Lilja Hrönn Helgadóttir stílisti býr í London og heldur úti netmiðlinum Tide Magazine. Lilja Hrönn fann sterka þörf til þess að leggja góðu málefni lið á þessum undarlegu tímum og eftir að umræðan um aukið heimilisofbeldi bæði erlendis sem og á Íslandi varð meiri ákvað Lilja Hrönn að safna fé fyrir Kvennaathvarfið á Íslandi með því að selja ljósmyndaprent.
„Mig langaði að safna fé fyrir eitthvert góðgerðarstarf sem átti í erfiðleikum út af Covid-19, það var ótrúlega mikið af söfnunum í gangi fyrir framlínustarfsmenn og heilbrigðiskerfin bæði á Íslandi og hérna úti í London, þannig að ég reyndi að finna eitthvert starf sem var kannski ekki að fá þá hjálp sem væri þó eflaust kærkomin. Ég hafði lesið mér mikið til um hvað samkomubönn og „lockdown“ í mörgum löndum hafa mikil áhrif á aukningu heimilisofbeldis þar sem konur hafa ekki sömu undankomuleið frá ofbeldinu eins og áður, sækja börn í leikskóla og skóla, fara í vinnuna, út að versla í matinn og svo framvegis. Eftir að ég hafði lesið um að tvö dauðsföll hefðu orðið á Íslandi innan veggja heimilisins sem mögulega mætti rekja til heimilisofbeldis þótti mér mjög viðeigandi og mikilvægt að styrkja Kvennaathvarfið,“ segir Lilja Hrönn um söfnunina.
Lilja Hrönn segir starfsemi Kvennaathvarfsins ekki snerta sig beint persónulega en finnur til með þeim sem hún þekkir og þekkir ekki og hafa orðið fyrir heimilisofbeldi hvort sem það er beint eða óbeint.
„Tilhugsunin einnig um börn sem verða vitni að því þykir mér hrikaleg. Ég hef þó einu sinni orðið vitni að því hérna í London þegar nágrannakona mín varð fyrir ofbeldi af hendi barnsföður síns, og ég þurfti að bíða með henni og ungbarni hennar á meðan lögreglan og sjúkraliðar mættu á svæðið, hann var handtekinn en flutti svo aftur inn til þeirra, það hafði mikil áhrif á mig að verða vitni að og ég sá mjög skýrt hvað það getur verið erfitt fyrir þær sem eru fastar í þessum aðstæðum að losa sig úr þeim,“ segir Lilja Hrönn um málefnið.
Lilja Hrönn er að selja mismunandi ljósmyndaprent á vefmiðli sínum til þess að safna fé fyrir Kvennaathvarfið.
„Ég er að selja átta mismunandi ljósmyndaprent, sem Pixel hefur góðfúslega gefið mér ótrúlegan afslátt á og á mestu þakkir skilið fyrir. Salan fer fram á síðunni Tides, undir „Shop!“ og þú getur keypt eins mörg prent og þú vilt og borgað bara einn sendingarkostnað sama hversu mörg þau eru. Salan fer fram í pundum þar sem síðan mín er staðsett hérna í London, en hvert prent er á 60 pund eða tæpar 11.000 krónur og kaupandi borgar svo sendingarkostnað ofan á. Allur ágóði rennur óskertur til Kvennaathvarfsins. Ég er enn að leita að fyrirtæki til að gefa eða bjóða góðan díl á pappírshólkum til að senda prentið út í, þannig að ef einhver sem les þetta gæti hjálpað mætti viðkomandi endilega hafa samband. Að sama skapi, ef einhver vill borga meira fyrir prentið, eða leggja málefninu lið án þess að kaupa prent, má hafa samband við mig á lilja@tidesmagazine.com,“ segir Lilja Hrönn.
Lilja Hrönn ákvað að hafa aðeins samband við kvenkynsljósmyndara í ljósi málefnisins og tóku flestir ljósmyndararnir mjög vel í söfnunina. Tvær kvennanna hafa samt sem áður enga tengingu við Ísland.
„Viðtökurnar hafa verið ótrúlega góðar en þó eru enn til eintök af öllum prentunum, sem væri æðislegt að selja til að styrkja málefnið sem mest. Fólk hefur verið ótrúlega duglegt við að deila þessu fyrir mig á samfélagsmiðlum, og að auki hef ég fengið ómetanlega hjálp frá vinum og frændfólki við framleiðsluna á fjáröfluninni.“
Ástandið í heiminum í dag hefur ekki farið fram hjá Lilju Hrönn.
„Ég er í London með 10 mánaða stelpunni minni og manni mínum. Þetta er ótrúlega skrítið hérna, líf okkar er gjörsamlega „on hold“. Ég átti að vera að ljúka barneignarleyfi í síðasta mánuði en vinnan mín hófst aldrei aftur þar sem ferðabannið í London hófst í sömu viku og ég átti að byrja. Við förum einungis út einu sinni til tvisvar í viku, til að versla í matinn, og til að viðra barnið aðeins þegar við höldum að það sé öruggt. En út af góðu veðri hérna hefur verið ótrúlega margt fólk á ferð sem gerir mann smávegis reiðan miðað við allt sem er búið að ráðleggja manni að gera til að flýta fyrir því að þessi heimsfaraldur taki enda.“
Hér má skoða og kaupa verkin sem Lilja Hrönn er með í sölu til styrktar Kvennaathvarfinu.
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.