Árið 165 barst skelfileg farsótt til Rómarborgar og dreifðist sjúkdómurinn hratt um allt veldi Rómverja. Sagnfræðinga grunar að um hafi verið að ræða afbrigði af bólusótt eða mislingum, og hugsanlegt að veikin hafi átt upptök sín í Kína þaðan sem hún barst með silkileiðinni til Mið-Austurlanda, og áfram til Rómar með hermönnum sem smituðust í herleiðangri á austurmörkum keisaradæmisins. Sjúkdómurinn felldi fjórðung þeirra sem veiktust og á sumum svæðum varð sjúkdómurinn allt að þriðjungi fólks að bana.
Fyrstu einkenni farsóttarinnar voru ósköp væg: þreyta, höfuðverkur, niðurgangur, þorsti og hiti. Svo snarversnaði sjúklingunum sem fengu svört útbrot og innvortis blæðingar. Er sagt að þeir sem veiktust hafi kvalist svo mikið að þeir þóttu heppnir sem geispuðu golunni á aðeins einni viku en alla jafna vöruðu veikindin í tvær vikur. Áætla sagnfræðingar nú að allt að 60-70 milljónir manna hafi látið lífið í faraldrinum.
Þá, rétt eins og í dag, vissu embættismenn og sérfræðingar varla hvað þeir áttu til bragðs að taka. Samfélagið allt var í uppnámi, samgöngur lömuðust, hátíðir og íþróttaviðburðir voru blásin af og hagkerfið lemstrað. Líkin hrönnuðust upp. Allir sem gátu reyndu að flýja sóttina og auðmenn Rómar voru ekki lengi að hypja sig út í sveit.
Ekkert nýtt
Einn Rómverji lét farsóttina ekki koma sér úr jafnvægi, og það var keisarinn sjálfur: Markús Árelíus. Hann var jú enginn venjulegur þjóðhöfðingi, heldur stóumaður og hugsuður, og höfundur eins af meginverkum heimspekibókmenntanna.
Markús Árelíus minnti þegna sína á að þegar á móti blæs skiptir höfuðmáli að halda ró sinni; að ekkert er nýtt undir sólinni og þau áföll sem dynja á okkur í dag hafa dunið á okkur áður, og munu dynja á okkur aftur. Að nú, sem endranær, myndi samfélagið komast í gegnum hremmingarnar.
Keisarinn hélt ró sinni og tók þegar til sinna ráða á meðan allir heldri borgarar Rómar flúðu. Hann smalaði til sín færustu sérfræðingum á sviði lækninga og góðra stjórnarhátta. Hann greip til róttækra efnahagsaðgerða; afskrifaði skuldir og seldi dýrgripi keisarafjölskyldunnar til að hjálpa bágstöddum. Þeir sem voru aflögufærir voru látnir greiða hærri skatta. Stjórnkerfið var tekið í gegn og tryggt að engu fé yrði sólundað í vitleysu. Umfram allt fann keisarinn innilega til með þegnum sínum án þess þó að láta sorgina og óttan lama sig og var þeim góð fyrirmynd.
Markús Árelíus veiktist í síðustu smitbylgjunni, um þetta leyti árs árið 180. Vitandi að stutt væri í endalokin notaði hann síðustu daga sína á lífi til að tryggja að landinu yrði farsællega stjórnað að honum látnum. Þegar nánustu ráðgjafar keisarans gátu varla sinnt störfum sínum af trega skammaði hann þá og minnti þá á að dauðinn er alltaf innan seilingar; að það sem við ættum að óttast er ekki dauðinn, heldur brestir eins og illska, eigingirni og ótti, sem aftra okkur frá því að vera góðar manneskjur.
Markaðsfólk sem heldur ró sinni
Margir mættu hafa boðskap Markúsar Árelíusar í huga um þessar mundir; halda ró sinni og láta ekki ótta og óðagot gera illt verra. Það á t.d. við um marga leiðtoga atvinnulífsins, bæði innanlands og erlendis, að þeir hafa hrokkið í kút og stigið harkalega á bremsuna og m.a. skorið niður útgjöld til markaðsmála.
Ráðgjafinn og fræðimaðurinn Mark Ritson, sem ViðskiptaMogginn ræddi einmitt við í febrúar í tengslum við Ímark-daginn, birti fyrir skemmstu grein í Marketing Week þar sem hann minnir á að þeir sem skera niður markaðsútgöldin í niðursveiflu eru að gera reginmistök, enda hafa rannsóknir sýnt það trekk í trekk að þegar upp er staðið er það að minnka auglýsingakaup í kreppu sparnaðarráð sem einfaldlega virkar ekki. Vestanhafs er reiknað með að auglýsingaútgjöld muni dragast saman um 30-60% út þetta ár: „Það eru hræðilegar fréttir fyrir þá sem vinna í auglýsinga- og markaðsgeiranum og hjá fjölmiðlum. En fyrir lítinn hóp afburðasnjalls markaðsfólks eru þetta gleðitíðindi,“ segir Ritson og bendir á að þessir örfáu snillingar munu nefnilega nota tækifærið til að gefa í og styrkja vörumerki sín til langframa.
Markúsar Árelíusar markaðsdeildanna flýja ekki til fjalla í svona árferði.
Pólitískir leiðtogar og talsmenn atvinnulífsins þurfa líka að gæta sín á óttanum svo þeir slysist ekki í óðagoti til að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Haldi þetta fólk ekki ró sinni gæti það freistast til að láta undan kröfum um verndartolla og inngrip í atvinnulífinu. Það glitti í þetta óðagot í grein Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, í Morgunblaðinu á laugardag þar sem þau hvöttu landsmenn til að skipta sem mest við innlend fyrirtæki, og þannig stuðla að jákvæðri keðjuverkun í hagkerfinu. Katrínu og Sigurði gengur gott eitt til, og blessunarlega láta þau duga að ota að landsmönnum mýkstu gerð verndarstefnu sem finna má, en ef það er eitt sem má læra af hagsögunni þá er það það að þeim hagkerfum farnast best sem opna sig sem mest út á við. Rétt eins og með niðurskurð í markaðsútgjöldum er verndarstefna fyrirtækjum skammgóður vermir og gerir þau til lengri tíma ósamkeppnishæf. Besta leiðin til að örva hagkerfi Íslands er einmitt mun frekar að tryggja að ekkert komi í veg fyrir að fólk og fyrirtæki geti verslað við hvern þann í heiminum sem býður þeim bestu vöruna og hagstæðasta verðið.
Verndarstefna kemur okkur í sömu spor og Argentína, Indland og Egyptaland eru í. Skárra er að reyna að líkjast Hong Kong eða Sviss.
Það sem hjálpar þeim hjálpar okkur
Eftir er að nefna það sem sennilega er mikilvægast í boðskap Markúsar Árelíusar: að við hugsum vel um hvert annað. „Að sýna öðru fólki gæsku ætti að vera okkur jafn eðlislægt og það er hestinum að brokka og býflugunni að safna hunangi,“ sagði keisarinn, í lauslegri þýðingu.
Í óðagoti og óróleika undanfarnar vikur og mánuði hefur umræðan á meðal fólks, og viðbrögð stjórnvalda um allan heim, snúist um lítið annað en þeirra eigin hagsmuni. Horfur eru á miklum efnahagslegum skelli, en fyrir hinn dæmigerða Íslending þýðir það að ögn sjaldnar verður hægt að splæsa í rauðvín með kvöldmatnum og bíða þarf með að endurnýja heimilisbílinn, eða í versta falli að þola tímabundið atvinnuleysi. En hvernig á veiran eftir að fara með fólk í löndum þar sem engar eru öndunarvélarnar, og lífsbaráttan svo hörð að nokkrar krónur til eða frá skilja á milli feigs og ófeigs? Þó að taka þurfi öllu sem kemur frá Oxfam með fyrirvara þá er það ekkert grín að samtökin spáðu því í síðustu viku að veirufaraldurinn gæti valdið því að þeim íbúum jarðar sem búa við sára fátækt fjölgi um hálfan milljarð.
Vellauðugt smáríki í Norður-Atlantshafi getur ekki bjargað öllum heiminum. Við verðum samt að reyna og leggja okkar af mörkum strax og ljóst verður að tekist hafi að ná einhverri stjórn á veirusmitum heima fyrir. Þá verðum við kannski aflögufær um lækna og tæki, lýsispillur og Ora fiskbollur. Eitt getum við þó alveg örugglega gert sem gagnast bæði okkur sjálfum og öllum öðrum í uppbyggingunni framundan, og það er að opna hagkerfið upp á gátt svo að hillur íslenskra verslana fyllist af kartöflum frá Perú, hrísgrjónum frá Nígeríu og strigaskóm frá Víetnam. Súdanskt, já takk! Og vitið bara til, að hagsæld í öðrum löndum er bráðsmitandi.