„Við ætlum að sofa á þessu“

Ekki náðist að halda stjórnarfund í dag.
Ekki náðist að halda stjórnarfund í dag. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Tek­in verður ákvörðun um það á stjórn­ar­fundi Vinnslu­stöðvar­inn­ar á morg­un hvort skaðabóta­máli á hend­ur ís­lenska rík­inu verði haldið til streitu. Þetta staðfest­ir Sig­ur­geir Brynj­ar Krist­geirs­son, fram­kvæmda­stjóri Vinnslu­stöðvar­inn­ar, í sam­tali við mbl.is.

Fimm af sjö út­gerðarfé­lög­um, sem höfðuðu skaðabóta­mál á hend­ur rík­inu, vegna ágrein­ings um út­hlut­un afla­heim­ilda á mak­ríl, féllu frá kröf­unni í dag. Vinnslu­stöðin hf. og Hug­inn ehf. voru ekki á meðal þeirra. Krafa fé­lag­anna hljóðaði upp á 10,2 millj­arða króna auk vaxta.

„Við ætl­um að sofa á þessu, taka stjórn­ar­fund á morg­un og fara yfir málið,“ seg­ir Sig­ur­geir. Hann sagði stjórn­ina þó hafa talað sam­an en til stóð að halda stjórn­ar­fund í dag. Það náðist hins veg­ar ekki. „Í svona stór­um mál­um verða all­ir stjórn­ar­menn að sitja,“ bæt­ir hann við, en það mun skýr­ast síðdeg­is á morg­un hver ákvörðunin verður.

mbl.is