllum árum að því að halda í okkar fólk þar sem það er mögulegt.“

Lausafjárstaða Isavia var 9 milljarðar króna um nýliðin áramót. Hvað getur fyrirtækið starfað lengi án tekna í ljósi þeirrar stöðu?

„Það eru um fimm mánuðir ef við skrúfum fyrir allar fjárfestingar. Ef farþegum fjölgar hins vegar aftur með þeim hætti sem ég lýsti áðan, þ.e. hægt en að umsvif verði komin í gang með haustinu, þá ættum við að geta komist í gegnum árið án þess að þurfa að sækja okkur aukna fjármögnun. Það er hins vegar hætt við að þá verði lausafjárstaðan komin á þann stað að okkur liði ekki vel með hana og því finnst mér líklegt að á næstu vikum og mánuðum munum við leita leiða til að tryggja okkur viðbótar fjármögnun til að mæta lakara sjóðstreymi en fyrri áætlanir hafa gert ráð fyrir.“

Ýmsar leiðir til að styrkja fjárhaginn

Hvaða leiðir hafið þið í þeim efnum?

„Við eigum ódregnar lánalínur, t.d. hjá Evrópska fjárfestingabankanum og við höfum til þessa ekki leitað inn á skuldabréfamarkaðinn en þangað getum við leitað. Þá eru allir innlendu viðskiptabankarnir lánveitendur okkar og við getum leitað til þeirra. Það er ekkert í hendi hvað þetta varðar enda hefur okkur ekki legið lífið á. Við viljum vanda til verka og þegar lánveitendur koma og lána okkur þá viljum við að það sé gert á upplýstan máta og auðvitað er það þannig að útspil ríkisstjórnarinnar með hlutafjárframlaginu hjálpar klárlega til. Við finnum það strax á samskiptum við okkar lánveitendur að þetta er styrkleikamerki.“

En hver var aðdragandinn að hlutafjáraukningunni sem tilkynnt var um í síðustu viku?

„Fjármálaráðuneytið, fyrir hönd ríkisins, hafði samband við okkur og velti upp spurningum um hvaða framkvæmdir væru fyrirhugaðar hjá okkur, hversu langt væri í að þær kæmust af teikniborðinu, hvort þær væru t.d. mannaflsfrekar og hvort við gætum flýtt þeim. Flest verkefnin sem nú eru í vinnslu eru á hönnunarstigi. Við vorum búin að fresta þeim flestum til að standa vörð um lausafé félagsins en með þessari ákvörðun gátum við hafist handa við þau á ný ásamt því að ákveðnar vega- og flugakbrautaframkvæmdir sem við ætluðum að ráðast í eftir 2023 eru færðar framar á listann. Þetta eru verkefni sem voru búin að ná ákveðinni festu í tengslum við þróunaráætlun vallarins og munu nýtast til að styrkja samkeppnishæfni hans til lengri tíma litið. Þetta eru framkvæmdir sem við getum ráðist í núna strax í sumar. Hlutafjáraukningin nýtist alfarið í þessi verkefni. Stjórnvöld fá með þessu tækifæri til að skapa störf og umsvif í hagkerfinu og á sama tíma styrkir þetta stöðu vallarins. Þarna tókst okkur því að slá tvær flugur í einu höggi. Það var mjög gott að sjá hvað stjórnvöld gátu brugðist hratt við og tekið þessar ákvarðanir án þess að hika.“

En þótt hlutafjáraukningin auki tiltrú lánveitenda á Isavia styrkir hún sem slík ekki lausafjárstöðu félagsins. Því vakna spurningar um hvort til greina komi að fá fleiri fjárfesta að flugvellinum eins og reyndin hefur orðið með fjölmarga flugvelli vestanhafs og austan. Þeim möguleika hefur verið hreyft á síðustu árum hvort lífeyrissjóðir sæju hag sínum borgið með að fjárfesta í Keflavíkurflugvelli. Hefur rykið verið dustað af slíkum hugmyndum nú?

„Það hefur ekkert samtal átt sér stað hjá okkur um mögulega aðkomu annarra hluthafa. Það er umræða sem verður að eiga sér stað annars staðar, þ.e. hjá eigandanum. Það er ekki endilega rétti tíminn að skoða aðgerðir af þessu tagi í ástandi eins og er uppi núna.“

Sveinbjörn segir þó að horfast verði í augu við veruleikann eins og hann er. Þannig verði allir sem að málum komi að átta sig á að staða Isavia verður önnur eftir þessa niðursveiflu en hún var fyrir hana.

„Þegar við komumst út úr þessu og hjólin fara að snúast aftur þá verða flest fyrirtæki frekar lemstruð og það mun taka tíma fyrir flesta að jafna sig. Efnahagsreikningur okkar verður ekki eins sterkur og hann var fyrir, það gefur augaleið. Það verður búið að brenna upp handbært fé og skuldastaðan mögulega hærri. Það verður því að hafa það á bak við eyrað að það mun taka okkur tíma að ná fyrri fjárhagslegum styrk. Það er allt í lagi en þetta er veruleiki sem fólk verður að horfast í augu við, ekki síst þegar litið er til þeirra væntinga sem fólk hefur til Isavia og Keflavíkurflugvallar.“

Ljóst er að staða Isavia verður allt önnur eftir þessa …
Ljóst er að staða Isavia verður allt önnur eftir þessa niðursveiflu en hún var fyrir hana. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mun hafa áhrif á framtíðaráætlanir félagsins

Á síðustu árum hafa verið kynntar gríðarlegar uppbyggingaráætlanir fyrir flugvöllinn og þar hefur jafnvel verið talað um 200 milljarða fjárfestingu. Mun þessi breytta staða ekki kollvarpa öllum slíkum áætlunum?

„Við þurfum að gera greinarmun á uppbyggingu til framtíðar og þess sem við erum að ráðast í núna til skemmri tíma litið. Við erum stödd í miðjum heimsfaraldri en ég sé fyrir mér að flugið muni fara af stað aftur og að flugfélög muni reyna að auka sína tíðni og stækka og farþegar munu einnig taka við sér. Við erum að horfa á stóra markaði, bæði Evrópumegin við Ísland en einnig í Norður-Ameríku og Ísland sem skiptistöð er spennandi kostur, rétt eins og Ísland er það sem áfangastaður. Þessi plön munu hliðrast í tíma en við erum ekki að slá plönin okkar út af borðinu. Það er hins vegar tómt mál að tala um að fara að ráðast í tuga eða hundraða milljarða framkvæmdir fyrr en við sjáum einhver batamerki á markaðnum og hvernig hann muni þróast á komandi árum. Sem betur fer verða áföll eins og þau sem við höfum orðið fyrir núna ekki með reglulegu millibili en við erum að byggja upp til margra áratuga og þess vegna munum við skoða alla möguleika í þeim efnum þegar þetta er gengið yfir.“

Lítil hreyfing er á vélum við Keflavíkurflugvöll og komugestir fátíðir.
Lítil hreyfing er á vélum við Keflavíkurflugvöll og komugestir fátíðir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Isavia mun leggja sitt af mörkum við markaðssetningu þegar rofar til

Mun Isavia leita leiða til að laða flugfélög og farþega til landsins þegar að nýju opnast fyrir flugumferð milli landa?

„Stjórnvöld hyggjast fara í markaðsátak þegar réttur tími gefst til þess. Við erum að horfa til þess að halda til hliðar ákveðnu fjármagni til að geta farið samhliða slíku átaki í ákveðna vinnu okkar megin til að markaðssetja Keflavíkurflugvöll, annars vegar sem skiptivöll og hins vegar Ísland sem áfangastað. Við höfum einnig átt í samstarfi við flugvelli um að byggja upp flugleiðir milli Íslands og viðkomandi svæðis og þar verða ákveðin tækifæri alveg ábyggilega til. Við sjáum fyrir okkur samstarf við flugvelli og flugfélög í þessu tilliti.

En samkeppnin, verður hún ekki blóðug á komandi árum? Er ekki hætt við að þjónutugjöld verði lækkuð víðast hvar með tilheyrandi áhrifum á markaðinn?

„Ég á síður von á því að flugvellir muni keyra notendagjöldin sín mikið niður. Þeir munu þurfa á tekjum að halda eins og önnur fyrirtæki. Við erum hins vegar með hvatakerfi sem eiga að auðvelda fyrirtækjum að ákveða að fljúga hingað. Það gæti einnig hjálpað til ef við gætum veitt ákveðinn markaðsstuðning fyrir flugfélög sem hafa áhuga á að fljúga hingað. En við erum heppin með þá staðreynd að Ísland er áfram eftirsóttur áfangastaður. Við höfum mjög áhugaverða „vöru“ ef svo má segja og þar verðum við að horfa fram á veginn. Þegar það fer að birta til þá eigum við að keyra á okkar styrkleikum sem eru m.a. fámennið og hreinleikinn. Þetta eru okkar styrkleikar og við verðum að nýta þá og marga aðra sem við búum við til að komast fremst í röðina í huga fólks. Þar held ég að við höfum ákveðið forskot, bæði gagnvart farþegum og flugfélögum. Við þurfum öll, fyrirtækin í landinu og stjórnvöld að vera samstiga í slíku átaki. Það skiptir öllu að það gangi vel.“

mbl.is