Skelltu í lás með góðum árangri

Kórónuveiran hefur herjað illa á mörg ríki Evrópu. Hér sést …
Kórónuveiran hefur herjað illa á mörg ríki Evrópu. Hér sést heilbrigðisstarfsmaður við vinnu á gjörgæsludeild á Spáni. AFP

Daglega berast fregnir af tölum yfir smit og andlát vegna faraldurs kórónuveiru sem nú gengur yfir heimsbyggðina. Þegar reynt er að leggja mat á hversu þungt veiran hefur herjað á mismunandi ríki er einkum litið á tölur yfir fjölda látinna og viðbrögð stjórnvalda. Á meðan sum ríki hafa reynt að setja á sem fæstar hömlur á íbúa sína brugðust önnur skjótt við með landamæralokunum og ströngu samkomubanni. Eyríkin Nýja-Sjáland og Færeyjar eru sögð hafa staðið sig einkar vel þegar kemur að því að hefta útbreiðslu veirunnar og verður vikið að helstu aðgerðum þeirra hér.

Bandaríski háskólinn Johns Hopkins segir vert að hafa í huga að ýmislegt kann að hafa áhrif á tölur sem sýna hlutfall látinna af þeim sem smitast hafa af veirunni. Þannig skiptir meðal annars máli hversu margir eru skimaðir, en með fleiri skimunum finnast gjarnan fleiri einstaklingar með vægari einkenni og lækkar það um leið dánarhlutfallið. Aldur þeirra sem veikjast skiptir einnig máli í þessu samhengi því eldra fólk veikist gjarnan verr en yngra fólk. Þá hefur geta heilbrigðiskerfisins til að sinna veikum og viðbrögð stjórnvalda við að hefta útbreiðslu faraldursins einnig sitt að segja því yfirfull sjúkrahús ráða illa við verkefnið.

Flestir dáið í Svíþjóð á Norðurlöndum

Samkvæmt talnagögnum Johns Hopkins voru í gær staðfest smit vegna kórónuveirufaraldursins hátt í 2 milljónir á heimsvísu og höfðu þá tæplega 128 þúsund manns látist, en alls hafa 185 ríki tilkynnt um kórónuveirusmit innan sinna landamæra. Flest staðfest tilfelli veirunnar hafa komið upp í Bandaríkjunum, en þar höfðu um 610 þúsund manns sýkst af henni og yfir 26 þúsund látið lífið. Næstflest tilfelli eru á Spáni, en þar hafa rúmlega 177 þúsund smitast og yfir 18.500 dáið.

Í talnasafni Johns Hopkins má einnig sjá hversu hátt hlutfall einstaklinga með staðfest kórónuveirusmit hefur látist úr Covid-19, sjúkdómnum sem veiran veldur, í hverju ríki fyrir sig. Á toppi þess lista eru Zimbabwe (17,6%); Bahama-eyjar (17%); Alsír (15,8%); Súdan (13,8); Gínea (13,3%); Ítalía (12,8%); Belgía (12,8%); Bretland (12,7%); Frakkland (10,9%) og Holland (10,6%). Í Bandaríkjunum er þetta hlutfall 4,1%. Þegar litið er til Norðurlanda er Svíþjóð á toppi listans (8,4%) en næst á eftir kemur Danmörk (4,4%); Noregur (2%); Finnland (1,9%) og loks Ísland (0,5%).

Skelltu í lás þremur vikum seinna

Eitt þeirra ríkja sem vakið hafa athygli fyrir góðan árangur í baráttunni gegn veirunni er eyríkið Nýja-Sjáland. Íbúafjöldi þar er hátt í 4,8 milljónir, staðfest smit eru nú um 1.386 og andlát níu. Hlutfall þeirra sem látist hefur þar vegna veirunnar er því 0,6%.

Fyrsta smit kórónuveiru greindist á Nýja-Sjálandi 28. febrúar sl., sama dag og veiru- og sýklafræðideild Landspítala greindi fyrsta smit hér á landi. Var um að ræða nýsjálenska konu á sjötugsaldri sem ferðast hafði til borgarinnar Auckland frá Íran með viðkomu á Balí. Fyrstu viðbörgð ríkisstjórnar voru að fullvissa almenning um að lítil hætta væri á faraldri vegna smitsins.

„Þótt við séum nú komin með fyrsta tilfelli Covid-19 þá eru líkurnar á faraldri litlar,“ segir í tilkynningu sem stjórnvöld sendu frá sér á þeim tíma. Ekki leið þó á löngu þar til heilbrigðisráðherra landsins kynnti strangar takmarkanir á ferðum fólks til og frá Íran, en áður var búið að setja á takmarkanir á ferðalög milli Nýja-Sjálands og Kína. Sagði ráðherrann þetta nauðsynlegt til að bregðast við mikilli útbreiðslu veirunnar í Íran, en þá höfðu þegar minnst 26 manns látist í faraldrinum þar í landi. „Ástandið í Íran veldur okkur augljóslega áhyggjum. Þar eru smit í fullum gangi og mikil óvissa uppi varðandi umfang faraldursins og hvernig takast mun að hefta hann,“ sagði ráðherrann á blaðamannafundi.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, greip til harðra aðgerða vegna veirunnar.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, greip til harðra aðgerða vegna veirunnar. AFP

Innan við þremur vikum frá fyrsta smiti, eða 19. mars, var tilkynnt um algjöra lokun landamæra Nýja-Sjálands. Var þetta í fyrsta skipti sem gripið er til aðgerða af þessum toga þar í landi, en samkvæmt ákvörðun stjórnvalda yrði einungis ríkisborgurum landsins hleypt inn. Við komuna til landsins yrðu jafnframt allir látnir sæta sóttkví í 14 daga. Nágrannaríkið Ástralía greip til sömu aðgerða samhliða Nýja-Sjálandi. Undanskilið frá þessu banni voru vöruflutningar með skipum og flugvélum. Sem fyrr segir var þegar búið að banna ferðalöngum frá Íran og Kína að koma til Nýja-Sjálands sem og fólki frá Suður-Kóreu.

„Aldrei í sögu Nýja-Sjálands hefur verið gripið til svo umfangsmikilla aðgerða og ég geri mér fulla grein fyrir hve óvenjulegt þetta er,“ sagði forsætisráðherrann Jacinda Ardern í ávarpi til þjóðarinnar. „Við verðum að gera þetta með heilsu lands og þjóðar í huga.“ Þegar hingað var komið sögu voru staðfest smit kórónuveiru 28 í Nýja-Sjálandi og mátti rekja þau öll til ferðalaga erlendis. „Ég er ekki reiðubúin til að líta fram hjá hættu á okkar landamærum, þangað má rekja öll okkar smit,“ sagði Ardern enn fremur.

Stjórnvöld í Nýja-Sjálandi gripu einnig til aðgerða annars staðar en við landamærin. Þannig var öllum samkomum innanhúss með fleiri en 100 manns bannaðar. Undanþága frá þessu var gefin fyrir vinnustaði, skóla, matvöruverslanir og almenningssamgöngur. Fjöldasamkomur utanhúss með fleiri en 500 manns voru einnig bannaðar. Skólum var þó enn haldið opnum. Þá lagði ríkisstjórnin einnig þunga áherslu á að ekki væri þörf á því að hamstra matvæli, birgðalínur myndu áfram haldast opnar.

Vildi helst reka heilbrigðisráðherrann

Þessar hörðu aðgerðir Nýja-Sjálands, einkum lokun landamæra, vöktu mikla athygli um heim allan enda ferðaþjónusta ein af undirstöðuatvinnugreinum landsins. Tveimur dögum eftir lokunina ávarpaði Arden forsætisráðherra þjóð sína og benti á að heimurinn hefði breyst mjög á afar skömmum tíma. Lokun væri því nauðsynleg. „Á undanförnum vikum hefur heimurinn breyst. Og hann hefur breyst á afar skömmum tíma,“ sagði hún.

Fjórum dögum síðar, 25. mars, lýsti forsætisráðherrann yfir neyðarástandi í landinu með umfangsmiklum lokunum og takmörkunum í fjórar vikur. Samhliða lokuðu skólar landsins og öll fyrirtæki sem ekki eru talin nauðsynleg. „Haldið ykkur heima, það mun rjúfa smitkeðjuna og bjarga mannslífum,“ sagði ráðherrann.

David Clark, heilbrigðisráðherra Nýja-Sjálands, var harðlega gagnrýndur fyrir umdeilda ferð …
David Clark, heilbrigðisráðherra Nýja-Sjálands, var harðlega gagnrýndur fyrir umdeilda ferð á ströndina.

Athygli vakti á þessum tíma að heilbrigðisráðherra landsins, dr. David Clark, varð uppvís að því að brjóta fyrirmæli stjórnvalda, en hann fór ásamt fjölskyldu sinni í gönguferð um strönd eina. Á sama tíma var fólki gert að fara ekki út að ástæðulausu, á meðan neyðarástand ríkir má eingöngu fara út úr húsi til að sækja mat og aðrar nauðsynjar. Forsætisráðherrann brást illa við og neyddist heilbrigðisráðherrann til að biðjast opinberlega afsökunar á þessum dómgreindarbresti sínum. „Ég myndi við venjulegar aðstæður reka heilbrigðisráðherrann. Það sem hann gerði var rangt og fyrir því eru engar afsakanir. En núna er áhersla mín á sameinuðu átaki gegn Covid-19. Við megum ekki við miklu rofi í heilbrigðismálum eða í aðgerðum okkar. Það er eina ástæða þess að dr. Clark fær að halda hlutverki sínu,“ sagði Ardern forsætisráðherra.

Gott gengi Nýja-Sjálands í baráttunni við veiruna virðist vera blanda af vísindum og sterkrar forystu. Samhliða markvissum aðgerðum stjórnvalda voru sýnatökur þar einnig áberandi. Hafa nú vel yfir 50 þúsund sýni verið prófuð fyrir kórónuveiru þar í landi. Að sama skapi hefur ekki þurft að leggja mikinn fjölda fólks inn á sjúkrahús. 

Þá hefur einnig verið bent á að aldur þeirra sem greinst hafa með kórónuveiru á Nýja-Sjálandi er fremur lágur í samanburði við mörg önnur ríki, s.s. Ítalíu. Þannig eru um 25% þeirra sem eru með staðfest og líklegt smit á aldrinum 20-29 ára. Þeir sem eru á aldrinum 30-39 ára eru 15%.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, hefur í þarlendum fjölmiðlum sagt að ekki sé ástæða til að aflétta neyðarástandi fyrr en áætlað var í upphafi. Segir hún jafnvel koma til greina að framlengja ástandið með tilheyrandi lokunum. „Ef við hreyfum okkur of snemma þá gæti komið bakslag,“ sagði hún. 

Ekkert smit í langan tíma

Færeyjar eru annað land sem vakið hefur athygli fyrir góðan árangur til þessa. Íbúafjöldi þar er rúmlega 52 þúsund, staðfest smit 184 og ekkert andlát. Þegar faraldurinn fór sem hraðast í eyjunum upp úr miðjum mars greindust að jafnaði um 15 með veiruna dag hvern en mjög hefur dregið úr smitum síðustu daga. Hefur smit nú ekki greinst þar í rúma viku.

Fyrsta smit kórónuveiru greindist í Færeyjum 4. mars. Var um að ræða færeyskan karlmann sem kom til eyjanna 24. febrúar eftir ferð til Parísar. Var hann þegar settur í einangrun ásamt fjölskyldu sinni. „Við erum vel undirbúin nú þegar Covid-19 hefur náð til Færeyja. Við lítum málið alvarlegum augum og fylgjumst grannt með framvindu,“ sagði Kaj Leo Holm Johannesen, heilbrigðisráðherra Færeyja, á blaðamannafundi sem haldinn var vegna smitsins. Í kjölfarið var þeim tilmælum beint til Færeyinga sem ferðast höfðu til Kína, Íran, Suður-Kóreu og norður Ítalíu að einangra sig á heimili sínu í 14 daga frá komu.

Kaj Leo Holm Johannesen, heilbrigðisráðherra Færeyja.
Kaj Leo Holm Johannesen, heilbrigðisráðherra Færeyja.

Færeyska landsstjórnin greip til aðgerða 12. mars í von um að hægja á faraldrinum. Skólum var lokað, allir þeir, sem á því höfðu tök, voru hvattir til að vinna heima, og lagt var bann við því að fleiri en hundrað kæmu saman. Þá var veitingahúsum gert að loka klukkan tíu á kvöldin. Auk þess var landamærunum að hluta lokað í samræmi við reglur, sem Danir settu. Upphaflega áttu þessar aðgerðir að gilda í hálfan mánuð en þær voru síðan framlengdar. Þótt færeysku reglurnar væru ekki eins strangar og t.d. í Danmörku tóku Færeyingar þær alvarlega og göturnar í Þórshöfn og öðrum bæjum hafa nánast verið auðar.

Líkt og Nýja-Sjáland hafa Færeyingar tekið fjöldann allan af sýnum, eða á fimmta þúsund sýni sem svarar til um 10% af eyjaskeggjum.

Byrja að opna í næstu viku

Færeysk stjórnvöld eru nú farin að velta því fyrir sér hvenær og hvernig þau geti losað um þessar hömlur. Hefur Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja, sagt mikilvægt að fara varlega í þær aðgerðir til að varðveita þann góða árangur sem náðst hefur í baráttu við veiruna. „Við lærum meira og meira á hverjum degi sem líður. Smitþróunin hefur verið jákvæð og við verðum að tryggja að ekki falli á þá mynd, en á sama tíma gerum við okkur grein fyrir því að gangverk samfélagsins þarf að komast af stað á ný,“ sagði hann.

Nú er stefnt að því að opna dagheimili, leikskóla og yngstu bekki grunnskóla 20. apríl nk. Þá mun íþróttastarf einnig hefjast á ný, án áhorfenda þó. Sjálfir segja Færeyingar að góður undirbúningur og skjótar aðgerðir hafi skipt sköpum við að hefta útbreiðslu veirunnar. 

Óvissustigi lýst yfir í janúar

Hér á landi var óvissustigi lýst yfir 27. janúar vegna útbreiðslu kórónuveiru á heimsvísu. Tveimur dögum síðar var fólki ráðið gegn ónauðsynlegum ferðalögum til Kína og mælst til þess að Íslendingar sem þaðan koma fari í 14 daga heimasóttkví. Fjögur héruð á Norður-Ítalíu bættust á listann 24. febrúar og fjórum dögum síðar var fyrsta smit staðfest á Íslandi og hættustig virkjað. Fyrstu smit í samfélaginu eru staðfest 6. mars og neyðarstig almannavarna þá virkjað.

Ráðherrar og sóttvarnalæknir tilkynna um samkomubann.
Ráðherrar og sóttvarnalæknir tilkynna um samkomubann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Staðfest smit kórónuveiru á Íslandi eru 1.727 og hafa átta látist til þessa. Hlutfall þeirra sem látist hefur vegna veirunnar er því 0,5%. Einungis er vitað um átta smit hér á landi sem ekki hefur tekist að rekja, en frá 13. mars hafa smit í samfélaginu minnkað um 2% á hverjum degi.

Íslensk stjórnvöld tilkynntu um samkomubann 13. mars og tók það gildi aðfaranótt mánudagsins 16. mars. Voru þá samkomur takmarkaðar og mörkin sett við 100 manns. Framhalds- og háskólum var lokað og rekstur leik- og grunnskóla takmarkaður. Á sama tíma hóf Íslensk erfðagreining almenna skimun fyrir veirunni í samfélaginu. Fyrstu niðurstöður bentu strax til þess að óþekkt smit væru fá úti í samfélaginu. 

Sex dögum seinna, eða 19. mars, voru öll ríki skilgreind sem áhættusvæði. Með því var íslenskum ríkisborgurum og fólki með búsetu á Íslandi gert að sæta 14 daga sóttkví við komuna til landsins. Aðfaranótt 24. mars tóku enn hertari aðgerðir gildi og mörk samkomubanns sett við 20 manns. Í kjölfarið lokuðu fjölmörg fyrirtæki, sundlaugar, verslanir, gistihús og veitingastaðir.

Sérstakt rakningarapp fyrir snjallsíma var kynnt á blaðamannafundi 2. apríl. Tilgangur þess er að auðvelda smitrakningu en fleiri ríki, einkum í Asíu, hafa notast við sambærilegt forrit. Samkomubann og takmarkanir á skólahaldi var svo framlengt til 4. maí á blaðamannafundi sem haldinn var daginn eftir.

Frá fundi almannavarna með blaðamönnum sem haldinn er í Skógarhlíð …
Frá fundi almannavarna með blaðamönnum sem haldinn er í Skógarhlíð í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á blaðamannafundi almannavarna sem haldinn var 15. apríl kom meðal annars fram að öflugt smitrakningarteymi hefði í bland við aðgerðir yfirvalda skipt sköpum í baráttunni við veiruna hér á landi. Ekki er þó útlit fyrir að hömlum verði aflétt á næstunni, einkum þegar kemur að ferðum fólks til og frá Íslandi. Hefur sóttvarnalæknir sagst vilja flýta sér hægt í þeim efnum af ótta við nýjan faraldur.

mbl.is